Í gær varð rafmagnslaust á eyjunni. Rafmagnið fór af snemma kvölds, kom ekki aftur fyrr en um nóttina. Mér sýndist líka vera rafmagnslaust á eyjunum í kring, það séust ekki ljóstýrur þaðan. En það var tunglsljós og stjörnurnar óvenju bjartar. Bærinn hvítur og sjórinn silfraður í tunglsljósinu. Hvarvetna var kveikt á kertum og lömpum. Það myndaðist samkennd eins og þegar rafmagnið fer – fólkið sat lengi úti.
Jú, þetta var rómantískt. Grísk lög fjalla gjarnan um tungsljósið. Maður greindi ekki almennilega andlitin á fólkinu, en maður sá annað, til dæmis orma sem glóa í myrkrinu.
Vissulega voru nokkrir erfiðleikar. Til dæmis stöðvaðist pumpan sem dælir vatni í kranana svo maður þurfti að þvo sér úr flöskuvatni – ein flaska á mann. Það er samt ekki átakanlega mikill skortur.
Um nóttina komust nútímaþægindin aftur á. Rafmagnsleysið stafar líklega af því að hér er hitabylgja og loftræstikerfi á fullu um allt landið. Ég hef aldrei verið á eyjunni í slíkum hita í júní. Oft er hér svalt á kvöldin, peysuveður. Sumrin eru ekki ýkja löng hérna. Bærinn stendur uppi á klettabelti; þar stendur oft kaldur gustur upp. Stundum leggst hann í þráláta norðanátt, það er vindur sem kallast meltemi. Það bólar ekki á honum núna.
Í Aþenu hlýtur að vera hreinasta helvíti. Vindurinn sem blæs núna er eins og út úr ofni. Maður fer út eldsnemma á morgni og það er enginn svali.