Þegar ég var ungur maður vann ég um tíma á NT – það var tilraun til að hressa upp á Tímann – NT stóð víst fyrir Nýja Tímann. Gekk ekki mjög lengi.
Þetta voru samt skemmtilegir tímar. Þarna vann fullt af góðu fólki. Helsti stjórnmálaskýrandinn var Baldur Kristjánsson, síðar sóknarprestur; hann hélt úti nær daglegum pistlum um stjórnmál sem oftast voru góðir.
Baldur hefur greinilega ekki alveg gleymt gömlum töktum því í dag skrifar hann á bloggsíðu sína ágæta greiningu á ástandinu innan Framsóknarflokksins. Maður hlýtur að velta því fyrir sér eins og hann hvort flokkurinn muni einfaldlega lognast út af, hvort hann flytji endanlega í sveitina með Guðna og Bjarna Harðar eða hvort yngri menn eins og Björn Ingi Hrafnsson muni gera tilraun til að taka flokkinn yfir.
Ef ekki hlýtur að vera hætta á að Björn Ingi og félagar fari annað.
En þetta skrifar Séra Baldur undir fyrirsögninni Ónýtur flokkur:
„Grunur minn er staðfestur. Í Viðskiptablaðinu sé ég svart á hvítu að formann Framsóknarflokksins greinir í grundvallaratriðum á við varaformann flokksins Valgerði Sverrisdóttur um það hvort líta eigi til evrunnar þ.e. nánara samstarfs við Evrópu. Í Guðna Ágússyni hinum mikla sjarmör frá Brúnastöðum sér maður þjóðlegan, íhaldssaman bændaflokk, flokk sem er úti á túni að slá og hirða og sækir í þjóðlegan fróðleik á kvöldin eftir mjaltir. Annars vegar sér maður þennan flokk og hins vegar flokk Valgerðar sem hefur gluggann í hálfa gátt í átt til umheimsins, sér Ísland sem hluta af veröldinni og veltir upp alvöruspurningum eins og þeim hvort við eigum að fá greitt fyrir ullina og mjólkina í krónum eða evrum.
Þessi breiða og djúpa gjá milli forystumanna flokksins var eitt af því sem gerði flokkinn lítt fýsilegan kost fyrir kjósendur þrátt fyrir afburðadiplómatinn Jón Sigurðsson við stjórnvölinn. Að honum burtköstuðum er ekki lengur breitt yfir ágreininginn viturlega.
Ekki bætir úr skák að eini þingmaður flokksins sem er náttúrutalent í skrifum og tali hefur arfavitlausar skoðanir á köflum og það sem verra er setur þær fram t.d. það að Íslendingar leggist í hvaladráp á afmörkuðum svæðum og flytji hræin ekki einu sinni í land. Bjarni er dæmdur til þess að vera andlit Framsóknarflokksins og það má ekki verða til þess að frjálslyndir, skynsamir menn gangi endanlega…. frá flokknum.“