Í gær keypti ég þrjá fiska af karli sem kemur hérna upp í þorpið á morgnana og selur fisk. Þeir voru samanlagt 1,7 kíló, kostuðu 52 evrur. Ég kann ekki að nefna þessa fiska, Grikkir kalla þá Barbounia.
Fiskur er dýr í Grikklandi. Hann er matur fyrir ríkt fólk. Vinkona mín hérna sem er aðeins eldri en ég segir mér að þegar hún var að alast upp hafi fiskur verið matur fátæka fólksins.
Nú eru kjúklingar og svínakjöt matur fátæka fólksins.
Um kvöldið fórum við niður á frekar afskekkta strönd, á litla tavernu sem þar er. Þar var fiskurinn grillaður fyrir okkur að hætti Miðjarðarhafsþjóða, í heilu lagi, með sítrónu, salti og olíu. Það er best.
Við erum skrítin þjóð Íslendingar. Höfum alltaf haft nóg af fiski en kunnum ekki að elda hann.