Fundargerð KSÍ frá því í lok mars var birt á vefnum í vikunni, athygli vekur umræða um Laugardalsvöllinn þar sem farið er yfir þær framkvæmdir sem eru í gangi og vonir standa til um að farið verði í.
Reykjavíkurborg er eigandi vallarins en ríkið hefur einnig komið að því að styðja við reksturinn, breytingar bæði í borginni og á landsvísu valda Inga Sigurðssyni stjórnarmanni KSÍ áhyggjum.
„ Ingi lýsti ákveðnum áhyggjum af framgangi mála og stöðugleika í öllu ferlinu vegna sviptinga í umhverfi stjórnmálanna,“ segir meðal annars í fundargerð KSÍ.
Búið er að skipta um ríkisstjórn og borgarstjórn frá því að framkvæmdir við leikvöllinn hófust.
Þá er einnig sagt frá því í fundargerð KSÍ að sambandið þurfi að ráðast í kaup á tækjum en vonir standa til um að Reykjavíkurborg (Eigandi vallarins) endurgreiði þann kostnað. Samtal KSÍ og Reykjavíkurborgar um endurnýjun á samning á rekstri vallarins eru í gangi þessa stundina.
Fundagerð KSÍ:
Ingi Sigurðsson fór yfir nýjustu fréttir af Þjóðarleikvangi ehf. og umfjöllun félagsins um næstu áfanga í uppbyggingu Laugardalsvallar. Ingi lýsti ákveðnum áhyggjum af framgangi mála og stöðugleika í öllu ferlinu vegna sviptinga í umhverfi stjórnmálanna –
bæði í borginni og á landsvísu. Til stendur að funda á vormánuðum með báðum aðilum og aðalfundur Þjóðarleikvangs verður haldinn um svipað leyti. Fyrir liggur að breyta þurfi samþykktum Þjóðarleikvangs ehf. vegna breytinga á hlutverki félagsins og á þeirri stefnu sem tekin hefur verið í fyrirhugaðri uppbyggingu Laugardalsvallar. Þær hóflegu hugmyndir sem koma frá KSÍ um uppbyggingu leikvangsins í nokkrum áföngum leggja grunninn að því sem gerist í framhaldinu.
b. Eysteinn Pétur Lárusson fór yfir tækjakaup sem liggur á vegna nýs leikflatar á Laugardalsvelli. Ljóst er að fjárfesta þarf í ákveðnum tækjabúnaði til viðhalds á leikfletinum, sem stefnt er á að verði tilbúinn til notkunar í júní á þessu ári. Um er að ræða tímabundna fjármögnun þar til Reykjavíkurborg getur endurgreitt KSÍ. Stjórn KSÍ samþykkti að veita framkvæmdastjóra umboð til kaupa á nauðsynlegum búnaði.