Það er dálítið fúlt að missa af góðu íslensku sumri. Íslensk sól er einhvern veginn verðmætari en önnur sól.
Ekki að ég þurfi að kvarta. Ég var í Grikklandi í miklu góðviðri. Reyndar gerði ógurlega hitabygju meðan ég var þar ég var þar – þó bara í nokkra daga. Sem betur fer var ég á eyju þar sem var smá andvari.
Í Berlín kom líka mjög heitt veður. Einn dagurinn þar var líklega sá heitasti sem ég hef lifað á norðurhveli jarðar. Hitinn var eins og úr blástursofni.
Nú er ég í London. Ég sé fréttir á vefnum um flóð og ógurlegar rigningar. Samt hefur maður ekki orðið var við neitt annað en skúrir. Í gærkvöldi sátum við með vinum okkar í garðveislu undir berum himni; klukkan tíu var reyndar orðið svolítið kalt.
Ég er að koma heim á morgun. Vona að ég fái líka skammt af dýrmætri íslenskri sól.