Á bílastæðinu við hótelið þar sem við dveljum halda til tvær kindur og stundum asni.
Þetta er ósköp vinalegt en mikið hlýtur skepnunum að vera heitt.
Hitabylgja gengur yfir austanvert Miðjarðarhafið. Í gær náði ég að sjá helminginn af sjónvarpsfréttatíma. Þar var ekki fjallað um neitt annað en hitann. Í Aþenu fór hann upp meira en 42 gráður – hér úti á eyjunni hafa líklega verið svona 37-38 gráður.
Það er algjört logn sem er óvenjulegt. Sjórinn er óvenju heitur miðað við árstíma. Um svipað leyti í fyrra var hann svo kaldur að maður komst varla ofan í.
Rafmagnið fer af annað veifið. Greinilegt að kerfið þolir ekki alla loftkælinguna. Það er einn hraðbanki hér á eyjunni. Hann hefur verið bilaður í fjóra daga svo brátt verður maður uppiskroppa með fé. Kortanotkun er ekki útbreidd hér.
Konan mín getur kannski unnið fyrir sér með því að elda ofan í fólk. Sjálfur kann ég ekkert sem getur komið að gagni í sjálfsþurftasamfélagi. Ég get bara setið með körlunum allan daginn og drukkið kaffi.