Ingibjörg Sigurðardóttir bar fyrirliðaband Íslands í jafnteflinu gegn Sviss í Þjóðadeildinni í kvöld. Hún var ánægð með endurkomu liðsins en hefði viljað stela sigrinum.
Ísland lenti 0-2 og 1-3 undir en niðurstaðan varð 3-3 jafntefli. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir skoraði öll mörk íslenska liðsins, sem var manni fleira síðustu 20 mínútur leiksins.
Fyrri hálfleikur Íslands í kvöld var arfaslakur og var Ingibjörg spurð út í það í viðtali við 433.is eftir leik.
„Við mættum ekki til leiks og vorum ekki að gera það sem við lögðum upp með. Við vorum á hælunum og samskiptin ekki til staðar. En í seinni hálfleik erum við allt annað lið, sýnum hverjar við erum,“ sagði hún.
„Við vorum alltaf staðráðnar í að koma til baka. Dagný og Áslaug Munda komu rosalega sterkar inn í leikinn sem og aðrir varamenn. Það var mjög jákvætt. Það er mjög svekkjandi að stela ekki sigrinum. Við þurfum að skoða hvernig við getum skorað meira þegar við fáum öll þessi færi,“ sagði hún enn fremur, en ítarlegra viðtal er í spilaranum.