Franska listakonan Sophie Calle er aðal hittið á tvíæringnum í Feneyjum. Kærasti hennar einn sendi henni sms og sagði henni upp. Þetta verður henni uppistaða að miklu verki. Calle hefur látið 107 konur lesa skilaboðin og segja álit sitt á þeim, alls konar konur – skákmeistara, leikkonuna Jeanne Moreau, sálfræðing og dómara.
Gamli kærastinn fær heldur slæma útreið. En verkið hefur tryggt Sophie Calle stjörnusess á tvíæringnum.
Einu sinni þekkti ég mann sem var í sambandi við konu. Þegar slitnaði uppúr því orti hún ljóð um hann í Lesbókina. Það þótti slæmt, eiginlega það versta sem hægt var að lenda í. Svo þekkti ég annan mann sem átti konu sem skildi við hann – hún skrifaði bók um hann. Hann átti sér eiginlega ekki viðreisnar von eftir það. Flutti stuttu seinna úr borginni og norður í land.
En aftur að listinni. Fyrir nokkrum árum sýndi breska listakonan Tracy Emin verk í Tate galleríinu í London sem hún kallaði Rúmið mitt.
Rúmið var heldur sóðalegt. Þar var hægt að finna merki um alls kyns líkamsvessa. Á gólfinu voru skítugar nærbuxur og smokkar. Emin átti að hafa legið í bælinu í marga daga vegna þunglyndis.
Þetta sló líka í gegn. Síðan er Tracy Emin stórstjarna í listaheiminum. Hún keppir við snilling eins og Damien Hirst sem er frægastur fyrir að setja skepnur í formalín.
En er þetta list – eða bara sjálfhverft runk?