fbpx
Fimmtudagur 28.nóvember 2024
Eyjan

Davíð, Geir og utanríkisþjónustan

Egill Helgason
Sunnudaginn 2. október 2005 00:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Fjölskyldan Haarde hefur staðið í ströngu að undanförnu. Geir, nýorðinn utanríkisráðherra, fékk skoðanakönnun þar sem kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn sveiflast upp um 8 prósentustig. Hefur ekki verið hærri í langan tíma. Varla finnur maður aðrar skýringar á því en almennan létti vegna brotthvarfs Davíðs. Og svo náttúrlega að erfitt er að láta sér mislíka sérstaklega við Geir.

Skoðanakannanir á borð við þetta munu auðvitað greiða enn leiðina fyrir hann í formannsstólinn. Það verður mikið klappað á landsfundinum. Þetta eru hveitibrauðsdagarnir hans.

— — —

Fóstursonur Geirs, Borgar Þór Einarsson, var kosinn formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna á þingi í Stykkishólmi um helgina. Geysileg barátta hefur staðið um val fulltrúa á þingið – Borgar náði að þrýsta fylgi sínu upp í 70 prósent. Með kosningu hans lýkur tangarhaldi harðra hægrimanna á SUS, en það hefur staðið í mörg ár. Síðustu forverar hans hafa verið hreinræktaðir frjálshyggjumenn, en Borgar er nær miðjunni – maður sér hann varla fyrir sér gagnrýna fósturföður sinn harkalega þegar hann verður orðinn formaður flokksins.

Raunar er því fleygt að Borgar sé sjálfur að hugsa um að fara í framboð til þings – þá hugsanlega í Norðvesturkjördæmi, enda er hann ættaður af Akranesi.

— — —

Inga Jóna, móðir Borgars og kona Geirs, er hins vegar hætt í pólitík. Ég er varla einn um að finnast eftirsjá að henni. Nokkuð óvænt brá henni þó fyrir á sjónvarpsskjánum í kvöld; þarna var hún komin á opnun kosningamiðstöðvar Vilhjálms Þ. Vilhjálmssonar. Ég sá raunar ekki betur en að hún væri að stíga upp í ræðupúlt – leiðréttið mig ef það er ekki rétt.

Nokkrir stuðningsmenn Gísla Marteins hafa sagt við mig að innst inni styðji Geir Haarde Gísla í prófkjörinu. Fatti að hann muni geta sigrað í kosningunum. Ég veit ekki – það er þeirra útgáfa. Skyldi þessi óvænta heimsókn Ingu Jónu á kosningaskrifstofuna þýða að það er í raun Vilhjálmur sem nýtur stuðnings formannsins verðandi?

— — —

Geir er kominn í utanríkisráðuneytið. Tekur við af sjálfum Davíð sem hafði varla tíma til að setja mikið mark á embættið – gengdi því heldur ekki nema í ár. Og þó. Á einu sviði starfseminnar var Davíð mjög ötull. Hann stóð í ströngu við að raða vinum sínum, samstarfsmönnum og samherjum inn í utanríkisþjónustuna. Svo var hann duglegur að sagt er að Geir muni ekki geta komið neinum manni að næstu árin.

Þannig náði Davíð að skipa 10 sendiherra á þessu eina ári í ráðuneytinu – það er ábyggilega met. Þetta eru Markús Örn Antonsson, Albert Jónsson, Ólafur Davíðsson, Júlíus Hafstein, Sveinn Björnsson, Helgi Gíslason, Guðmundur Árni Stefánsson, Hannes Heimisson, Kristján Andri Stefánsson og Sigríður Dúna Kristmundsdóttir. Að auki var Sigurður Helgason, gamall karl úr fluginu, settur yfir þróunaraðstoð – sem er ekki vitað til að hann hafi hundsvit á.

— — —

Kristján Andri Stefánsson sem hefur verið sérlegur aðstoðarmaður Davíðs í gegnum árin, lengst af í forsætisráðuneytinu, er allt í einu orðinn fulltrúi þjóðarinnar í eftirlitsstofnun EFTA. Sagt er að Norðmennirnir sem þar sitja hafi orðið steinhissa að sjá allt í einu birtast svo ungan og óreyndan mann, skartandi sendiherranafnbót.

Sigríður Dúna var hins vegar gerð að sendiherra í Suður-Afríku, þó með þeim fyrirvara að hún tekur ekki við embættinu fyrr en að loknu ári. Samt var ekki hægt að bíða með að skipa hana. Kannski var Geir ekki nógu vel treystandi?

Menn sjá ýmis tækifæri í samskiptum við Suður-Afríku, ekki síst á viðskiptasviðinu, en velta þó fyrir sér hvaða erindi prófessor í mannfræði á þangað.

— — —

Geir Haarde situr uppi með ákvarðanir forvera síns og þorir ekki að æmta né skræmta. Það á enn eftir að kjósa hann sem formann. Hins vegar er hann varla sæll með þetta. Hvað varðar diplómatana upp í utanríkisráðuneyti, þá eru þeir moðfúlir. Morgunblaðið hefur hins vegar ekki skrifað leiðara um útþenslu utanríkisþjónustunnar um nokkurt skeið.

— — —

Annar kaleikur sem Geir fékk í hendurnar var framboðið til Öryggisráðsins. Davíð var víst heldur á móti því, þótt hann gæti ekki tekið af skarið og slegið það af. Einar Oddur Kristjánsson var sendur út á völlinn til að hrópa það niður – og varð mjög vel ágengt. Flestir voru sammála honum um að þetta væri snobb. Samkvæmt nýrri skoðanakönnun er mikill meirihluti þjóðarinnar á móti þessu.

Geir tekur afstöðu sem er hvorki né – við höldum áfram með framboðið en höfum það eins ódýrt og hægt er. Kannski getur einhver talið það stjórnvisku að fara svona meðalveg, en líklegast er að hann leiði barasta ekki neitt. Úr þessu er framboðið varla nema til málamynda.

Staðreyndin er samt sú að Íslendingar hafa undirgengist að fara í framboð til Öryggisráðsins í samstarfi við hin Norðurlöndin. Þau spurðu – viljið þið prófa? Íslenska ríkisstjórnin sagði – já. Nú er dregið í land en samt bara til hálfs; svona hálfkák er ekkert sérstaklega sæmandi nýjum utanríkisráðherra og verðandi formanni stærsta stjórnmálaflokksins.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Umpólun Snorra?

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar með meiri kaupmátt en við!

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Allar hinar Norðurlandaþjóðirnar með meiri kaupmátt en við!
EyjanFastir pennar
Í gær

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum

Davíð Þór Björgvinsson skrifar: Treystum kjósendum
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar

Gísli Hvanndal Jakobsson skrifar: Sjúkrahúsið Vogur og kosningar
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?

Hver er hinn verðandi dómsmálaráðherra Trump?