fbpx
Miðvikudagur 16.apríl 2025
Fréttir

Draumaferðin breyttist í martröð – „Mikið svakalega er ég reið, sár og svekkt“

Kristinn H. Guðnason
Þriðjudaginn 15. apríl 2025 20:00

Vegabréfið var ekki tekið gilt á flugvellinum.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íslenskar vinkonur sem voru á ferðalagi um suðaustur Asíu lentu í miklum vandræðum þegar vegabréf einnar þeirra var skyndilega ekki tekið gilt. Upphófst atburðarás sem kostaði bæði mikinn pening og vandræði. Eru þær vonsviknar með Sýslumann og útgáfu vegabréfsins.

„Þessi uppákoma er bara eins og lygasaga,“ segir Rannveig Jónsdóttir við DV en hún hafði áður greint frá sögunni á í færslu á samfélagsmiðlum. Segir hún fulla ástæðu til að gagnrýna hversu léleg ný vegabréf séu, en vegabréf vinkonu hennar, Eddu Lóu Phillips, var ekki tekið gilt á flugvellinum í Kambódíu.

„Mikið svakalega er ég reið, sár og svekkt,“ segir Rannveig í færslunni sem skrifuð var í gær. En vinkonurnar voru aðskildar í ferðinni og um tíma vissu þær ekki hvernig þetta myndi fara.

Rifa á myndinni

Rannveig segir þessa ferð til suðaustur Asíu hafa verið draumaferðina sína sem hún hafi keypt í fyrra og að hún hafi verið að njóta hennar í botn þangað til þessi uppákoma kom upp í Kambódíu. En þá ætluðu þær að fljúga til Bangkok í Thailandi og dvelja þar á lúxushóteli. Rannveig er nú þar ein en Edda Lóa komst á endanum aftur heim til Íslands, en það tók á.

„À flugvellinum í Kambódíu í gærmorgun segja starfsmenn í innritun að vegabréfið hennar Eddu sé ekki gilt, því það sé „rifa“ í myndinni, hún fái ekki að fara úr landi til Thailands… nema þá að þeir samþykki að hún komi í gegn með flugmiða áfram heim, megi ekki stoppa,“ segir Rannveig.

Höfðu þær margoft þurft að sýna vegabréfin á ferðalaginu og hafði komið beygla í vegabréf Eddu Lóu. Kom mikið fát á hópinn og fararstjórinn í ferðinni reyndi að bóka flug til Evrópu. Fannst loksins flug í gegnum Bangkok og Doha til Kaupmannahafnar og var það keypt. Þá dugði það hins vegar ekki því flugið varð að vera alla leið til Íslands.

Á meðan þetta var að gerast leið að því að flugvélin fór til Bangkok og ljóst að Edda Lóa myndi ekki fara með. „Ég gat ekkert gert nema fara og skilja Eddu eftir eina á vellinum, taskan mín innrituð, og vélin að fara,“ segir Rannveig. Á hlaupunum bókuðu þær flug frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur „með grátstafinn í kverkunum og kvíðahnútinn um allan líkamann,“ segir hún.

Hringt í neyðarnúmerið

Klukkutíma eftir að þær komu til Bangkok fengu þær að vita að Edda mætti ekki fara um Bangkok eða Doha þar sem hún væri ekki með „alþjóðaskírteini.“ Þar með voru flugmiðar fyrir 160 þúsund krónur farnir í vaskinn.

Hringdu þær í neyðarnúmer utanríkisráðuneytisins, enda mið nótt og helgi. Haft var samband við sendiherrann í Beijing og ræðismanninn í Thailandi. Á endanum fékkst sú niðurstaða að hún mætti fljúga í gegnum Bangkok en alls ekki stoppa þar og sameinast hópnum sínum. Ekki nóg með það þá þurfti hún að greiða fyrir ferðina í reiðufé með dollurum, samanlagt 1350 dollara eða um 174 þúsund krónur. Hún var ekki með svo mikið á sér þannig að hún þurfti að fá mann til að koma með 1000 dollara í seðlum á flugvöllinn.

Tjón og forsendubrestur

Einum og hálfu sólarhring síðar komst hún loksins til Íslands, í gegnum Bangkok og Brussel. Fékk Rannveig flugið frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur endurgreitt í dag en það var lítil sárabót.

„1/3 af ferðinni sem kostaði 895.000.- á mann ónýtur fyrir okkur tvær, hún ein í þessum hremmingum og ég ein í Thailandi, á 5 stjörnu hóteli með öllum hugsanlegum lúxus þá langar mig bara heim,“ segir Rannveig. Það hafi verið ömurlegt að þurfa að skilja Eddu Lóu eftir á flugvellinum og forsendur ferðarinnra hafi breyst.

Hver ber ábyrgð?

Segir hún að utanríkisráðuneytið hafi ekki heyrt um svona vandamál með vegabréf áður og vísaði á Sýslumanninn. Vill hún vita hver sé ábyrgur.

„Sá sem gefur út Vegabréfið sem ekki þolir að það sé handfjatlað? Er utanríkisþjónustan okkar virkilega svo andskoti máttlaus að það var ekki hægt að taka fram fyrir hendur á starfsfólki innritunar, sem tekur sér þetta vald, og finnst bara í lagi að fólk versli flugmiða fyrir hundruði þúsunda til að þóknast dyntum þeirra?“ spyr hún og segir að það sé greinilega full ástæða til þess að spara í öðru en útgáfu vegabréfa. „Þau gilda í 10 ár… og verða eins og ný eftir 10 ár, ef þið bara notið þau ekki.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

KS fyrstir til að nýta nýja varaleið OK um gervihnetti – Styrkir öryggi mikilvægra innviða

KS fyrstir til að nýta nýja varaleið OK um gervihnetti – Styrkir öryggi mikilvægra innviða
Fréttir
Í gær

Harmleikurinn í Garðabæ: Hin grunaða sögð hafa átt í stormasömu sambandi við foreldra sína

Harmleikurinn í Garðabæ: Hin grunaða sögð hafa átt í stormasömu sambandi við foreldra sína
Fréttir
Í gær

Fyrst glöddust Rússar yfir tollum Trump – Síðan rann alvarleikinn upp fyrir Kremlverjum

Fyrst glöddust Rússar yfir tollum Trump – Síðan rann alvarleikinn upp fyrir Kremlverjum
Fréttir
Í gær

Unglingahópur réðst á mann til að geta birt ofbeldismyndband á samfélagsmiðlum

Unglingahópur réðst á mann til að geta birt ofbeldismyndband á samfélagsmiðlum