fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Eyjan

CHURCHILL OG ÖRLAGASTUNDIN

Egill Helgason
Þriðjudaginn 26. júní 2007 21:52

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

207px-winston_churchill.jpg Í nýútkominni bók, A History of Modern Britain, skrifar Andrew Marr um örlagastund, augnablik sem hann segir að hafi haft áhrif á allt sem eftir kom. Þetta var 28. maí 1940. Þýski herinn hafði lagt undir sig Frakkland, Niðurlönd, Noreg og Danmörku. Breski herinn var innikróaður í Dunkirk og var að reyna að komast undan á flótta með öllu sem flaut. Milli Hitlers-Þýskalands og Sovétríkja Stalíns ríkti griðasáttmáli. Í skjóli hans höfðu ríkin skipt milli sín Póllandi, Eistlandi, Lettlandi og Litháen. Leyniviðaukar við samninginn hafa síðar komið fram, þeir sýna að svikráðin voru slík að harðstjórarnir höfðu beinlínis ákveðið að skipta milli sín gjörvallri Evrópu.

Bretland var í raun eina ríkið í heiminum sem enn stóð uppi í hárinu á nasistum. Þennan dag var spurning um uppgjöf eða ekki. Hugmyndir Jeans Monnet og De Gaulles um að sameina Bretland og Frakkland gegn aðsteðjandi hættu höfðu dottið uppfyrir. Petain marskálkur kallaði þær hlægilegar og myndaði leppstjórn nasista. Winston Churchill var loks orðinn forsætisráðherra, hann hafði áður verið einangraður í þeirri afstöðu sinni að Münchenar-samningurinn væri vanvirða – þótti skrítinn, fullur og sérvitur.

Clement AttleeMeð Churchill í sérstakri innri ríkisstjórn – war cabinet – voru tveir erki-griðkaupamenn, Chamberlain sem hafði verið fagnað eins og hetju eftir München en dó stuttu síðar og Halifax lávarður sem nokkrum misserum áður hafði ekki átt nógu fögur orð til að lýsa foringjum nasista (hann lofaði meðal annars „einlægni Hitlers“). Þeir voru úr Íhaldsflokknum.

Nevill ChamberlainFrá Verkamannaflokknum sátu í stjórninni Clement Attlee, sem strax eftir stríðið átti eftir að verða einn merkasti forsætisráðherra Bretlands, en var óreyndur í alþjóðamálum, og Arthur Greenwood, stjórnmálamaður sem er flestum gleymdur en átti þarna sína frægðarstund. Churchill sjálfur var flokkaflakkari, þótti alltaf lélegur flokksmaður – líklega hefði stjórnin reynt að semja um frið ef þar hefðu einungis setið íhaldsmenn.

Friðarsamningur milli Bretlands og Þýskalands á þessum tíma hefði breytt gangi mannkynssögunnar. Hugmyndir voru uppi um að Mussolini hefði milligöngu um slíkan samning. Afleiðingarnar hefðu hugsanlega verið þær að í London hefði verið mynduð einhvers konar leppstjórn nasista. Áætlanir voru uppi um að flytja kónginn og fjölskyldu hans til Kanada. Samningsstaða Breta var ekki sterk. Ef atburðarásin hefði verið þessi hefðu Bandaríkjamenn líklega ekki blandað sér í stríðið – þar innanlands var mikil andstaða gegn því.

Staðan hefði ekki verið ólík því sem Robert Harris lýsti í spennusögunni Föðurland. Þýskt áhrifasvæði hefði náð frá Skotlandi og austur í Úralfjöll. Þjóðverjar hefðu verið einráðir í Evrópu. Þeir heðu líklega sigrað Sovétmenn. Bandaríkin hefðu átt sitt veldi vestanhafs og kringum Kyrrahafið. Ísland hefði líklega lent á þýska svæðinu. Þjóðverjar hefðu komið hingað fyrr eða síðar.

En Churchill var maður stundarinnar. Hann varð á augabragði stórbrotinn leiðtogi þjóðar í stríði. Hann sannfærði ríkisstjórnina um að ekki kæmi annað til greina en að berjast – naut þar stuðnings Attlees sem var sósíalisti en líka þjóðhollur með afbrigðum. Churchill hélt fræga ræðu þar sem hann sagði að saga þjóðarinnar skyldi ekki enda fyrr en hún lægi köfnuð í blóði.

Kona ein skrifaði á bloggsíðu og lagði út af einhverju sem ég skrifaði frá Berlín um daginn. Hún vildi kalla Churchill stríðsglæpamann – að mig minnir út af Dresden. Churchill var vissulega breyskur maður. Furðulegur að mörgu leyti. Það er til dæmis líka hægt að gagnrýna hann fyrir að skila aftur flóttamönnum frá Sovétríkjunum og Júgóslavíu – hermönnum, stríðsföngum og fleiri – eftir stríðið. Þeirra beið margra vís dauði.

En þarna var Churchill algjörlega réttur maður á réttum tíma. Og það er þetta sem gerir Churchill að tröllaukinni persónu í mannskynssögunni. Breska heimsveldið hrundi eftir þetta. Það var óhjákvæmilegt. Bretar höfðu í raun ekki efni á að heyja stríð – aðstoðin sem kom frá Bandaríkjunum var keypt miklu dýrari verði en talið hefur verið. Churchill var svo settur af í kosningum nokkrum dögum eftir að stríðinu lauk. En það var að vissu leyti lógískt. Það var áfall fyrir hann, en þegar hann var búinn að ná sér sagði hann:

„Þetta er lýðræðið, þetta er það sem við börðumst fyrir.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“