Guðni Ágústsson heldur blaðamannafund með pompi og prakt – enda sitjandi forsætisráðherra meðan Halldór er í heilsubótarleyfi – og tilkynnir að nú sé tími kominn til að bændur fái að selja afurðir sínar beint til fólksins í landinu. Þetta er árið 2005. Framvegis ætti maður semsagt að geta ekið um landið, stoppað á bæjum og keypt alls kyns góðmeti – til dæmis nýja ógerilsneydda mjólk.
Nú er vitað að bestu landabruggarar landsins eru á Jökuldal. Þeir sem hafa smekk fyrir svoleiðis veigum segja að landinn þaðan sé engu líkur. Má ekki líka eiga von á því, með auknu frelsi, að hægt verði að koma við á bæjum eystra og kaupa eins og kassa af landa – eða jafnvel fá að smakka hann í þartilgerðum „caves“?
— — —
Maður kemur sér stundum í afleita stöðu með því að þykjast hafa vit á öllu. Nú er verið að ýta á mig að skrifa um kosningarnar í Írak. Spurning hverju maður getur bætt við alla þá umfjöllun. Nokkrir punktar samt.
Eru kosningarnar í Írak til marks um að þeir sem voru andsnúnir stríðinu höfðu rangt fyrir sér? Sigri hrósandi hélt Bush ræðu um sigur lýðræðisins – hann hefði sennilega haldið hana hvernig sem fór. Maður á samt eftir að fá nákvæmari tölur – hvað er satt og rétt í þessu, hvað er áróður? Hver var hin raunverulega kosningaþátttaka, fyrst var lýst yfir að hún væri 70 prósent, svo datt hún niður í 57 prósent – af hversu mörgum? Það þykir líka skipta miklu máli hversu margir súnnimúslimar greiddu atkvæði til að kosningarnar geti talist lögmætar. Ég minni á að í kosningum í Palestínu á dögunum sáu menn sér hag í að ofreikna þátttökuna stórkostlega í áróðursskyni.
Framkvæmd kosninganna var auðvitað meingölluð – víða vissu kjósendur ekki einu sinni hverjir voru í framboði. Sumir frambjóðendur vissu ekki heldur að þeim hefði verið stillt upp. Kjörseðlarnir voru svo flóknir að meira að segja Talabani, leiðtogi Kúrda, þurfti að fá hjálp til að fylla út sinn seðil. Í grein í Guardian segir að kosningarnar hefðu verið fordæmdar hefðu þær verið haldnar í einhverju öðru landi, til dæmis Zimbabwe.
Framboðslistarnir eru líka margir skrítnir. Á lista 169, lista shíta, eru til dæmis jafn ólíkir aðilar og Ahmad Chalabi, Abdul Aziz al-Hakim, Ibrahim Jaafari og stuðningsmenn Muqtada al-Sadr. Þessi félagsskapur á ekkert sameiginlegt nema að þeir eru shítar. Þannig er speglar þetta ekki pólitík eins og við þekkjum hana, heldur er það miklu fremur eins og styrkleikapróf – skoðanakönnun um styrk trúarhópa sem takast á um völd í landinu.
— — —
Kúrdar fagna náttúrlega, í áratugi hafa þeir barist fyrir sjálfstæði,hafa alls staðar verið hraktir og smáðir, en uppskera nú fyrir að hafa verið óvinir Saddams Husseins. Shítar sem fjölmenntu á kjörstað eru sundurleitir innbyrðis, til dæmis í afstöðunni til hernámsliðsins; almennt eru viðhorf þeirra og trúarboð ekki ýkja samræmanleg vestrænu lýðræði. Í því sambandi má benda á heimasíðu Sistanis erkiklerks sem er voldugasti leiðtogi þeirra – hefur í raun ekki óáþekka stöðu og annar shíaleiðtogi, gamli Ajatolla Khomeini í Íran.
Það var Sistani sem krafðist þess að kosningarnar yrðu haldnar, vilji hans var að þær yrðu strax í maí á síðasta ári. Í þessum tilgangi sendi hann fylgismenn sína út á göturnar til að mótmæla. Þetta skaut bandaríska hernámsliðinu sterk í bringu, enda má það ekki við að fá Sistani upp á móti sér. Bush lét undan, en gætti þess þó að kosningarnar yrðu ekki haldnar fyrr en að loknu forsetakjöri í Bandaríkjunum. Hitt hefði getað verið of áhættusamt fyrir pólitískan feril hans. Meðan jókst glundroðinn í Írak.
Það er áhrifamikið hversu margir lögðu mikið á sig til að kjósa, en spurningin er hverju kosningarnar breyta. Geta þær stuðlað að því að uppreisnin verði bæld niður eða hún fjari út? Almenningur í Írak vill ekki ófrið – fremur en alþýða manna annars staðar þar sem stríð geisa. En afleiðingarnar gætu þess vegna verið þveröfugar – að súnníum finnist þeir vera innikróaðir og herði enn hina vopnuðu baráttu.
— — —
Nýkjörnir stjórnmálamenn verða áreiðanlega skotmörk uppreisnarmanna, því eru þeir háðir vernd Bandaríkjahers. Iyad Allawi verður líklega forsætisráðherra áfram. Hann heldur að miklu leyti til inni á „græna svæði“ bandarískra hermanna. Prófsteinn á hið nýja stjórnlagaþing er hvernig tekst að sætta trúarhópana og þjóðarbrotin í landinu – annars gæti framtíðin borið í skauti sér ríki sem er klofið í þrennt.
Önnur milljóndollara spurning er hvaða hlutverki trúin muni gegna í stjórn Íraksríkis. Saddam kærði sig ekki um trú, konur nutu nokkurs frelsis undir stjórn hans – Sistani reiðir sig á forn íslömsk lög, hann vill að vegur trúarinnar verði sem mestur. Hann getur leitað fyrirmynda um íslamskt ríki meðal trúbræðra sinna, shíaklerkanna sem ríkja í Íran – sem mörgum kann að finnast uggvænleg tilhugsun.
Sistani vill að bandaríski herinn hverfi á brott eins fljótt og auðið er, þótt hann umberi nærveru hans enn um sinn. Samkvæmt skoðanakönnunum eru flestir Írakar sömu skoðunar. Bandaríkjamenn eru hins vegar í óða önn að koma sér upp miklum herstöðvum á svæðinu sem þeir álíta hernaðarlega mikilvægt – og þá ekki síður vegna olíulindanna miklu. Kannski telja þeir hagsmunum sínum best borgið með því að koma á fót auðsveipri leppstjórn – Allawi er maður sem þeim þykir þægilegt að skipta við, enda hefur hann starfað fyrir CIA. Hann þykir helst hafa sér til ágætis að allir vantreysta honum jafnt. Hann hikar hins vegar ekki við að ganga í öll störf eins og áður hefur komið fram hér á vefnum.
— — —
Kosningarnar eru vonandi vísir að einhverju, það er óskandi að þær séu fyrsta skrefið í átt til friðar. Fögnuðurinn yfir þeim kann samt að vera snemmbær. Maður verður altént að reyna að greina milli staðreynda og áróðurs. Við getum til dæmis minnst þess að Bush staðhæfði að stríðinu væri lokið í maí 2003 – hinar stóru fullyrðingar um Írak hafa hingað til ekki verið ýkja túverðugar. Líka þær sem hefur verið slegið upp í öllum fjölmiðlum á Vesturlöndum.
— — —
Ég fékk gagnrýni frá nokkrum framsóknarmönnum vegna greinar sem ég skrifaði í gær. Gott að þeir skuli láta heyra í sér. En eigum við að ályta sem svo að af því Róbert Marshall gerir skyssu séu allir aðrir fréttamenn undir sömu sök seldir? Að þeir hafi allir vaðið í villu og svíma í Íraksmálinu, eða jafnvel að þetta sé skipuleg pólitísk aðför? Svolítið er það nú langsótt. ÍTímanum, vefriti Framsóknar, les ég raunar meiningar um að eigendur Baugs stæðu bak við eineltið – „árásin“ á forsætisráðherra sé runnin undan rifjum þeirra.
Róbert var sleginn blindu sem ekki er óalgeng þegar menn sækjast eftir stórri frétt – hann tékkar málið ekki nógu vel, kannski vegna þess að hann vill innst inni að fréttinn standist. Þetta er brestur sem einatt kemur fréttamönnum í koll. Óskhyggjan lætur þá hlaupa í gönur. Frá þessu er nokkur vegur yfir i pólitískt samsæri. Lærdómurinn er í raun frekar einfaldur: Kapp er best með forsjá.
— — —
Í framhaldi af þessum málum öllum hafa annars rifjast upp fyrir mér fleyg orð úr þáttunum Yes Minister – þar sagði ráðuneytisstjórinn ógleymanlegi, Sir Humphrey Appleby eitthvað á þessa leið: „The higher the office, the higher the level of paranoia.“
Þeim mun hærra sem embættið er, þeim mun meiri verður vænisýkin.
— — —
Á vef Landsambands framsóknarkvenna birtist grein sem heitir því frumlega nafni Dæmisaga um afgangsmannorð. Þar er fjallað í nokkuð skáldlegum stíl um hina furðulegu atburði í framsóknarkvennafélaginu Freyju í síðustu viku. Höfundur greinarinnar er Guðlaug Erla Jónsdóttir, kynnt sem „Freyjukona“. Áhugamenn um pólitík geta ekki látið þetta hjá sér fara, en upphaf greinarinnar er svohljóðandi:
„Hugsum okkur að þú hafir opið þitt hús og eigir von á gestum.
Þá koma kannski nokkrir sem þú áttir ekki von á en vildir gjarnan við fyrstu sýn bjóða velkomna í þitt hús. Gestirnir höfðu að vísu ekki fyrir því að banka en gengu inn á óhreinum skónum, settust óboðnir að borðum og eftir að hafa reynt að taka sæti húsbóndans, gripu þeir bestu bitana, fleygðu sumu frá sér er þeir voru mettir, stóðu upp og skelltu á eftir sér hurðinni er þeir fóru“
— — —
Bendi svo aftur á umræðuna um kortið Ísland örum skorið annars staðar hér á síðunni. Þar hafa blossað upp mjög fjörug skoðanaskipti og komnar fjörutíu svargreinar við bréfinu sem hratt umræðunni af stað. Margt af þessu er afbragðs fróðlegt að lesa og vit í því.