Steinunn Valdís segir að sjálfstæðismenn hafi stolið skipulagshugmyndum frá sér. Einmitt. Hví hafa þær þá ekki birst? Hefur verið í gangi ógurlega mikil leynileg skipulagsvinna hjá borginni? Eitthvað sem enginn fær að sjá fyrr en – pops – heilu hverfin eru risin á óvæntum stöðum?
Nú bíður maður eftir því að umhverfisverndarsinnar láti í sér heyra. Þeir munu rísa upp og segja að í Engey og Akurey sé ómetanleg náttúra sem megi alls ekki eyðileggja. Orðið „náttúruperlur“ mun koma oft fyrir. Þarna er ábyggilega varp. Vitið til – fyrsta Morgunblaðsgreinin birtist á allranæstu dögum.
En fyrst hugmyndin er á annað borð að fara með byggðina þarna út í eyjarnar er alveg eins hægt að kippa flugvellinum með líka. Er það kannski næsti áfanginn?
— — —
Í viðtalinu í Mogganum á sunnudaginn talaði Gísli Marteinn um að hann vildi flytja flugvöllinn út fyrir borgarmörkin – ekki til Keflavíkur. Ég var frummælandi á fundi um flugvallarmálið hjá sjálfstæðismönnum í Reykjavík fyrir stuttu – talaði um að það ætti að vera hægt að koma upp snotrum flugvelli utan bæjarmarkanna. Stundum hefur maður smá áhrif – daginn eftir frétti ég að víða í Ráðhúsinu væru menn að tala um „snotran“ flugvöll.
Þetta er málamiðlun sem ætti að vera hægt að koma í kring. Það þarf bara smá kjark – einhvern sem er tilbúinn að taka pínulitla pólitíska áhættu. Kannski verður ögn lélegri nýting á slíkum flugvelli en Reykjavíkurflugvelli – það verður bara að hafa það.
Hvað varðar kostnaðinn þá sagði Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, á fundinum að hann hefði kannað málið – hann taldi víst að slíkur völlur myndi kosta innan við 10 milljarða króna. Það þarf auðvitað engan millilandaflugvöll til að anna þúsund farþegum á dag.
Þetta er ekki stór upphæð miðað við til dæmis Héðinsfjarðargöng og ekki heldur miðað við verðmæti landsins í Vatnsmýrinni. Ríkið er meira að segja eigandi að þriðjahluta þessa lands – eða ég veit ekki betur – andvirði þess myndi duga fyrir flugvelli og vel það.
— — —
Yfirleitt er dásamlegur samhljómur milli Vef-Þjóðviljans og Ólafs Teits Guðnasonar. Í dag birtir Vef-Þjóðviljinn pistil þar sem er fjallað um meint kosningasvindl Ágústs Ólafs Ágústssonar. Atburðarásin á landsfundi Samfylkingarinnar er rakin nokkuð nákvæmlega, hvernig landsfundargestum fjölgaði og fækkaði, og loks kemur þessi punktur sem varpar óneitanlega nýju ljósi á málið:
„Síðast en ekki síst hefur Sigríður Dögg Auðunsdóttir blaðamaður á Fréttablaðinu og fulltrúi blaðsins á fundinum ekkert fjallað um þessar alvarlegu ásakanir um víðtæk kosningasvik stuðningsmanna Ágústs Ólafs Ágústssonar. Þarf frekari vitna við?“
— — —
Ólafur Teitur skrifar hins vegar grein í Viðskiptablaðið þar sem hann gagnrýnir fréttaflutninginn, segir að frétt af málinu á Stöð 2 hafi verið „villandi, ófullnægjandi og ósanngjörn“. Ólafur lætur vera að minnast á stórar fullyrðingar sem hafa verið um Ágúst í DV, en beinir í staðinn athygli að forsíðufréttfrétt sem birtist í Blaðinu á mánudaginn. Það er alveg rétt hjá Ólafi að í þessu máli hefur verið tilhneiging til að vísa í nafnlausa heimildamenn eða jafnvel einhvern orðróm sem sagður er ganga í Samfylkingunni:
„Það er umhugsunarefni hvort rétt sé að leyfa heimildarmanni að bera fram slíka ásökun í skjóli nafnleyndar. Ef viðkomandi hefur eitthvað fyrir sér hlýtur honum að vera í lófa lagið að stíga fram og gera formlega athugasemd. Hafi hann ekki nóg í höndunum til þess aukast líkurnar á að um sé að ræða ágiskanir, orðróm, slúður eða jafnvel rógburð.“
— — —
Í sjónvarpsfréttum var sagt að Bakkavör selji „tilbúin kæld matvæli“. Hvað er nú það? Jú, eitthvað sem Bretum þykir gott. Matur í plasti á bökkum. Það kom fram að stærsti markaður í heiminum fyrir svonalagað væri í Bretlandi. Ekki til dæmis í Frakklandi. En flestir Frakkar vilja jú upp til hópa fersk matvæli meðan Bretar eru þekktir fyrir versta mataræði í víðri veröld.
— — —
Alls staðar i heiminum horfir fólk hins vegar á sama draslið í sjónvarpinu. Disney er búið að kaupa Latabæ til að setja í sjónvarp í Frakklandi. Þeir fá þetta yfir sig eins og aðrir.
Á forsíðu Silfurs Egils