fbpx
Fimmtudagur 18.júlí 2024
Eyjan

Sjálfstæðisflokkur flýgur hátt – Samfylking í vanda

Egill Helgason
Mánudaginn 30. janúar 2006 00:19

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Vart er hægt að lesa annað út úr skoðanakönnunum en að Davíð Oddsson hafi haldið fylgi Sjálfstæðisflokksins niðri um langt skeið. Nú þegar hann er farinn mælist flokkurinn síendurtekið með vel yfir fjörutíu prósenta fylgi. Þetta gerist þrátt fyrir að Geir Haarde sé nánast ósýnilegur; í þau fáu skipti sem hann birtist virkar hann ólundarlegur.

En Sjálfstæðisflokkurinn átti greinilega mikið inni á síðustu veldisárum Davíðs. Miðjufylgið sem hafði flæmst burt snýr nú aftur. Það er kannski ekki óeðlilegt að flokkurinn sem hefur tögl og hagldir í landstjórninni njóti þessi í fylgi hversu mikið góðæri ríkir í landinu – hlaut eiginlega að koma að því. Sérstaklega þegar furðu góður friður virðist ríkja í flokknum – ólíkt því sem gerist í Framsókn þar sem ástandið virðist vægast sagt óttablandið.

— — —

Á sama tíma aukast vandræði Samfylkingarinnar. Nú er ekki lengur hægt að beina spjótunum að Davíð og þá er eins og flokkurinn starfi í tómarúmi. Var það kannski Davíð sem fyrst og fremst skóp kosningasigur hennar 1993?

En auðvitað er þetta fyrst og fremst spurning um sérstöðuna – hvað varðar stefnuna er Samfylkingin ekki svo ýkja langt frá ríkisstjórnarflokkunum. Því á hún oft erfitt með að bjóða upp á trúverðugan valkost í stórum málum. Er samt að rembast við. Stundum væri jafnvel betra að spila með en setja sig upp á móti – nánast eins og ósjálfrátt. Ég nefni til dæmis frumvarpið um Ríkisútvarpið. Tal um að gera það að sjálfseignarstofnun er óskiljanlegt.

Samfylkingin er dálítið föst í að vera flokkur minni háttar háskólafólks – minor academics – henni virðist ómögulegt að móta alvöru hugmyndafræði vegna þess hvernig hún slæst til og frá eftir minnstu tískubylgjum. Það eru haldnir popptónleikar í Laugardalshöll og stefnan sveigist. Flokkurinn þarf að bjóða upp á sýn á tilveruna sem virkar að einhverju leyti fersk; það gerist varla meðan hugmyndirnar er út og suður, til dæmis í skattamálum, virkjanamálum og hvað varðar hringamyndun. Kjósendur skynja falskan tón. Það er ekki nóg að keppast við að vera merkisberi pólitískrar rétthugsunar í landinu.

Samt hafa stefnumótunarnefndir verið starfandi í flokknum um langt skeið, en það virðist engu skila – kannski eru þingmennirnir of uppteknir að passa upp á sjálfa sig til að fylgjast með?

— — —

Eins og stendur virðist Samfylkingin vera dæmd til að vera í stjórnarandstöðu, nema þá að Sjálfstæðisflokkurinn vinni svo mikinn kosningasigur að enginn flokkur fáist að vinna með honum. Að flokkar verði hræddir að kremjast undir líkt og er hægt og bítandi að gerast með Framsókn. Til að koma í veg fyrir þetta má Samfylkingin engan tíma missa. Kannski voru mistök að kjósa Ingibjörgu sem formann – hún var hugsanlega búin að sólunda of miklu af sínu póltíska kapítali? Það verður líka að segjast eins og er að hún hefur lengi mátt þola óeðlilega illt umtal af hálfu andstæðinga sinna. En því verður ekki breytt fyrir næstu kosningar. Ekkert annað formannsefni er heldur í augnsýn.

Mannvalið í flokknum virðist líka harla veikt; þingmenn eru yfirleitt ekki líklegir til að gefa eftir sæti sín, en flokksforystan þarf að fara að skima eftir nýju fólki. Flokkinn sárvantar til dæmis öflugan og trúverðugan talsmann í efnahagsmálum. Guðmundur Magnússon hefur líka á réttu að standa þegar hann skrifar í Fréttablaðið að það sé sérkennilegt að heyra talað um endurkomu Jóns Baldvins í pólitík eins og það sé brandari – auðvitað ætti Samfylkingin að ræða í fullri alvöru hvernig hún getur notað krafta þessa merkilega stjórnmálamanns. Því hvaða máli skiptir aldur í þessu sambandi – eða viljum við hafa fullt þing af ungliðum sem eru allir eins og sprottnir af sama færibandinu?

— — —

Ég vitna í pistil Guðmundar:

"Fram hefur komið í fjölmiðlum að einn reyndasti stjórnmálamaður Íslendinga, Jón Baldvin Hannibalsson, útiloki ekki endurkomu í stjórnmálin, ef aðstæður bjóði upp á það. Hvar í flokki sem menn standa ættu þeir að fagna þessu. Athyglisvert er að umræður um þetta í þjóðfélaginu fara hins vegar fram í hálfkæringi. Það er frekar hent gaman að því frekar en að það sé rætt í alvöru að fólk sem er komið vel yfir miðjan aldur byrji stjórnmálaþátttöku eða snúi þangað aftur. Þetta er dapurlegt og verður að breytast. Besta leiðin til þess er að hinir eldri stígi ótrauðir fram, bjóði þjóðinni krafta sína og sýni hvað í þeim býr. Hermt er að Jóni Baldvin Hannibalssyni leiðist og finnist hann eingraður eftir að hann lét af embætti sendiherra og sneri heim. Þjóðinni ætti líka að leiðast þetta. Flokkur Jóns, Samfylkingin, ætti að sýna örlæti og eiga frumkvæði að því að bjóða honum í leikinn á ný. Vel má vera að hann mundi fyrst um sinn skyggja eitthvað á yngra fólkið en ávinningurinn fyrir flokkinn yrði áreiðanlega meiri."

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 1 viku

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum

Ólafur Stephensen: Samkeppnisyfirvöldum kippt út – eins og dómarinn sé tekinn út af og annað liðið ráði reglunum
Eyjan
Fyrir 1 viku

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“

Brynjar liggur undir feldi og íhugar vistaskipti – „Orðið flak lýsir best líðan minni núna“
Eyjan
Fyrir 1 viku

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum

Rasismi sagður á uppleið í Frakklandi – Spennan magnast fyrir seinni umferð þingkosninganna – Ofbeldisverk framin af bæði vinstri og hægri mönnum
EyjanFastir pennar
Fyrir 1 viku

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á

Sigmundur Ernir skrifar: Samfélag til að græða á