Styrmir Sigurðsson, stjórnandi hlaðvarpsins Handkastsins, var gestur þeirra Helga Fannars Sigurðssonar og Hrafnkels Freys Ágústssonar í Íþróttavikunni á 433.is.
Kvennalandsliðið gerði tvö jafntefli, við Noreg og Sviss, í Þjóðadeildinni á dögunum. Hefði liðið geta unnið báða leikina og líst mönnum vel á framhaldið. Stelpurnar okkar fara á EM í sumar.
„Það verður gaman að sjá þær í sumar á EM. Mér finnst Steini (þjálfari) vera á réttri leið með þetta. Ég skal alveg viðurkenna að maður var kominn á lyklaborðið að spyrja á hvaða vegferð hann væri. Það er sterkt hjá þeim að koma til baka því markaskorun hefur verið af skornum skammti,“ sagði Styrmir.
Hrafnkell segir umtalið um landsliðið stundum á villigötum.
„Mér finnst oft misskilningur í kringum kvennalandsliðið okkar að fólk haldi að liðið okkar sé mjög tæknilega gott. Þær eru snöggar, líkamlega sterkar og meira svona baráttulið. Þegar það er brekka hjá þeim virðist vera svolítið erfitt að vinna sig út úr henni því þær geta ekki spilað sig í gegnum liðin. Fólk þarf svolítið að horfa í það, þetta eru okkar gildi.“