Nýleg greining á fjórtándu aldar handriti gefur til kynna að Kristófer Kólumbus hafi vitað af ferðum norrænna manna vestur til Ameríku. Staðurinn Markland hafi verið þekktur við Miðjarðarhafið.
Vísindatímaritið The Brighter Side greinir frá þessu.
Handritið sem um ræðir kallast Cronica universalis og var skrifað árið 1345, 147 árum áður en hinn ítalski Kristófer Kólumbus sigldi á vegum Spánverja vestur yfir Atlantshafið og kom að landi á Karíbahafseyjum.
Stundum er talað um að Kólumbus hafi „fundið“ Ameríku en eins og flest vita höfðu norrænir menn siglt þangað árhundruðum fyrr. Það er Eiríkur rauði til Grænlands árið 983 og sonur hans Leifur heppni til Kanada í kringum árið 1000. Þessar norrænu byggðir lögðust hins vegar af og var sú í Kanada, það er í Vínlandi, Hellulandi og Marklandi, afar skammlíf.
Cronica universalis var skrifað af ítölskum munki að nafni Galvaneus Flamma, frá Mílanó. Hefur handritið ekki fengið mikinn gaum hjá fræðimönnum fyrr en nú.
Það var Paolo Chiesa, prófessor í miðalda latínu við Mílanó háskóla, sem rannsakaði handritið og fann þar texta þar sem virðist vera talað um Norður Ameríku.
„Þessi tilvísun er ótrúleg,“ segir Chiesa en í handritinu er minnst á stað sem kallast „Marckalada“ og virðist eiga að vera Markland. Ekki er vitað nánkvæmlega hvar Markland var, en talið er að það gæti hafa verið hluti af eyjunni Labrador, vestur af Kanada. Að minnsta kosti er sagt að það hafi verið, sunnan við Helluland og norðan við Vínland. Einnig er hugsanlegt að Markland hafi verið á Nýfundnalandi.
Að sögn Chiesa er þetta handrit það elsta sinnar tegundar á Miðjarðarhafssvæðinu þar sem minnst er á Ameríku. Kólumbus var frá Genúa, ekki langt frá Mílanó, og því ekki ólíklegt að hann gæti hafa vitað af þessu.
Chiesa segir að sæfarar frá Genúa hafi verið vel tengdir og upplýstir. Sögur eða orðrómar um Markland gætu vel hafa ratað í þeirra eyru, á bryggjusporðum eða á hafnarkrám.
Veitir þessi uppgötvun innsýn inn í huga Kólumbusar. Sigldi hann yfir hafið án þess að hafa minnsta grun um hvað hann myndi finna eða hafði hann einhverja brotakennda vitneskju um hvað gæti legið handan hafsins? Eitthvað annað en Indland og Kína sem voru vel þekkt svæði?
Þrátt fyrir að Cronica universalis færi okkur aðeins glefsur telur Chiesa að handritið segi okkur að vitneskja um lönd í vestri hafi verið mun útbreiddari en hingað til hafi verið talið.