fbpx
Föstudagur 19.júlí 2024
Eyjan

Kaninn kom – og Kaninn fór

Egill Helgason
Fimmtudaginn 16. mars 2006 19:15

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þá er það orðið opinbert. Herinn er að fara. Eftir allar bónarferðirnar og áköllin til Washington, er ekki lengur um neitt að semja. Pentagon ræður þessu. Vinaþjóðin í Vestri vill ekki lengur halda úti flugher fyrir okkur. Hefur um nóg að hugsa mitt í sínu hernaðarbrjálæði og fjárlagahalla. Var kannski kominn tími til að fá þetta á hreint. Þetta hefur verið mjög sérkennileg umræða síðustu árinn, einkennst af þeim skorti af hreinskilni sem er svo ríkjandi íslensk stjórnmál. Og furðulegri trú á sérstakt samband okkar við ráðamenn í Washington – sem vita líklega ekki hvað við heitum.

Endar svo, ekki með hvelli heldur gjökti eins og segir í frægu kvæði. Einu litlu símtali frá aðstoðarmanni. Tímabil er búið, stjórnmálum kalda stríðsins eru endanlega lokið á Íslandi. Það er pínlegt að heyra ráðherra í ríkisstjórninni tala um mikilvægi varnarsamningsins eftir að hafa fengið þessa gusu frá Bandaríkjastjórn.

Ég ætla ekki að fjala um hvort við eigum að leita á náðir nágranna okkar um varnir, Skandinava, Englendinga eða Evrópusambandsins. En ég get reyndar ekki ímyndað mér að þeir hafi mikinn áhuga.

— — —

Sjálfur er ég barn herstöðvatímans, hann einkenndi alla stjórnmálabaráttu þegar ég var að alast upp. Deilurnar um herstöðina eitruðu íslenska pólitík áratugum saman – það var eiginlega ekki hægt að komast til að ræða neitt almennilegt. Til dæmis hvernig samfélagi þjóðin vildi lifa í. Samkvæmt munstri hermangsins skiptu öflin sem síðar fóru að heita kolkrabbinn og smokkfiskurinn samfélaginu á milli sín.

Sósíalistar reyndu að andæfa með sovétviðskiptunum. Íslendingar voru eina þjóðin í Vestur-Evrópu sem ók um á Moskvits, Volgu og dældi rússneskri olíu á bílana sína. Á móti seldum við þangað ullarteppi og síld. Þetta hafði auðvitað efnahagslegt gildi – hvert ár biðu menn í ofvæni eftir að sovétsamningarnir næðust – en vinstri menn töldu þetta líka nauðsynlegt til að vega upp á móti áhrifum Bandaríkjanna, hernámi hugarfarsins – kókakóla, jórturleðri, Elvis Presley. Þeir voru sannfærðir um að þannig myndu yfirburðir Sovétríkjanna smátt og smátt koma í ljós.

Þetta var barátta um menninguna, um sjálft fjöregg þjóðarinnar. Hún lifir í ókjörum af vondum kveðskap – ofhlöðnum myndlíkingum um fjallkonuna, hulduna í dalnum, tröll, finngálkn í vestri. Maður fer dálítið hjá sér þegar maður les margt af þessu. Þeir unnu stríðið en við vorum með betri lög gætu herstöðvaandstæðingar sagt – svo snúið sé út úr þekktu kvæði eftir Tom Lehrer.

Vissulega voru flest skáldin á móti hernum en það er ekki hægt að segja að herstöðvabaráttan hafi laðað fram það besta í þeim. Ef farið er út í bókmenntalegu hliðina væri maður eiginlega til í að taka sér stöðu með Garðabæjarskrílnum sem henti moldarkögglum í Keflavíkurgöngurnar.

— — —

Önnur hlið á þessu er hvernig smáþjóð notaði aðstöðu sína til að kúga stórþjóðir í krafti hernaðarlegs mikilvægis. Sagnfræðingar hafa jafnvel notað orðið "íslandiseringu" í þessu sambandi. Því þótt aronska (sú hugmynd að kreista sem mest út úr Kananum) væri bannorð í betri kreðsum, reyndu Íslendingar að fá eins mikið fyrir herstöðina og þeir gátu.

Það var stofnað fyrirtæki um hermangið sem var í eigu manna úr Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Flestir íslenskir stjórnmálamenn voru réttu megin í baráttunni við kommúnismann, en um leið grasseraði hér grímulaus tækifærishyggja. Það hefur jafnvel verið talað um "blackmail" í þessu sambandi – Íslendingar gernýttu sérstöðu sína til að fá lán og efnahagsaðstoð. "Þeir eru greinilega mjög ótraustir bandamenn og græðgi þeirra á sér engin takmörk," sagði einn erlendur sendimaður.

—- — —

Á sama tíma var meðferðin á varnarliðsmönnunum ekki sérlega skemmtileg – það er alveg óhætt að tala um rasisma í því sambandi. Þeir fengu ekki að vera úti á kvöldin, það ríkti útgöngubann, líklega var aðallega verið að vernda íslenskt kvenfólk. Þeir voru undir ströngu eftirliti ef þeir fengu að fara í bæinn. Framan af máttu ekki heldur vera svertingjar hér. En Völlurinn laðaði og lokkaði með ýmsu freistandi góssi; dósagosi, hamborgurum, bjór, poppmúsík og amerískum bílum. Fjölskyldur fór gjarnan í bíltúra suðureftir til að fá smjörþefinn af dásemdunum. Upp úr því fór íslenskt samfélag að breytast svo að það var eiginlega ekkert að sækja á Völlinn lengur – frekar að maður sæi varnarliðsmenn ráfa um í Kringlunni, of blanka til að kaupa neitt.

Þegar farið verður að skrifa minningagreinar um herstöðina verður langur kafli um þátt hennar í að rjúfa einangrun landsins. Í merkilegri bók sem heitir Úr fjötrum lýsir Herdís Helgadóttir því hvernig koma erlendra hermanna hingað var að vissu leyti frelsun frá mörlandanum, illa siðuðum íslenskum karlmönnum, svona líkt og heimurinn væri að opnast. Þá var brugðist við með því að setja stúlkur sem höfðu samneyti við útlenda hermenn á vinnuhæli án dóms og laga. Síðar varð frægt þegar hundrað menningarvitar stigu fram og létu loka Keflavíkursjónvarpinu. Þá má kannski segja að tungan hafi líka verið sett á vinnuhæli.

— — —

Ég var að ímynda mér um daginn ef ég hefði verið með umræðuþátt sirka 1957 og maður hefði haft karla eins og Einar Olgeirsson, Ólaf Thors og Jónas frá Hriflu. Þá hefði Keflavíkurstöðin verið heitasta umræðuefnið þátt eftir þátt, ár eftir ár. Raðirnar af varðbergsmönnum og herstöðvaandstæðingum hefðu runnið gegnum þáttinn. En svona er með sum deiluefni, þau barasta gufa upp. Síðustu árin höfum við aðallega verið að væla í Kananum að vera áfram. Við rifumst um herstöðina í fimm áratugi, en á endanum var hérumbil öllum sama.

 

Þessi pistill var fluttur í Íslandi í dag Stöð 2/NFS 16. mars 2006. Hann er að hluta til byggður á grein sem ég skrifaði í hittifyrra og var eins konar minningagrein um Keflavíkurstöðina – enda taldi ég ljóst á þeim tíma að hún myndi fara.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á