Niðurstöður nýrrar rannsóknar sýna að ekki er langt í að búið verði að útrýma leghálskrabbameini og 2040 gæti svo farið að svo fáar konur fái leghálskrabbamein að í raun verði talið að því hafi verið útrýmt.
B.T. segir að þetta komi fram í fréttatilkynningu frá dönsku krabbameinssamtökunum. Haft er eftir Janne Bigaard, yfirlækni hjá krabbameinssamtökunum, að á sjöunda áratugnum hafi leghálskrabbamein verið þriðja algengasta krabbameinið hjá konum. Í dag sé það í þrettánda sæti.
Hún sagði að ástæðurnar fyrir fækkun tilfella séu meðal annars góð þátttaka í bólusetningu gegn því og góð mæting kvenna í leghálsskoðun. 89% 12 ára stúlkna þiggja nú HPV-bóluefni gegn leghálskrabbameini en markmiðið er að koma hlutfallinu upp í 90%. 60% kvenna mæta í leghálsskoðun en markmiðið er að fá 70% þeirra til að gera það.
Samkvæmt skilgreiningu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar telst leghálskrabbameini hafa verið útrýmt ef fjöldi tilfella er undir fjórum á hverjar 100.000 konur.