Ragnhildur Þórðardóttir, betur þekkt sem Ragga nagli, er íþróttafræðingur og sálfræðingur en í athyglisverðum pistli á Facebook varpar hún ljósi á nokkuð sem fáir vita um þennan magnaða kylfing, eða öllu heldur hvaða bætiefni hann tekur og lofsamar.
„Hann hefur sagt í viðtölum að hann tekur 20 grömm af kreatíni á dag, því það sé eitt mest rannsakaða bætiefnið og því öruggt að taka svo stóran skammt. Hann sagði að það hjálpaði sér við að taka betur á því á æfingum, og kallar kreatínblönduna sína „slá-lengra-djúsinn.“ Og Norður-Írinn slær sko ekki vindhöggin, hvorki á vellinum né í þekkingu sinni á þessu ódýra og aðgengilega vöðvastöffi,” segir Ragga sem skrifar reglulega athyglisverða pistla sem vekja jafnan athygli.
Hún bendir á að kreatín sé eitt mest rannsakaða bætiefnið á markaðnum og þannig hafi þúsundir rannsókna sýnt fram á áhrif þess á frammistöðu í loftfirrðum æfingum eins og lyftingum og sprettæfingum. Þá hafi það sýnt fram á aukinn vöðvamassa, meira fitutap, meiri endurheimt.
„En það er ekki bara fólk sem rífur í járnið og sprettir úr spori sem njóta góðs af því að gúlla þetta hvíta stöff í hristibrúsa. En kreatín hefur líka áhrif í öðrum kerfum líkamans og rannsóknir í tengslum við alhliða heilsu er að fá meira fútt. 95% kreatíns finnst í vöðvum en 5% í heila og beinum. Rannsóknir hafa sýnt að kreatín hefur áhrif á minni, hugræna virkni, betra minni og athygli.“
Hún segir að konur á breytingaskeiði upplifi minni einkenni þegar þær taka kreatín aukalega. Hún nenir svo að konur hafi um 70-80% minni birgðir af kreatíni en karlar og þær borði þar að auki oft minna af kreatínríkum mat eins og rauðu kjöti.
„Eins hefur kreatín verið rannsakað í tengslum við að minnka einkenni depurðar og þunglyndis því lágar birgðir hafa tengsl við meiri einkenni og verra minni og athygli. Fólk í hugrænni atferlismeðferð sem tók kreatín aukalega upplifir bætt einkenni þunglyndis borið saman við þau sem fengu lyfleysu,“ segir hún.
Ragga bætir svo við að þrátt fyrir þennan stútfulla viskubrunn með þúsundum rannsókna á jákvæðum áhrifum kreatíns á heilsu og frammistöðu fyrir alla þjóðfélagshópa, þá „kjósi miðlarnir að plokka út eina einustu rannsókn“ sem sýndi að kreatín hefði ekki áhrif á vöðvavöxt borið saman við lyfleysu.
„Þátttakendur voru 64 talsins sem fengu kreatín í 7 daga áður en rannsókn hófst, og stunduðu síðan styrktarþjálfun í 12 vikur. Niðurstöðurnar sýndu að kreatín hópurinn bætti á sig meiri fitufríum massa eftir 7 daga. Báðir hóparnir bættu á sig 2kg af [vöðvamassa] eftir 12 vikur af styrktarþjálfun. Konur sem fengu kreatín bættu á sig meiri vöðvamassa en samanburðarhópur.“
Ragga segir að það hafi komið rannsakendum á óvart að ekki væri munur á hópunum í heildina, sem væri í mótsögn við það sem fullyrt hefði verið um áhrif kreatíns.
„Rannsakendur túlkuðu niðurstöðurnar að mögulega þyrfti hærra magn af kreatíni en 5g á dag fyrir vöðvavöxt og meiri rannsókna væri þörf til að skoða að konur njóti meira góðs af. Plús það að það tekur líkamann 3-6 vikur að mettast af kreatíni, sem þýðir þriðjungur eða jafnvel helmingur tímans að rífa í járnið var mettunin ekki komin í dúndrandi botn.“
Í pistli sínum segir hún að rannsakendurnir séu grjótharðir talsmenn kreatíns og hafi rannsakað það í öreindir með jákvæðum niðurstöðum í langflestum tilfellum.
„Þau segja sjálf að þrátt fyrir að sumar rannsóknir sýni að kreatín + styrktarþjálfun sýni ekki meiri áhrif þá séu hundruð sem séu kreatíni í hag og að meta-analýsur sýni að fólk bæti á sig c.a 1.3 kg meiri vöðvamassa með kreatín inntöku borið saman við lyfleysu.“
Ragga endar pistilinn á að lesa yfir pressunni.
„Það er ábyrgðarhluti fjölmiðla að rangtúlka niðurstöður og handpikka eina rannsókn með dramatískri smellumellu fyrirsögn til að fá traffík. Slík upplýsingaóreiða leiðir til að mögulega hætti fjöldi fólks við að taka þetta ábatasama bætiefni sem bætir alhliða heilsu og stuðlar að auknum lífsgæðum. Bölsóti lokið takk fyrir tíkall.“