fbpx
Miðvikudagur 27.nóvember 2024
Eyjan

Hvernig á að hleypa lífi í þetta?

Egill Helgason
Sunnudaginn 29. apríl 2007 11:31

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Menn eru að velta fyrir sér hvers vegna kosningabaráttan sé jafn dauf og raun ber vitni. Við vorum að búast við mest spennandi kosningum í mörg ár. Nú er eins og þetta sé allt að koðna niður. Aðalástæðan er líklega sú að það er ekki verið að takast á um nein málefni sem fólki finnst skipta verulegu máli. Flokkarnir fara mjög varlega í kosningabaráttunni, passa sig að hafa hana ekki neikvæða, enginn tekur neina áhættu – þetta hentar Sjálfstæðisflokknum geysilega vel.

Kosningarnar virðast aðallega snúast um traust, trúverðugleika og kompetens Geirs Haarde, manns sem engum líkar illa við en vekur svosem engan eldmóð heldur. Hann er að toppa á hárréttum tíma.

Hvað varð af stóriðjumálunum sem kosningarnar áttu að snúast um? Það er eins og þau hafi gufað upp eftir atkvæðagreiðsluna í Hafnarfirði, að þá hafi orðið einhvers konar hreinsun og þjóðin losnað við þetta úr sýsteminu. Það er ekki nokkur leið að koma hita í þá umræðu aftur.

Innflytjendamálin koðnuðu niður í höndunum á Frjálslynda flokknum.Kannski eru vandamálin í kringum innflytjendur ekki orðin nægilega mikil í samfélagi okkar. Eins og stendur er þetta afar karllæg og neikvæð umræða úti á jaðrinum,það virðast ekki margir hafa áhuga.

Það er svosem ærin ástæða til að tala um efnahagsmálin. Að minnsta kosti 18 ástæður – vextirnir hafa hækkað átján sinnum síðan 2004. Það er vissulega góðæri, en efnahagsstjórnin hefur verið fjarska slök. En það er eins og stjórnarandstaðan viti að það skilar henni litlu að tala um þetta – henni er ef eitthvað er síður treyst fyrir hagstjórninni en ríkisstjórnarflokkunum.

Um skatta virðast flestallir mestanpart sammála. Það á ekki að hækka þá og kannski ekki lækka þá sérlega mikið heldur. Meira að segja Vinstri græn eru farin að tileinka sér Lafferkúrvuna sem segir að skatttekjur geti vaxið þótt skatthlutfallið sé lágt – boða hvorki raunverulegar skattahækkanir á fjármagn né fyrirtæki. Eru VG að verða blairistar?

Það er helst í velferðarmálunum að hitastigið fer yfir núllið. Samt er í raun ekki verið að tala um meginatriði í þessum málaflokki, heldur einstaka biðlista, hjúkrunarrými, tannlækningar fyrir börn. Þetta verður ekki hrífandi umræða, en líklega er það þarna sem vinstri flokkunum verður best ágengt.

Það er ekki talað um ESB, lítið um utanríkismál og sjávarútveginn, ekki um heilbrigðiskerfið, ekki um landbúnaðinn, varla neitt að ráði um okursamfélagið, maður heyrir heldur ekki líflega umræðu um kvenréttindi. Umræðan um ójöfnuðinn dó, þó ekki af því að ójöfnuðurinn sé ekki að vaxa í þessu samfélagi.

Umræða um samþjöppun í viðskiptalífinu lognaðist alveg út af við brotthvarf Davíðs. Samt hefur samþjöppunin líklega aldrei verið meiri en nú. Bankarnir eiga hérumbil allt, og sami þröngi hópurinn á bankana.

Sjálfstæðisflokkurinn sækir inn á miðjuna, heldur þar áfram línunni sem var gefin í borgarstjórnarkosningunum. Flokkurinn passar sig á að láta ekki hanka sig á neinu, tekur helst ekki afstöðu. Viðkvæði Geirs Haarde er yfirleitt að sjálfsagt sé að athuga málin. Þannig er flokkurinn eins og fótboltalið sem spilar leiðinlegan en mjög árangursríkan leik.

Stórsókn stjórnarandstöðunnar hefur verið stöðvuð. Steingrímur J. virkar meira að segja tvílráður, svona eins og maður sem á eftir að svara einni spurningu til að vinna miljónina en þorir varla að gefa svarið. Framsókn virðist enn vera að flækja sér í vandræðamál, en það langar engan hinna flokkanna að berja meira á maddömmunni.

Það virðist ekkert sem skiptir sköpum ætla að koma fram.Það er helst að Jón Baldvin hressi upp á kosningabaráttuna. En hann er ekki í framboði.

Það þarf að hleypa einhverju lífi í þetta – en er það hægt?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Gaf Díegó í jólagjöf

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Ný spá um hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út

Ný spá um hvernig næsta ríkisstjórn mun líta út
Eyjan
Í gær

Orðið á götunni: Ræður risastóri hópurinn – LAUSAFYLGIÐ – úrslitum?

Orðið á götunni: Ræður risastóri hópurinn – LAUSAFYLGIÐ – úrslitum?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Arnar Þór Jónsson: Það er siðrof á íslenskum fjármálamarkaði – kannski þarf að setja lög á Seðlabankann

Arnar Þór Jónsson: Það er siðrof á íslenskum fjármálamarkaði – kannski þarf að setja lög á Seðlabankann
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“