Um daginn tók ég viðtal við Þorgerði Einarsdóttur félagsfræðing um verðleikaumræðuna. Þetta er tal sem fer alltaf í gang þegar konur sækjast eftir háum stöðum. Ég er karl og hafði satt að segja ekki veitt því athygli að þetta væri svona þrálátt, ekki fyrr en í deilunum um ráðningar í hæstarétt í fyrra. Þá held ég að augu margra karlpunga hafi opnast.
Einkenni þessa er þegar konur eru komnar hátt í samfélagsstiganum og leita hærra fer í gang umræða um hvort þær séu hæfar til að vera á þessum stað – eða hvort þær séu þarna bara vegna þess að þær eru konur.Um karla er aldrei talað á þessum nótum.
Mjög stækt dæmi um þetta er að finna í DV í morgun þar sem Jakob Frímann Magnússon notar þessa aðferð á Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur. Jakob segir orðrétt: „Í mínum huga er það lykilatriði að fólk sé metið að verðleikum en ekki eftir kynferði sínu eða útliti.“
Alveg burtséð frá því hvort menn halda með Ingibjörgu eða Össuri – er virkilega hægt að tala svona um manneskju sem var borgarstjóri í Reykjavík í tíu ár?
Vandinn hér á landi er heldur ekki að konur séu að flagga kynferði sínu til að komast áfram í lífinu, heldur í því ranglæti sem hæft fólk er beitt þegar lakari menn eru teknir fram yfir það í gegnum stjórnmálasambönd, svo notuð séu orð Þorvaldar Gylfasonar.
— — —
Bak við tjöldin eru mikil átök milli Reykjavíkur og Garðabæjar um Háskólann í Reykjavík. Ásdís Halla Bragadóttir vill fá skólann í nýjan bæjarkjarna sem hefur verið skipulagður í Urriðaholti, á móti býður borgarstjórnin í Reykjavík pláss á besta stað í Vatnsmýri.
Ásdís Halla er mjög rísandi stjarna á hinum pólítíska himni, meira að segja Jónas Kristjánsson hefur hrósað henni í leiðara. Bloggarinn Ágúst Borgþór spyr hvort hún sé lykillinn að stórsigri Sjálfstæðisflokks í næstu þingkosningum? Maður veltir því líka fyrir sér hvort Ásdís Halla gæti kannski gert kraftaverk og unnið Reykjavík fyrir Sjálfstæðisflokkinn – það er að segja ef hun hefur áhuga?
Stefna Ásdísar í menntamálum er til eftirbreytni og gerir liðinu í R-listanum og Fræðsluskrifstofu Reykjavíkur skömm til.
— — —
Pólitíkin í Reykjavík getur tekið á sig skrítnar myndir. Nú heyrir maður að nokkrir úr borgarstjórnarliði Sjálfstæðisflokksins, þeir sem stundum eru nefndir „svartstakkar“, rói að því öllum árum að Háskólinn í Reykjavík fari í Garðabæ. Þetta sé þeim mikið kappsmál.
Maður spyr hvort þetta sé vegna einlægrar vináttu við Ásdísi Höllu eða hvort það sé einn liður í því að klekkja á R-listanum? Svona til að geta híað á hann seinna.
En getur Háskólinn í Reykjavík verið í Garðabæ? Kannski verður hægt að venjast því? En það gæti hins vegar reynst erfiðara á ensku- „University of Gardabaer“?
— — —
Annars held ég mætti alveg fara fram umræða um hversu góðir þeir eru þessir viðskiptaháskólar – svona mitt í öllum lofsöngnum um þá – hvort fólk sé að fá almennilega menntun þar eða hvort það borgi bara skólagjöld og útskrifist síðan með einhver pungapróf? Hverjar eru hinar akademísku kröfur? Hvað þrífast margir alvöru háskólar í landi sem hefur íbúatölu Stoke eða Bergen?
Ég stelst stundum inn á málverjavefinn, þegar ég tel mig vera nógu sterkan á taugum, þar hefur verið nokkuð athyglisverð umræða um viðskiptaháskólana og hvernig þeir standast til dæmis alþjóðlegar kröfur.
Ég auglýsi eftir fleiri skoðunum um þetta.
— — —
Morgunblaðið hefur stigið fram og tekur mjög eindregna afstöðu í skipulagsmálum í Reykjavík. Margt sem er skrifað um skipulag í blaðinu er á mjög háu plani – til dæmis ef borið er saman við sérdeilis forpokaða leiðara í Fréttablaðinu.Í morgun birtir blaðið forystugrein þar sem enn er reynt að grafast fyrir um raunverulega afstöðu borgarfulltrúa til flugvallarins – það sem þeir meina þegar pólitíska vaðlinum og orðaleppunum sleppir. Í leiðaranum segir meðal annars:
„Ræða Björns Bjarnasonar um þetta málefni sem flutt var á fundi borgarstjórnar er einnig eftirtektarverð. Þar kemur fram ánægja minnihlutans í borgarstjórn yfir undirritun samkomulags borgarstjóra og samgönguráðherra, á þeim forsendum að hún falli í raun „að þeim markmiðum, sem fólust í stefnu […] sjálfstæðismanna í flugvallarmálinu fyrir kosningar“. Björn vísar í Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins sl. sunnudag og tekur undir orð blaðsins „þegar vikið er að trúverðugleika yfirlýsinga borgarstjóra um gerð heildarskipulags fyrir Vatnsmýrarsvæðið,“ en tekur ekki afstöðu til þeirrar skoðunar blaðsins að það sé „ófært að ekki skuli hafa orðið til hreinn og klár átakaöxull meðal borgarfulltrúa úr öllum flokkum um afstöðu til þess mikilvæga máls,“ né heldur þeirrar skoðunar að borgarbúar „hljóti að eiga rétt á því að fá hrein og klár svör; fyrst um markmið og síðan um leiðir til að framfylgja þeim“. Staðreyndin er sú að borgarbúa – sem nú hljóta að vera farnir að hlera eftir afstöðu borgarfulltrúa sinna til ýmissa málefna með tilliti til næstu borgarstjórnarkosninga – hlýtur að vera farið að lengja eftir því að fá endanlega úr því skorið hvort borgarstjórnarminnihlutinn, ekki síður en meirihlutinn, vill að flugvöllurinn víki alfarið eða hvort hann vill að hann verði áfram í Vatnsmýrinni í einhverri mynd. Hver er sú „varanlega niðurstaða“ sem Björn vísar til í ræðu sinni að minnihlutinn hafi viljað knýja fram og hvenær verður hún kunngerð?“
— — —
Bendi svo á grein Guðmundar Andra Thorssonar um trú og sekúlarisma sem birtist hér neðar á síðunni – og líka á erindið sem Hallgrímur Helgason flutti fyrir ungliðana.