fbpx
Sunnudagur 21.júlí 2024
Eyjan

Lampabúð Erichs rifin

Egill Helgason
Laugardaginn 23. júní 2007 14:28

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

palast.jpgÞeir eru í óða önn að rífa Palast der Republik í Austur-Berlín eins og sjá má á meðfylgjandi mynd sem ég tók með gemsanum mínum. Húsið hefur reyndar verið lokað um nokkurra ára skeið, að sögn vegna asbestmengunar. Sumir segja að það hafi ekki verið annað en fyrirsláttur.

 

 

Heima á ég heila bók um þessa miklu byggingu – ég keypti hana á fornbókamarkaði við Humboldt háskólann á Unter den Linden fyrir nokkrum árum. Bókin sýnir nýtt hús, fullt af flokksbroddum og ungum kommúnistum í hátíðarskapi. Húsið var skreytt stórum veggmyndum sem fjölluðu um baráttu alþýðunnar og húsbúnaði sem var svo retró að Oddur Þórisson kunningi minn hefði verið tilbúinn að deyja fyrir hann. Það hefði verið hægt að gefa út marga árganga af Wallpaper með myndum úr Palast der Republik.

Þarna inni voru líka ráðstefnusalir sem gátu rúmað gervallt þing kommúnistaflokksins, veislusalir til að taka á móti erlendum pótintátum, kvikmyndasalir, diskótek og keiluhöll. Flokkurinn hélt fjöldagöngur á torginu og breiðgötunum þarna í kring. Allt í gígantískum kommastíl – þegar ekki var verið að marséra stóðu trabantar í röðum á bílastæðinu fyrir utan.

hollin.jpg

 

Ekkert var til sparað. Byggingin var 180 metra löng. Það var svo mikið af ljósakrónum að húsið var kallað „lampabúð Erichs“ (Honeckers).

— — —

Þetta var ógurlegt ferlíki og varla til prýði í miðborginni fremur en aðrar byggingar frá tíma alþýðulýðveldisins. Kannski er ekki eftirsjá af húsinu. Á sínum tíma var helsta áhugamál gamalla stalínista eins og Honeckers að koma allri þjóðinni í stórar blokkir, svokölluð plattenbau, byggð úr einingum, sem risu alls staðar og settu þjóðina nánast á hausinn á endanum.

Byggingastíllinn ber ekki bara vitni um ótrúlegt smekkleysi – algjört fagurfræðilegt gjaldþrot – heldur má segja að þarna hafi módernískur arkítektúr eftirstríðsáranna endanlega gengið af göflunum. Fólkið fékk að sönnu húsaskjól og nokkuð öryggi, hver sinn kassa. Honecker trúði því til dauðadags að þetta hefðu verið framfarir, en hverfin virka hræðilega mannfjandsamleg nú nokkrum áratugum síðar.

Það er eiginlega ekkert annað hægt að gera en að rífa þau smátt og smátt.

— — —

Samt finnst manni dapurt þegar reynt er að þurrka út fortíðina. Berlín er borg sögunnar, maður sekkur inn í söguna þegar maður kemur þangað. Ör hinnar hræðilegu tuttugustu aldar er alls staðar að finna. Helstefnur aldarinnar gerðu borgina að því sem hún er núna – heillandi og dularfullri blöndu af löskuðum gömlum húsum og nútímalegum byggingum, ljótleika og krafti.

Berlín verður seint talin falleg borg, en hún er að ýmsu leyti áhugaverðari en hin íðilfagra París.

Nú stendur til að endurbyggja þarna gömlu keisarahöllina sem var sprengd í stríðinu og Walter Ulbricht lét rífa endanlega 1950. Ég er ekki viss um að mér þyki það góð hugmynd.

— — —

Árið 2000 kom ég til Berlínar í fyrsta skipti eftir að Múrinn féll. Gekk um borgina dögum saman og horfði hugfanginn á minjar eftir nasista og kommúnista. Sænska granítinu sem átti að fara í að byggja Germaníu, hina nýju höfuðborg sem Hitler ætlaði að reisa ofan á Berlín, var fundinn staður í risastóru sovésku minnismerki í Treptower garðinum. Þar er að finna fjölmargar lágmyndir með vísdómsorðum eftir sjálfan Stalín sem reyndist ómögulegt að þurrka út eftir að hann féll í ónáð. Til þess hefðu þeir þurft að sprengja sjálft minnismerkið.

Lengst gekk ég á risastórri en fámennri breiðgötu í austrinu sem eitt sinn hét Stalinallé.
stalinalle.jpgHún var byggð á árunum upp úr 1950 sem tákn um nýtt Þýskaland sósíalismans. Allir áttu að leggja sitt af mörkum. Vinnusveitir komu víða að til að hreinsa burt rústir og reisa stórhýsin; loks var fólkinu nóg boðið og gerði uppreisn sem er kennd við 17. júní 1953.

 

Byggingarstíllinn er sætabrauð – það sem Þjóðverjar kalla zuckerbäck. Stalín hafði smekk fyrir þessari útgáfu af nýklassísisma. Smekkur Hitlers var ekki ýkja ólíkur en ögn harðneskjulegri þó. Samt er í þessu einhver annarleg fegurð; eins og maður sé að horfa á bústaði fólks sem kom utan úr geimnum.

 

En svo hvarf styttan af Stalín sem stóð við götuna eina nótt. Nafni strætisins var breytt. Það var skírt Karl Marx allé. Nú vilja sumir taka upp gamalt nafn götunnar og láta hana heita Grosse Frankfurter Strasse.

 

— — —

Síðasta daginn sem ég var í Berlín þetta sumar, árið 2000, var haldin Love Parade, rave-partí með hálfri milljón ungmenna á Unter den Linden og Siegesallé. Margir voru með blátt hár, hringi í nefi og eyrum; sumir drukknir og dópaðir. Maður hefði vel getað hneykslast á ólifnaðinum.

Mitt í mannþrönginni hugsaði maður þó að þetta væri allmiklu skárra en fjöldagöngur nasista og kommúnista sem höfðu þrammað um þessar sömu götur öldina á undan með vopn, logandi kyndla og hatur í hjarta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 5 dögum

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna

Forsætisráðherra Grænlands heimsótti íslensku gullvinnsluna
Eyjan
Fyrir 6 dögum

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan

Iðjulaus Brynjar fer í búðina oft á dag – Þetta er ástæðan
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra

Svarthöfði skrifar: Gott að vita að stóru málin eru í lagi – lofsverð framsýni utanríkisráðherra
Eyjan
Fyrir 1 viku

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“

Ragnar Þór harðorður í garð stjórnmálamanna sem reyni að gera PISA að kynjamáli – „Harðsvíruð tilraun til að drepa málinu á dreif“