Þegar að er gáð, og farið er ofan í saumana, líkist velferðarkerfið á Íslandi miklu heldur því bandaríska heldur en því norræna. Ástæðan er einkum og sér í lagi sú að það hefur verið svelt og því ekki sinnt sem skyldi – og liggja til þess pólitískar ástæður, en hægrisinnaðir íhaldsmenn, sem lengst af hafa farið með völdin hér á landi á lýðveldistímanum, hafa verið uppteknari við að skara eld að eigin köku, í stað þess að hlúa að almenningi og gæta hagsmuna alþýðunnar.
Sú bláa viðvörun yfir landinu hefur varað lengi.
Tölfræðin talar sínu máli. Og væri nær að segja að hún æpti og öskraði.
Öll norrænu ríkin, nema Ísland, raða sér á lista yfir þau þjóðlönd þar sem auðveldast er að ala upp börn, að því er fram kemur í könnun U.S. News frá árinu 2024. Hún byggir á svörum nærri 17 þúsund svarenda um allan heim þar sem hugað er að átta þáttum sem varða stöðu mannréttinda, hamingju, fjölskylduvænt samfélag, kynjajafnrétti, launajöfnuð, háþróað heilbrigðis- og menntakerfi og öryggi.
Danmörk er efst á listanum, svo Svíþjóð, þá Noregur og loks Finnland í fjórða sæti. Ísland kemur ekki þar á eftir, heldur Sviss, Kanada, Holland, Ástralía, Nýja Sjáland, Austurríki, Belgía, Írland og Þýskaland.
Ísland er í fjórtánda sæti yfir þau lönd sem gera best við börn og barnafjölskyldur, næst á undan Bretlandi, og litlu neðar eru svo Spánn, Frakkland og Ítalía. Bandaríkin eru í 24. sæti.
Á mannamáli merkir þetta að hagur þess fólks, sem skiptir framtíð Íslands mestu máli, er langt frá því að vera forgangsatriði. Á listanum er Ísland nær Bandaríkjunum en norrænu löndunum í efstu sætunum.
Það sama er upp á teningnum hvað varðar þjónustu við aldraða. U.S. News spurði annan eins fjölda fólks á eftirlaunaaldri að því hvernig afkomuöryggi þess væri, hvaða skattaálögur væru lagðar á það, hvort eignaréttur þess væri virtur, hversu ánægt það væri með búsetu, hvort það væri einmana, hvernig loftslagið væri, og hversu háþróað heilbrigðiskerfið þætti vera á heimaslóðum þess.
„Á mannamáli merkir þetta að hagur þess fólks, sem skiptir framtíð Íslands mestu máli, er langt frá því að vera forgangsatriði.“
Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð raða sér öll í tuttugu efstu sætin, þótt þau séu raunar ekki í efstu sætunum, en þar sitja Sviss, Nýja Sjáland, Portúgal, Ástralía, Spánn og Kanada. Þar á eftir koma öll norrænu ríkin, nema Ísland. Það kemur sér fyrir á milli Kýpur og Malasíu í 26. sæti, ekki langt frá Bandaríkjunum sem hlamma sér í 30. sæti.
Svo aftur sé vikið að mannamáli þýðir þetta að hagur aldraðra á Íslandi er heldur ekki í fyrirrúmi hér á landi.
Allt ber hér að sama brunni, því bandaríska viðskiptatímaritið Fortune kemst að álíka niðurstöðu hvað gamla fólkið varðar. Þegar það skoðaði þætti á borð við hamingju, heilbrigðisþjónustu, lífsgæði, loftslag og ævilengd, reyndist Japan tróna á toppnum, þá Holland, svo Danmörk, Sviss, Lúxemborg, Spánn, Suður-Kórea, Finnland, Austurríki og Portúgal.
Ísland var hvergi að sjá á listanum.
Og þetta er auðvitað áfellisdómur yfir velferðarþjónustunni á Íslandi. Henni hefur ekki verið sinnt af þeim pólitíska áhuga og drifkrafti sem flestar aðrar þjóðir, sem við viljum bera okkur saman við, sýna málaflokknum. Og því hefur pólitík valdið sem hafnar venjulegu launafólki, en hampar eignamönnum.
Öflug verkstjórn í þágu fólks og heimila, sem lætur sig almannahagsmuni varða, umfram annað, þarf að breyta þessu. Til þess er hún stofnuð.