Brynjólfur Sveinn Ívarsson, lögfræðingur og talsmaður manns sem sótti um alþjóðlega vernd hér á landi, telur að Útlendingastofnun hafi brotið lög í meðferð á máli mannsins, sem og líklega í málum fjölmargra annarra umsækjenda um alþjóðlega vernd.
Brotið felst í því að taka viðtöl við umsækjendur án þess að lögboðnir talsmenn þeirra séu viðstaddir til að gæta réttinda þeirra. Viðtölin kallar Útlendingastofnun „upplýsingaöflun í eigin persónu“ en ekki viðtal. Brynjólfur telur þetta vera hártogun.
Í fyrstu málsgrein 28. greinar útlendingalaga segir:
„Starfsmaður Útlendingastofnunar tekur viðtal við umsækjanda um alþjóðlega vernd að viðstöddum talsmanni, sbr. 30. gr., eins fljótt og unnt er eftir skráningu umsóknar. Skal talsmanni gefinn kostur á því að ræða við umsækjanda og leiðbeina honum um viðtalið áður en það fer fram.“
Segir Brynjólfur þessa lagagrein vera þverbrotna með áðurnefndum „forviðtölum“.
„Fyrir hönd skjólstæðings míns kvartaði ég sáran yfir þessari málsmeðferð fyrir kærunefnd útlendingamála, en þegar úrskurður hennar berst þá kemst nefndin að þeirri niðurstöðu að það að boða skjólstæðing minn á ákveðinn stað, á ákveðnum tíma, spyrja hann fjölda spurninga sem snúa að því hvort taka eigi umsókn hans til efnismeðferðar hér á landi, rita upp orðrétt allt sem hann segir og geyma það í skjali sem ber yfirskriftina „viðtal“, sé ekki „viðtal“ í skilningi 1. mgr. 28. gr. útlendingalaga að ræða heldur sé um að ræða „upplýsingaöflun í eigin persónu“,“ segir Brynjólfur í samtali við DV.
Í úrskurðinum eru þessi forviðtöl réttlætt svo: „Með vísan til stöðu umsækjenda um alþjóðlega vernd hefur Útlendingastofnun bæði ríkari leiðbeiningar- og rannsóknarskyldu en almennt tíðkast í hefðbundinni stjórnsýsluframkvæmd. Af orðalagi 30. gr. laga um útlendinga verður ekki ráðið að Útlendingastofnun sé óheimilt að afla upplýsinga frá umsækjendum um alþjóðlega vernd eða veita þeim leiðbeiningar um málsmeðferðina án þess að talsmaður viðkomandi sé viðstaddur. Játa verður Útlendingastofnun ákveðið svigrúm um tilhögun málsmeðferðar innan marka þeirra krafna sem fram koma í lögum um útlendinga. Sú staðreynd að umrædd upplýsingaöflun hafi farið fram í eigin persónu og sé kallað viðtal leiðir ekki til þess að um sé að ræða það rannsóknarviðtal sem mælt er fyrir um í 28. gr. laganna.“
Brynjólfur telur þessa röksemdafærslu kærunefndarinnar vera fráleita og segir:
„Það verður að viðurkennast að ég hef aldrei lesið einkennilegri heimfærslu á mínum ferli en að kalla formlegt viðtal stjórnvalds „upplýsingaöflun í eigin persónu“. Það kemur ekkert á óvart að það sé allt í tómu tjóni hjá Útlendingastofnun en ég hélt að kærunefndinni væri meira annt um faglegt orðspor sitt.“