Eru það leiðinlegir menn sem fá vinnu á Economist eða verða menn leiðinlegir af því að vinna þar? Það er ekki útilokað að þeir hafi að mörgu leyti rétt fyrir sér í markaðstrú sinni, en það vantar blæbrigðin – maður veit alltaf fyrirfram hvað Economist mun segja um öll mál. Forsíðurnar eru flottar, en blaðið veldur vonbrigðum í hvert sinn sem ég kaupi það.
Reyndar kemur það mér yfirleitt í vont skap. Tónninn í því er svo yfirlætisfullur – þarna skrifa menn sem eru handhafar sannleikans. Að lesa það er eins og að vera lokaður inni í hebergi með hóp af besserwisserum.
— — —
Economist boðar ómengaða markaðshyggju. Lausnir markaðarins eru alltaf bestar. Larry Elliott skrifar ágæta grein um svona trúarbrögð í Guardian í gær. Hann bendir á húsnæðis- og lánamarkaðinn undanfarin ár.
Lánum hefur verið dælt út, sérstaklega í Bandaríkjunum, fyrst til þeirra sem höfðu efni á að borga þau aftur, síðar til þeirra sem voru ekki jafn öruggir borgunarmenn. Bankarnir létu eins og þetta væri tóm manngæska – Eliott segir að hún sé þá í sama skilningi og þegar mafían lánar smákaupmönnum. Bankarnir töldu sig geta selt eignirnar aftur með hagnaði ef lántakendurnir gætu ekki staðið í skilum.
Lánin voru svo seld áfram sem skuldabréf með misjafnri áhættu. Margir urðu óskaplega ríkir á húsnæðisbólunni – verð á húsnæði hækkaði bara og hækkaði. Braskið var óskaplegt; það var þetta sem hélt bandaríska hagkerfinu uppi.
Nú eru aðstæður að breytast. Húsnæðismarkaðurinn í Bandaríkjunum er í frjálsu falli. Verðmæti skuldabréfanna og afleiðanna svokölluðu reynist ansi miklu minna en stóð í reiknilíkönum bankanna.
Elliott líkir þessum aðförum við ungling sem hefur verið settur próflaus bak við stýri og látinn keyra út á vegina. Einhver myndi kannski telja það frelsissviptingu að láta hann taka próf. Flest myndum við líklega kalla það skynsemi.
Afleiðing þenslunnar á lánamarkaði hefur líka verið sú að húsnæðisverð hefur hækkað óskaplega. Almenningur þarf sífellt að verja hærri hluta af tekjum sínum í að borga af lánum. Er þá hægt að segja að markaðurinn hafi virkað vel í þessu tilliti?
— — —
Og kannski var þenslan heima ekki Íbúðalánasjóði að kenna eftir allt – eða var þetta ekki bara liður í alþjóðlegri þróun þar sem bankarnir tóku ódýr lán þar sem þau fengust og lánuðu svo peningana aftur til fólksins í landinu með miklu hærri vöxtum og græddu óskaplega? Við erum ekki ein á báti þarna Íslendingar frekar en oftastnær.