fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Skál í botn – reykingar bannaðar!

Egill Helgason
Laugardaginn 15. janúar 2005 00:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Birtist í DV 15. janúar 2005

Þegar ég var að byrja að skemmta mér fyrir,hvað – á tíma þegar staður sem hét Tjarnarbúð var vinsælastur – voru skemmtistaðir opnir til klukkan eitt á föstudögum og tvö á laugardögum. Það var framfylgt reglu um að allir yrðu að vera komnir inn á staðina klukkan hálf tólf – annars mátti ekki hleypa þeim inn. Ef þeir fóru út komust þeir ekki inn aftur. Það var bannað að veita áfengi á miðvikudögum, þá skyldu menn undanbragðalaust láta renna af sér.

Það var einnig forboðið að selja áfengi á veitingahúsum milli tvö og sex á daginn. Þeir sem vildu drekka á þeim tíma urðu að ná samkomulagi við þjónustufólkið um að fá vín framborið í kaffibollum eða tekönnum. Á stöðum þar sem þetta tíðkaðist var oft glatt á hjalla síðdegis.

Það þarf ekki að taka fram að bjór var ekki á boðstólum. Það var heldur ekki lenska að veita léttvín nema með mat. Slíkir matsölustaðir voru yfirleitt ekki nema á hótelum – þannig drakk fólk ekki léttvín nema á stöðum þar sem var hægt að sofa yfir nóttina. Svo fór lítil hola á Hringbrautinni, Stúdentakjallarinn, að selja Matteus-rósavín án þess þess að maður þyrfti að kaupa mat með. Þetta var mjög umdeilt – en það hét einu orði „léttvínsbyltingin“.

Á áfenginu hvíldi bannhelgi. Þetta var mestanpart forboðin vara, illa séð af samfélaginu. Íslendingar höfðu neyðst til að aflétta vínbanni fyrr á öldinni, en aðeins vegna þess að viðskiptaþjóðir í Suður-Evrópu neyddu okkur til þess. Meirihluti stjórnmálamanna hafði horn í síðu áfengis – að minnsta kosti opinberlega. Vín var selt í ljótum, fráhrindandi flöskum, því var pakkað inn í brúna bréfpoka. Áfengisverslanirnar voru eins og vanhelgir staðir, vörunni var ekki stillt upp, fúlir karlar í löggulegum einkennisskyrtum réttu hana ólundarlega yfir borð. Það mynduðust langar biðraðir á föstudögum – allt var gert til að takmarka aðgengið. Búðunum var skellt í lás klukkan sex.

Eitt hefur svosem ekki breyst – áfengisverðið. Hugsunin bak við það er enn sú draga úr neyslunni. Hins vegar hefur flest annað verið breytingum undirorpið. Áfengisverslanir eru núorðið þægilegir staðir að koma í, starfsmennirnir eru skapgóðir, leiðbeina fólki um val á drykkjum. ÁTVR er jafnvel farið að auglýsa, opnunartímar hafa verið sveigðir að þörfum viðskiptavinanna. Það gæti verið stutt í að áfengissala verði gefin frjáls að einhverju leyti. Ekki er ósennilegt að þingmeirihluti sé fyrir því. Kannski er það eina sem stendur í veginum óvildin milli Baugs og Sjálfstæðisflokksins – sem óttast afleiðingar þess að afhenda Jóni Ásgeiri og co. áfengissöluna í landinu.

Þannig hefur aðgangur að áfengi orðið miklu auðveldari á síðustu árum – á sama tíma og farið er að þrengja að þeim sem hætta lífi sínu með tóbaksreykingum eða ofneyslu matar. Reykingamenn og ofætur uppskera vorkunnsemi blandna fyrirlitningu í fjölmiðlum, meðan áfengisneytendur eru eins og fínir menn, drekka eðalvín af sérlistum, geta valið úr ótal tegundum af bjór og gosdrykkjum með áfengi út í, skrifa í blöð um áhugamál sín. Mikið af þessu er auglýst leynt og ljóst – vín- og bjórsmökkun er staðlað dagskrárefni í magasínþáttum sjónvarpsstöðva. Ekki sæi maður neinn svæla sig í gegnum mismunandi sortir af sígarettum í sjónvarpinu. Varla heldur neftóbakssmökkun.

Fyrir nokkrum árum skrifaði ég pistil á netið um frjálsræðisvæðingu í skemmtanalífinu. Mér varð á að segja að það hefðu mestanpart verið vinstrimenn sem stóðu fyrir henni. Ungir sjálfstæðismenn urðu mjög sárir – hringdu í mig unnvörpum. Samt held ég að sé svolítið til í þessu, þótt kannski hafi andi frelsisins upprunalega verið kominn frá Sjálfstæðisflokknum eins og mér var bent á.

Opnunartími skemmtistaða var lengdur til klukkan 3 þegar Steingrímur Hermannsson var dómsmálaráðherra í stjórn Gunnars Thoroddsen. Bjórinn var leyfður 1989, þá sat vinstri stjórn Steingríms. Hún beitti sér kannski ekki fyrir þessu – en stöðvaði málið ekki heldur. Pylsuvagn – já, það var líka skref í frjálsræðisátt að leyfa það -fékk að hafa opið á nóttinni í Austurstræti á tíma vinstri meirihlutans 1978-1982. Það var svo á öðru kjörtímabili R-listans að opnunartími veitingahúsanna í bænum var mestanpart gefinn frjáls.

En auðvitað er þetta ekki svona einfalt – við skulum ekki ofmeta völd pólitíkusa. Þetta er partur af alþjóðlegum straumum. Tímartitið The Economist gerir þetta að umfjöllunarefni í nýjasta hefti sínu. Útkoman úr neyslutísku síðustu ára er dálítið einkennileg – að maður segi ekki hræsnisfull. Rétthugsunin í samfélaginu hefur eytt kröftunum í tóbaksvá – og nú offitu – en áfengið hefur mestanpart verið látið í friði. Það er stutt í að reykingar verði að miklu leyti bannaðar á almannafæri, en tæplega er að vænta neinna aðgerða gegn áfengisdrykkju. Þvert á móti.

Skýringanna er að nokkru leyti að leita í borgarskipulagi. Miðborgum fór mjög að hnigna á áttunda og níunda áratugnum. Verslanir fluttu úr miðbæjunum – þeir dröbbuðust niður. Eitthvað varð að gera til að bjarga þeim, fá fólk þangað aftur. Þá hófst allsherjar skemmtistaðavæðing miðborganna, slakað var á alls konar reglum, þeir fyltust smátt og smátt af veitingahúsum og krám. Og jú – fólkið fór að koma aftur.

Jafnframt myndaðist þrýstingur á að gera reglurnar enn frjálslegri. Þeir sem hafa komið til Bretlands þekkja hin ströngu lög sem þar hafa verið um opnunartíma pöbba. Fólki er varpað út klukkan 11, þá liggur leiðin oft í nokkuð vafasama klúbba. Þetta er gamalt regluverk – hugsunin er sú að fólk, ekki síst erfiðisvinnumenn, geti mætt í sæmilegu lagi í vinnu morguninn eftir.

Nú er verið að breyta þessu, ekki síst fyrir áeggjan bæjarstjórna. Opnunartími pöbba verður gefinn frjáls. Þetta mælist misjafnlega fyrir – samkvæmt skoðanakönnunum virðist almenningsálitið fremur vera að snúast gegn þessu, líka í bæjarhlutum sem byggja á fjörugu skemmtanalífi. Economist bendir á að áfengi eigi þátt í 40 prósentum allra ofbeldisglæpa. Hér á landi er hlutfallið líklega hærra. Brennivínið hefur í för með sér ótal eyðilögð líf, sjúkdóma, sorg og dauða. Blaðið segir líka að þótt bæjarstjórnir vilji aukið frelsi í áfengismálum, þá sé það oftastnær ríkið sem þurfi að borga fyrir afleiðingar ofdrykkjunnar – til dæmis aukna löggæslu.

Áfengi er náttúrlega hið lögleidda fíkniefni Vesturlanda. Það dettur í rauninni engum í hug að banna það – og það er heldur engin alvara á bak við hugmyndir um að leyfa fíkniefni sem vel gæti hugsast að séu minna hættuleg en áfengi. Þetta eru kverúlantaskoðanir. Áfengi er inngróið í menningu okkar – við sækjumst eftir örvun þess, það gerir okkur úthverf, ólíkt kannabisi sem veldur því að maður hverfist allur inn á við. Hass er hægt að leyfa gegn augnsjúkdómum og til að gera breskar fótboltabullur skaðlausar – annars helst ekki.

Drykkjusiðirnir hafaheldur ekkert breyst þótt drykkjan dreifist á lengri tíma. Hún er ennþá með þessu þunglyndislega norræna sniði. Keppendur í Amazing Race voru hissa á að sjá unga Íslendinga á fylleríi þegar þeir stigu út úr morgunvél í Keflavík. Túristar hér fara að fá sér morgunkaffi innan um fólk sem er enn að skemmta sér á fullu – oft orðið ömurlegt á að horfa. Það er satt að segja dálítið óvenjulegt að fjöldi skemmtistaða sé opinn til sjöeða átta á morgnana inni í miðri borg. Ég man altént ekki eftir því að hafa komið á slíkan stað.

Ég bý í miðbænum.Í næstu götum gengur fólk um öskrandi á nóttinni. Ég er sem betur fer í skjóli við það. Ég er heldur ekkert að prédíka um að öllu verði lokað aftur. Vinur minn sem býr nær sollinum segir að margir séu vitstola þegar líður að morgni. Strætin eru eins og yfirgefinn vígvöllur á morgnana. Það er talað um að þetta sé knúið áfram af fíkniefnaneyslu, að það þyki sjálfsagt að fólk hópist inn á salerni skemmtistaðanna til að setja í sig dóp. Annars hafi skemmtanafíklar varla svona mikið úthald. Að minnsta kosti virðist vera nógu eftirsóknarvert að flytja hér inn spítt og kókaín. (Sérfræðingur í þessum málum sýndi mér reyndar eitt sinn línurit, þar kom fram að dópneyslan hér var nákvæmlega samhverf því sem tíðkaðist í Ástralíu; fíkniefnakúltúr kemur semsagt og fer í líki tískubylgja sem ganga um heiminn.)

Konan mín fór að skemmta sér með vinkonu sinni í fyrra – þær nálgast það að líta út fyrir að vera fullorðnar konur – ungur maður tók sig til og æfði karatespark á hausnum á henni. Hann sníkti af þeim sjúss, vildi fá að spjalla við þær, en þær höfðu ekki áhuga. Löggan var ekki alveg viss um að það væri sniðugt að kæra. Tóbakið verður hreinsað út af skemmtistöðunum en áfengið verður eftir. Meðan eru bæirnir þó ekki alveg dauðir.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“