fbpx
Laugardagur 20.júlí 2024
Eyjan

Spilling, einkavæðing og olía

Egill Helgason
Miðvikudaginn 13. desember 2006 21:13

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Gömul einokunarfyrirtæki eiga í vök að verjast. Varla hægt að segja að maður beri hlýjar kenndir til þeirra. Íslenskir aðalverktakar sátu einir að hermanginu um árabil, þar grasseraði ótrúleg spilling, og kannski ekki nema við hæfi að fyrirtækinu hafi síðan verið komið til einkavina stjórnarflokkanna með dyggri aðstoð ráðherra. Sagan segir að í Framsókn hafi menn verið því fegnastir að allir voru að hamast yfir Búnaðarbankamálinu – þá tóku þeir ekki eftir Aðalverktökum á meðan.

— — —

Svo eru það Olíufélögin, þessir gömlu framverðir Kolkrabba og Smokkfisks og alls þess hryllilega kerfis. Satt að segja átti maður ekki von á að neitt sérstakt gerðist vegna samráðsmálsins mikla. En svo dynur þetta allt yfir á einum degi – það fellur dómur í máli Reykjavíkur gegn olíufélögunum og forstjórarnir þrír, Kristinn Björnsson, Einar Benediktsson og Geir Magnússon eru ákærðir. Þetta er vel til fundið. Um að gera að reka ekki mál gegn fyrirtækjunum sjálfum, þau hefðu fundið leiðir til að velta því öllu yfir á almenning, heldur gerendunum sjálfum – því það voru menn sem voru á kafi í þessu svindli, ekki bara einhver ópersónuleg hlutafélög.

— — —

Það er vel við hæfi að bókin um Guðna í Sunnu skuli koma út um þessi jól. Þar er lýst gamla íslenska sýsteminu sem lifði furðu lengi – hvernig stórfyrirtækin, bankarnir og flokkarnir tóku höndum saman um að drepa allt sem þeim var ekki þóknanlegt. Guðni er orðinn aldraður maður, í bókinni segir að hann sé með krabbamein – það er gott hjá honum að koma fram og segja þessa sögu, eins ótrúleg og hún virðist núna. Maður er fljótur að gleyma hvað íslenskt samfélag var rotið – kannski er ástæða fyrir sagnfræðinga að fara að rita sögu þessa tímabils.

— — —

Viðskiptablaðið orðar það svo að verið sé að verðleggja íslensku krónuna út af markaði – að atvinnulífið sé nánast búið að hafna henni. Á sama tíma birtir Heimssýn, félag Evrópuandstæðinga, furðufréttir um að evrusvæðið sé að liðast í sundur. Efnahagsástand í Þýskalandi – sem er kallað mótor Evrópusambandsins – hefur ekki verið betra í hálfan annan áratug. Sjálft Economist segir að það sé vitlaust reiknað þegar sagt er að meiri hagvöxtur hafi verið í Bandaríkjunum en Evrópu undanfarin ár. Nú fellur dollarinn og fellur en evran styrkir sig sem alþjóðlegur gjaldmiðill – en ekki virðist neitt gott í vændum fyrir íslensku krónuna sem þurfti nýlega að lappa upp á með 90 milljarða láni.

— — —

Jón Bjarnason talar í fjórtán tíma á haustþingi. Hvaða vitleysa er þetta? Er það takmark í sjálfu sér að tala mikið? Mark um andlegt atgervi og pólitískan eldmóð? Eða er verið að rugla saman málæði og stjórnmálabaráttu? Jón hefur talað svona um það bil samfleytt í jafngildi tíu Silfursþátta á þessum tíma – en man einhver orð af því sem hann sagði?

Væri ekki ráð að takmarka ræðutíma í þinginu – eða telur einhver sig tapa á því?

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 6 dögum

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir

Jón Sigurður skrifar – Farsælast að vera fullkomlega sannfærður um eigin ranghugmyndir
EyjanFastir pennar
Fyrir 6 dögum

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu

Sigmundur Ernir skrifar: Einstaklingshyggjan hefur rænt okkur vitinu
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar

Þingflokksformaðurinn leiðréttir rangfærslu um Samfylkinguna og biðst afsökunar
Eyjan
Fyrir 1 viku

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði

Þorsteinn Pálsson: Þingmenn Sjálfstæðisflokksins skattleggja gamla fólkið fremur en að tryggja jafnræði allra á fjármálamarkaði