fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Tómlegt um að litast í Arafatlandi

Egill Helgason
Föstudaginn 12. nóvember 2004 00:01

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það er spurning hvernig sagan mun dæma Yasser Arafat, þennan öldung sem endaði uppi sem fangi í Ramallah, í hruninni byggingu sem mátti helst ekki gera við vegna táknræns gildis síns, með sveitta og titrandi efrivör, milljarða á bankareikningum, en þó ennþá helsti leiðtogi Palestínumanna? En það þarf kannski ekki að spyrja svona – yfirleitt skrifa sigurvegarar söguna.

Menn spyrja líka hvort Arafat – friðarverðlaunahafi Nóbels – hafi verið maður sem vildi stuðla að friði eða hvort hann hafi þvert á móti verið dragbítur á friðinn? Líf hans er fullt af mótsögnum. Hann er hryðjuverkamaður sem fær að fara í heimsókn í Hvíta húsið. Hann á glæsta stund þegar hann snýr aftur til Palestínu 1994 sem óskoraður leiðtogi þjóðar sinnar. Um leið er hann kominn upp á náð og miskunn Ísraelsmanna – fær ekki að fara neitt nema þeir leyfi.

Áður hafði gengi Arafats verið fallvalt. Hann og menn hans höfðu verið hraktir land úr landi, frá Jórdaníu til Líbanons og svo endað í útlegð í Túnis, fjarri fólki sínu. Þá braust út uppreisn á Palestínusvæðunum, intifadan fyrri. Arafat hafði ekkert með uppreisnina að gera – þeir sem börðust úti á götum við Ísraelsmenn voru aðallega börn og unglingar – en honum tókst að lokum að eignast hlutdeild í henni. Það var enn eitt dæmið um hvað hann hann hafði óræða hæfileika til að fljóta uppi við yfirborðið.

Síðan studdi hann Saddam Hussein í Persaflóastríðinu 1991. Það var vegna þess, sagði Arafat, að hann hlustaði á fólkið á götunum í Gaza og Vesturbakkanum. Hann og Saddam áttu líka ýmislegt sameiginlegt. Þeir voru miklir valdstreitumenn en lélegir múslimar – ríki þeirra var fyrst og fremst veraldlegt. Við þetta missti Arafat tiltrú bæði á Vesturlöndum og víða í Arabaheiminum – hinir vellauðugu Sádar sneru baki við honum. Hann virtist varla eiga afturkvæmt.

En hann þraukaði. Bandaríkjamenn ákváðu að hann væri maðurinn til að semja við í Palestínu. Arafat hafði kjark til að ganga til samninga og viðurkenna tilverurétt Ísraels. Kannski var það eina úrræðið, en það verður samt ekki frá honum tekið. Nokkrum árum síðar stóð hann á grasflötinni við Hvíta húsið og tók í höndina á Yitzhak Rabin – sem hryllti sig þegar hann snerti Palestínuforingjann. Sjálfur Clinton kom nokkru síðar til Gaza og ávarpaði þing palestínsku heimastjórnarinnar.

Oslóarsamningurinn, sem glæddi friðarvonirnar, var samt meingallaður. Arafat hafði ekki þolinmæði fyrir smáatriðum. Það er sagt að hann hafi ekki einu sinni litið á kort meðan á samningaviðræðunum stóð. Í samninginn vantaði líka tryggingar og markmið til framtíðar. Alltof stórum spurningum var ósvarað. Þess vegna var líka auðvelt að brjóta hann. Þegar Netanyahu tók við eftir andlát Rabins fóru Ísraelsmenn að svíkja hann miskunnarlaust. Þeir settu aukinn kraft í að byggja landnemahverfi á palestínskri jörð. Arafat tókst heldur ekki að stöðva hryðjuverkin gegn Ísraelsmönnum.

Það hefur líka verið spurt hvort hann hafi yfirleitt viljað gera það. Arafat og Hamassamtökin voru að vissu leyti í hrollvekjandi bandalagi sem gekk út á að að halda niðri raunverulegum umbótasinnum, mönnum sem vildu uppræta spillingu og koma á alvöru lýðræði. Heimastjórn Palestínu var engin fyrirmynd lýðræðislegra stjórnarhátta – Arafat enginn Mandela. Hann vildi ekki hafa fólk í kringum sig sem var með hugmyndir, heldur trygga varðhunda; fólk sem sagði ekki bara já, heldur – já, ég hef á röngu að standa, líkt og segir í einni fréttaskýringu.

Hann hélt uppi feikilegum öryggissveitum sem lutu mjög flóknu skipulagi, þeim stærstu í heiminum miðað við fólksfjölda er sagt. Mönnum var haldið í fangelsi án dóms og laga, pyntingar tíðkuðust, fólk hvarf sporlaust. Undir heimastjórninni ríkti andrúmsloft samsæris sem Arafat nærðist á. Óskaplegar fjárhæðir hafa horfið .Ali Baba hafði 40 þjófa – Arafat 400, er sagt. Samstarfsmenn hans óttuðust að hann andaðist skyndilega eða yrði myrtur – þegar hann lenti til dæmis í flugslysi í Líbýu kom mikið fát á þá – þá myndi enginn vita almennilega hvar peningarnir væru niðurkomnir.

Þannig er sagt að Arafat hafi ekki skapað Palestínuríki heldur sitt eigið Arafatland. Samt leyfir maður sér að efast um að palestínska þjóðin eigi meiri von að þessum gallaða leiðtoga gengnum. Það eru stærri og voldugri öfl sem stjórna harmleiknum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“

Sigmundur Davíð um slaufun Þórðar Snæs – „Þeir sem eru fyrstir til að kasta steinunum það eru yfirleitt ekki þeir syndlausu“
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“

Össur segir Þorgerði farna að hallast til hægri – „Hún smó undan sem fugl á flugi“
EyjanFastir pennar
Fyrir 3 dögum

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?

Ágúst Borgþór skrifar: Er hægt að létta þessari martröð af þjóðinni?
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump

Þetta myndi Arnar Þór gera ef hann væri Donald Trump