Það vakti auðvitað athygli þegar Trump hóf tollastríð sitt að Rússland var undanþegið tollum með öllu á sama tíma og fjöldi annarra landa fékk toll á sig. Meira að segja eyjan Heard Island, sem er óbyggð eyja nærri Suðurskautslandinu lenti á tollalista Trump.
Rússneskir ráðamenn skemmtu sér vel yfir því að Trump lagði tolla á gömul og traust bandalagsríki Bandaríkjanna í Ameríku , Evrópu og Asíu á sama tíma og Rússland, sem hefur áratugum saman verið einn helsti andstæðingur Bandaríkjanna, slapp alveg.
„Látið storminn bara styrkjast,“ sagði Sergei Markov, stjórnmálaskýrandi, sem er í góðum tengslum við Kremlverja og bætti við: „Látið þessa heimsskipun bara hrynja saman. Með því missa Vesturlönd yfirburðastöðu sína. Þannig hugsa margir Rússar.“
En þegar mikið hrun varð á alþjóðlegum fjármálamörkuðum í kjölfar tollatilkynninga Trump fóru sumir áhrifamenn í Kreml að viðra áhyggjur sínar og bentu á að Rússland væri alls ekki ónæmt fyrir áhrifum tollanna og í raun væri landið kannski í erfiðri stöðu ef alþjóðahagkerfið brotlendir.
Alþjóðahagkerfið stendur frammi fyrir miklum breytingum vegna tolla Trump og það mun hafa áhrif á Rússa. Þeir selja meira til útlanda en þeir kaupa erlendis frá og mikilvægasta útflutningsvara þeirra, hráolía, er mjög viðkvæm fyrir áhrifum hnignunar á alþjóðahagkerfinu.
Kremlverjar hafa nú þegar fengið forsmekkinn af áhrifunum á olíuútflutninginn því ein tunna af rússneskri olíu, skipað út í Eystrasalti, var nýlega komin niður í 53 dollara og hafði verðið þá lækkað um 10 dollara síðan í byrjun apríl. Rússar flytja rúmlega 2 milljónir tunna af olíu úr landi á dag.
Ef verðið lækkar meira mun það hafa mikil áhrif á rússneskt efnahagslíf. Sérstaklega í ljósi þess að þriðja hver rúbla, sem ríkið fær í skattgreiðslur, kemur frá útflutning á orku á borð við olíu. Í fjárlögum ársins er gengið út frá því að tunnan seljist á 70 dollara.