Ég er ekkert ofsalega mikið fyrir sakamálasögur. Les fáa en valda höfunda í þeim geira. Nú er ég glaður því þrír uppáhaldshöfundar mínar á þessu sviði eru að gefa út nýjar bækur.
Síðasta bókin um Aurelio Zen eftir Michael Dibdin kemur út á næstu dögum. Hún heitir víst End Games. Viðeigandi titill því Dibdin lést í vor.
Martin Cruz Smith hefur skrifað nýja bók um lögreglumanninn Arkadí Renko sem starfar í Mosku. Titillinn lofar góðu – hún heitir Stalin´s Ghost.
Svo er það Philip Kerr. Hann er ekki ýkja þekktur, en fyrir næstum tuttugu árum skrifaði hann röð þriggja bóka um lögreglumanninn Bernie Gunther. Gunther starfar í Berlín á tíma Þriðja ríkisins. Nú hefur Kerr skrifað fjórðu bókina um hann. Hún gerist stuttu eftir stríðið og fjallar náttúrlega um samsæri nasista sem eru ekki dauðir úr öllum æðum…