fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Eyjan

Vændi, siðferðisvitund og hreinlætisárátta

Egill Helgason
Föstudaginn 13. júlí 2007 07:44

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

cr_4.jpg

Í sjónvarpsmynd sem ég gerði um Reykjavík og var sýnd í Sjónvarpinu árið 2000 lýsti ég Íslandi sem stað sem væri svo smár að ef vændiskona ætlaði að taka til starfa kæmi það í fjölmiðlunum daginn eftir.

Þetta hefur greinilega ekkert breyst.

Nú má vera að allt sé fullt af vændi á Íslandi – en ég hef ekki tekið eftir því. Man ég rétt eða var það ekki Davíð Oddsson sem – aðspurður um hvort við ættum að taka upp sænsku leiðina til að sporna gegn vændi – sagði að það væri kannski óþarfi að beita miklum ráðstöfunum gegn vandamáli sem væri ekki til í landinu?

Siðferðið á Íslandi er reyndar mjög skrítið. Annars vegar þykir sjálfsagt að fólk stundi mikið og fjölbreytt kynlíf utan hjónabands – detti upp í rúm með bláókunnugu fólki um helgar – hins vegar hvílir talsverð bannhelgi á hlutum eins og vændi og klámi.

Ég er í Þýskalandi. Þar er allt fullt af vændi. Hérna skammt frá er Oranienburgerstrasse þar sem standa vændiskonur á kvöldin, furðulega klæddar, líkt og í einkennisbúningi – allar í plankaskóm, með ljóst litað hár, einhvers konar lífstykki reyrð um miðjan búkinn til að framkalla vöxt sem er eins og stundaglas – þetta er einkennilega ósexí.

Ekki veit ég hvert þær fara með kúnnanna, en einhver grundvöllur hlýtur að vera fyrir þessari starfsemi.

Ég verð að viðurkenna að ég er á báðum áttum hvað varðar vændi. Óttast að það fullkomna samfélag verði seint til þar sem þessi atvinnugrein er ekki stunduð (nema kannski í nábýli eins og á Íslandi). Er líka hræddur um að þessi útópía feli í sér heim þar sem boð og bönn eru mjög í fyrirrúmi. Við getum því miður ekki útrýmt öllu sem ljótt er, hvimleitt og ósæmilegt úr heiminum. Sagan hefur sýnt að það getur verið hættulegt að reyna það.

Að sumu leyti væri nær að gera hlutskipti þeirra sem stunda vændi betra, að þessar konur séu ekki handan við lög og rétt, þurfi ekki að vera ofurseldar ofbeldismönnum, nútíma þrælahöldurum og þeim sem stunda mansal. Það er einn hryllilegasti glæpur sem hægt er að hugsa sér.

Vændi er því miður betur borgað en mörg önnur störf. Það eru ekki allar konur sem fara út í vændi vegna neyðar – eins óskemmtileg tilhugsun og mörgum kann að finnast það. Í Þýskalandi og Hollandi hafa jafnvel verið starfandi verkalýðsfélög vændiskvenna. Konur sem stunda vændi þurfa að hafa einhvers konar vernd frá samfélaginu, bæði hvað varðar öryggi og heilsu, lögreglu og lækna – því verður varla náð með því að banna starfsemina og láta hana fara fram neðanjarðar.

Þetta eru viðhorf sem eiginlega mega ekki heyrast í umræðunni á Íslandi. Mér skilst að Sigurður Kári hafi varla þorað að taka sér neitt þessu líkt munn í sjónvarpskappræðum um daginn. Ég er samt ekki viss um að þeir sem tala fyrir sænsku leiðinni varðandi vændi beri endilega fyrir brjósti hag kvennanna sem stunda þessa atvinnugrein – frekar er eins og þeir vilji ekki hafa þessi óþrif nærri sér, þetta er eitthvert afbrigði af hreinlætisráráttu.

En þetta er sjálfsagt líka spurning um menningarmun. Fyrir nokkrum árum voru í Silfrinu hjá mér Holger Nielsen, formaður Socialistisk folkeparti í Danmörku og Kristin Halvorsen frá Sosialistisk venstreparti í Noregi. Þau voru hérna á landsfundi Vinstri grænna, systurflokks síns.

Ég spurði þau um sænsku leiðina. Halvorsen frá hinum púrítaníska Noregi vildi endilega að hún yrði farin. Þar er ábyggilega samhljómur milli hennar og heimatrúboðsins. Nielsen frá Danmörku varð hins vegar þungur á svip og taldi að þetta væri tóm vitleysa.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“