fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Eyjan

Skógarferð í Slóveníu

Egill Helgason
Sunnudaginn 1. maí 2005 00:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Á aðaltorginu í Ljubljana stendur styttan af Jónasi Slóveníu. Hann hét France Preseren og er eiginlega upp á hár samtímamaður Jónasar Hallgrímssonar, fæddur 1800, dáinn 1849 – rómantískt skáld og þjóðfrelsishetja. Og eins og Jónas átti hann óhamingjusama ævi, drakk sig líklega í hel, dó snauður, með skorpulifur.

Óttar Guðmundsson hefur ritað um stærðina á lifur Jónasar þegar hann dó, fjórum árum á undan Preseren.

Það er merkilegt hversu margar þjóðir eiga skáld af þessu tagi; óhamingjusama rómantíkera sem öðlast þjóðhetjustatus. Í Rússlandi er það Púsjkín, í Ungverjalandi Petöfi, í Póllandi Mickiewicz og í Englandi auðvitað Byron lávarður. Það er ábyggilega hægt að nefna fleiri; fyrri hluti 19du aldar var tími ólánsamraþjóðskálda.

— — —

Við gistum í Villa Bled sem ég sagði í pistli um daginn að hefði verið byggð fyrir Tito árið 1947. Karlinn lét reisa sér glæsihús víða um Júgóslavíu – þar bjó hann fyrir hönd alþýðunnar. Ég las í bæklingi að meðal þeirra sem þarna hefðu gist væru Krútsjof, Kim Il Sung og ýmsir aðrir kommúnistaleiðtogar. Einnig Nasser og Nehru – ásamt þeim var Tito í skrítnum klúbbi sem kallaðist Samtök óháðra ríkja. Mér var líka tjáð að þarna hefði Bokassa komið, keisarinn í Mið-Afríkulýðveldinu sem var sagður hafa étið börn.

Síðar mun Laura Bush hafa gist í þessu húsi og annað frægðarfólk – það var löngu eftir Tito, þegar Slóvenía hafði tileinkað sér kapítalisma. Samt er ekkert tiltakanlega dýrt að vera þarna – verðlag í Slóveníu er mjög hagstætt. Svo höfðu starfsmennirnir, miklir indælismenn sem urðu ágætir vinir okkar, farið að skoða gamlar gistiskýrslur og fundið nafnið Monica Lewinsky. Þeim fannst það mjög fyndið. Hin unga kona kom þarna, alveg óþekkt, í hópi frá bandaríska varnarmálaráðuneytinu – það var seinna að hún kynntist Bill Clinton.

— — —

Á fimmtudaginn fórum við í langa skógargöngu. Við gengum langa leið upp með gljúfri sem heitir Vintgar og enduðum hjá tígulegum fossi. Í ánni var allt krökkt af fiski sem synda innan um trjáboli sem hafa fallið í ánna. Við átum silung á litlu veitingahúsi við mynni gljúfursins.

Svo gengum við yfir skógi vaxið fjall, en nálægt toppum komum við að litlu engi. Þar spruttu marglit smáblóm vorsins, sólin skein, íkornar hentust um í trjánum, en úti í skóginum sungu margs konar fuglar sem ég kann ekki að nefna. Fáfræði mín um fugla og blóm er skammarleg.

Yfir okkur gnæfði tindurinn Triglav, Þríhöfði, 2864 metra hár, eitt helsta tákn Slóveníu. Þetta var einn af þessum góðu dögum sem maður gleymir ekki.

— — —

Upplýsingafulltrúi Flugleiða telur eðlilegt og löglegt að banvænt skordýraeitur sé flutt með farþegaflugvélum yfir Atlantshafið. Ég segi bara fyrir sjálfan mig – ég myndi ég ekki fara upp í flugvél ef ég vissi að svonalagað væri um borð. Þetta er lágkúrulegt og hrein óvirðing við farþega.

Þegar svona fréttir koma upp eiga fréttamenn heldur ekki að láta bjóða sér að tala við upplýsingafulltrúann – það á að spyrja sjálfan eigandann.

— — —

Eftir viðbrögð við grein sem ég skrifaði um kommúnismann fyrir skemmstu er ég að hugsa um að setja saman pistil um „en hvað með-ismann“. Það er þegar vinstri menn eru spurðir um glæpi kommúnismans og þeir fara undireins að segja „en hvað með“ – já, hvað með nýlendutímann og Bandaríkjamenn og Suður-Ameríku og þriðja heiminn? Og hvað með indíánana? Ég þarf að reyna að reyna að ná betur utan um þetta.

— — —

Aftur að Lauru Bush. Tóku menn ekki eftir því að forsetafrúin var með skrifaðan texta þegar hún var að gera að gamni sínu á kostnað bónda síns á pressuballinu í gær? Altént varð ekki annað greint en að hin meinta aðþrengda eiginkona væri sífellt að gjóa augunum niður á blað. Hins vegar sá maður ekki betur en að roðinn í andliti forsetans væri nokkurn veginn ekta.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því

Óánægjan með Einar og meirihlutann í borginni fer vaxandi en flokkarnir tapa mjög misjafnlega á því
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sigmundur Davíð vísar frétt Vísis á bug – „Það er stuð á Akureyri!“

Sigmundur Davíð vísar frétt Vísis á bug – „Það er stuð á Akureyri!“
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“