fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2024
Eyjan

Bítlabærinn – Þjóðleikhús að hrynja

Egill Helgason
Sunnudaginn 12. febrúar 2006 23:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Heimildarmynd Þorgeirs Guðmundssonar um bítlabæinn Keflavík er stórskemmtileg. Hún hefur verið sýnd í sjónvarpinu tvö síðustu sunnudagskvöld. Þarna kætti mann ýmislegt gamalt myndefni: viðtal við Gunnar Jökul í búðarmannaslopp sem ég mundi eftir að hafa séð eitt sinn, Árni Gunnarsson fréttamaður í mokkajakka á Hallærisplaninu að segja unglingum að fara heim til sín, hjómsveitin Júdas að setja á sig farðann fyrir ball – allt voða pró – myndir af Pétri Östlund að tromma með Hljómunum. Hvílíkur töffari!

Svo er gaman að sjá hvað flestir af þessum körlum hafa elst vel og hafa húmorinn í lagi – Rúnar, Gunnar Þórðarson, Engilbert, Magnús og Jóhann, Maggi Kjartans. Einnig var mjög fróðlegt að heyra viðtalið við Bandaríkjamanninn Larry Otis sem upplifði bítlatímann á Suðurnesjum með augum hermanns af Vellinum.

— — —

Ég fékk snemma ógurlegan áhuga á bítlatónlist. Í kringum 1970 hélt ég mikið upp á Jóhann G. Jóhannsson, enn einn Keflvíkinginn – kannski að einhverju leyti af því hann bjó í næstu götu við mig, í Ljósvallagötunni. Á þeim tíma fannst mér poppstjörnur mjög merkilegar, límdi upp myndir af þeim í herberginu hjá mér. Ég var ekki nema tíu ára.

Svo eignaðist ég plötuna sem Óðmenn gáfu út þetta ár. Platan var að flestu leyti nýstárleg á þeim tíma, þótti absolútt það prógressívasta sem hafði heyrst á Íslandi. Hún var tvöföld og endaði á allsherjar djammsessjón, albúmið var sett saman úr blaðaúrklippum, textarnir fylgdu með, nokkuð ádeilukenndir, og að auki stókostleg ritgerð um tónlist Óðmanna eftir Ríkharð Örn Pálsson. Ég man ennþá ýmsa frasa úr þessari ritsmíð.

Með Jóhanni voru í hljómsveitinni Finnur Torfi Stefánsson, síðar alþingismaður, sem spilaði á gítar og Reynir Harðarson, afar snjall djasstrommari. Ég veit ekkert hvað varð af honum. Óðmenn spiluðu bara sitt eigið efni, blúsrokk í anda Cream. Jóhann sagði í myndinni að þeir hefðu þótt hrokafullir. Líklega höfðu þeir ekki mörg tækifæri hér á Klakanum.

— — —

Það er ótrúlega mikið af músík sem liggur eftir þessa menn – og margt af því frábært. Katalógur Gunnars Þórðarsonar er auðvitað einstakur. Líka mörg diskólögin sem hann samdi. Og Heim í Búðardal. Þetta er mikill fjöldi af lögum og sumt heyrir maður ekki lengur – til dæmis hefur mig lengi langað að ná í sólóplötuna sem Gunnar gaf út 1975. Sá einhvern tíma að Jakob Frímann Magnússon nefndi hana með því besta sem hefur verið gert í íslenskri popptónlist.

Það er merkilegt að þessi mikla tónlistarbylgja skyldi hafa risið í þessum bæ sem aldrei hefur verið hátt skrifaður á Íslandi. En eftir að hafa séð þessa mynd þá þakkar maður bara fyrir sig.

— — —

Þegar ég var lítill var bara ein sjónvarpsstöð og alltaf skautadans. Fólki fannst þetta dægilegasta sjónvarpsefni, allir þekktu snillinga eins og breska parið Torville og Dean. Bjarni Felixson lýsti þessu af óvenjulegri tilfinningu, eins og væri um fínasta ballett að ræða.

Nú eru vetrarólympíuleikar í Tórínó – en hefur einhver áhuga á skautadansinum?

— — —

Er Þjóðleikhúsið falleg eða ljót bygging? Ég veit það ekki. Held mér þyki hún falleg. Allavega á hún pláss í huga manns, kannski út af stuðlabergsloftinu, rauðu áklæðunum þar inni, lyktinni, hátíðleikanum sem maður skynjaði í leikhúsinu í bernsku. Maður fór uppstrílaður og vatnsgreiddur á barnasýningar, horfði á með andakt; ég fór á barnasýningu í dag og þar var hérumbil enginn í sparifötum – bara flís og áprentaðir bolir.

Ég gekk framhjá Þjóðleikhúsinu um daginn. Það er hörmulegt að sjá ástand hússins. Múrhúðin er alls staðar að flagna af. Í turninum (hvað er annars þar uppi?) eru brotnir gluggar – minnir helst á ónýtt húsnæði í verksmiðjuhverfi. Eða draugahús.

Frekar dapurt.

— — —

Ég vil vekja athygli á viðtali við Sjón í Silfrinu í dag. Þar hélt hann uppi vörn fyrir tjáningarfrelsið – skýrði út hvers vegna við megum ekki láta undan kröfum um að það sé kæft. Með því er nefnilega hætt við að við leggjum öfgaöflum lið – og gröfum í leiðinni undan þeim sem þrá málfrelsi í einræðisríkjum.

Líkt og Sjón sagði minnir viðhorf marga vinstri manna á það hvernig var komið fram við kommúnistaríkin á sínum tíma. Eilíflega og sífellt skyldu menn finna þeim einhverjar málsbætur, meðan Vesturlöndum – þar sem fólk bjó þó mestanpart við frelsi – var úthúðað.

Og eins og Sjón segir: Tjáningarfrelsið nær bæði til Salmans Rushdie (þeirra sem skrifa "margradda skáldverk") og þeirra sem gera lélegar skopmyndir.

Annars bendi ég á grein eftir Unu Margréti Jónsdóttur sem birtist í Morgunblaðinu á laugardag. Hún er án efa það besta sem hefur verið skrifað hér á landi um þetta skopmyndamál.

— — —

Bandaríska skáldið Robert Frost sagði:

"A liberal is a man too broadminded to take his own side in a quarrel."

Sumir geta ekki einu sinni staðið með sjálfum sér í deilum – vegna þess að þeir eru svo ofboðslega skilningsríkir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á