Mark Stjörnunnar í 2-1 sigri gegn FH í Bestu deildinni í gær hefur verið milli tannanna á fólki. Nú hefur Stjarnan birt myndbrot frá nýju sjónarhorni.
Örvar Eggertsson skallaði boltann að marki en Mathias Rosenörn komst fyrir boltann. Vilhjálmur Alvar ætlaði ekki að dæma mark en Gylfi Már Sigurðsson, aðstoðardómari flaggaði markið. Í sjónvarpi var ómögulegt að segja hvort boltinn væri inni.
„Strákarnir sem voru í kringum þetta voru hundrað prósent á því að hann væri allur inni. Fyrir mér tók dómarinn erfiðu ákvörðunina. Auðvelda ákvörðunin er að láta þetta eiga sig,“ segir Jökull Elísabetarson, þjálfari Stjörnunnar, við samfélagsmiðla félagsins.
Honum var svo sýnt hið nýja sjónarhorn.,
„Í fljótu bragði held ég að þetta sé klárlega inni því Mathias er allur inni í markinu. Miðað við þetta er hann klárlega inni.“
Dæmi hver fyrir sig.