fbpx
Fimmtudagur 17.apríl 2025
Fréttir

Viðurkenndi að hafa brotið ítrekað gegn litlu systur sinni en var þó sýknaður

Ritstjórn DV
Þriðjudaginn 8. apríl 2025 15:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þann 26. mars féll dómur í sannkölluðum fjölskylduharmleik í Héraðsdómi Reykjavíkur. Þar svaraði karlmaður til saka fyrir ítrekuð kynferðisbrot gegn yngri systur sinni. Þrátt fyrir að maðurinn gengist við brotunum að hluta var ekki hægt að sakfella hann þar sem dómari taldi ekki sannað að brotin hefðu haldið áfram eftir að maðurinn varð sakhæfur við 15 ára aldur.

Fram kemur í dómi að aðstæður voru erfiðar hjá fjölskyldunni. Þar drottnaði ráðrík móðir yfir fjögurra systkina hóp. Brotaþoli í málinu var fullorðin þegar hún ákærði brotin og sagði þau hafa byrjað þegar hún var á bilinu 3-4 ára og staðið yfir þar til hún varð 11-12 ára. Gerandi hennar var bróðir hennar sem er átta árum eldri. Hún sagði hann hafa áreitt sig kynferðislega og beitt sig ýmsu kynferðisofbeldi, þar með talið nauðgun og notað hana til að leika eftir hluti sem hann hafði séð í klámi.

Sjá einnig: Ákærður fyrir kynferðisbrot gegn systur sinni á árunum 2003 til 2007

Leyniupptaka á kaffihúsi

Systirin kærði brotin í desember 2022. Áður en hún kærði hitti hún bróður sinn á kaffihúsi. Meðferðis hafði hún upptökupenna sem kærasti hennar hafði gefið henni í skógjöf. Hún tók upp samtalið og afhenti það lögreglu ásamt kærunni. Á upptökunni kannaðist bróðir hennar við að hafa brotið gegn henni en vísaði til þess að hafa bara verið „heimskur krakki“. Hún sagði bróður sínum að hún hefði engan áhuga á frekari samskiptum við hann, brotin hefðu haft alvarlegar afleiðingar á líf  hennar og hún ætlaði að greina fjölskyldu þeirra frá brotunum. Bróðirinn mótmælti því ekki en sagðist sjálfur vilja fá rými til að ræða málið við sambýliskonu sína.

Eftir þennan kaffihúsafund hafði bróðirinn þó beint samband við foreldra þeirra sem varð til þess að systirin greindi þeim ítarlega frá þeim brotum sem hún var beitt. Sambýlismaður hennar hlustaði á samtalið og brá mikið við að heyra lýsingarnar. Foreldrarnir lofuðu að loka á bróðurinn en stóðu svo ekki við það. Brotaþoli og eldri systir hennar eiga ekki í samskiptum við foreldra sína lengur vegna málsins.

Bróðirinn var kallaður í yfirheyrslu. Í þeirri fyrstu kannaðist hann við að hafa brotið ítrekað kynferðislega gegn systur sinni áður en hann varð sakhæfur. Öll brotin hefðu átt sér stað áður en hann missti sveindóminn í 9. bekk. Hann neitaði svo að tjá sig í næstu skýrslutöku. Foreldrar þeirra og annar bróðir skoruðust undan skýrslugjöf vegna fjölskyldutengsla.

Héraðssaksóknari felldi málið niður án ákæru en ríkissaksóknari felldi þá ákvörðun niður og sendi það til frekari rannsóknar. Loks var gefin út ákæra og fjöldi vitna stigu fram fyrir dómi sem meðal annars greindu frá því hvernig samskipti systkinanna hafi verið lítil sem engin í gegnum árin, hvernig systirin hafi frá unga aldri glímt við erfið meltingarvandamál sem hafi svo hætt þegar hún komst loksins út af heimilinu og vinkonur og fyrrverandi kærastar brotaþola staðfestu að hún hafði sagt þeim frá ofbeldinu. Eins stigu fram ráðgjafar Stígamóta og sálfræðingar sem staðfestu að systirin hefði leitað sér aðstoðar og að hún glímdi við áfallastreitu sem benti til áfalls á borð við kynferðisbrot.

Orð gegn orði

Brotaþoli sagðist hafa sagt móður sinni frá brotunum árið 2014 en móðir hennar þá sussað á hana. Síðan hefðu þær aldrei rætt þetta aftur fyrr en árið 2022. Eldri systir hennar sagði að móðirin hefði beitt fýlu- og reiðistjórnun á heimilinu og ekki hafi sömu reglur gilt fyrir alla á heimilinu. Ekki var tekið eins hart á málum sem vörðuðu ákæra og systkini hans. Eldri systirin segist alfarið trúa systur sinni og hefur hún lokað á bróður sinn enda kæri hún sig ekki um að umgangast kynferðisbrotamann. Foreldrar þeirra hafi þó tekið afstöðu með ákærða og gegn brotaþola.

Ákærði neitaði fyrir dómi að hafa brotið gegn systur sinni eftir að hann varð sakhæfur og neitaði að tjá sig um hvað hefði gerst fyrir þann aldur. Hann staðfesti þó framburð sinn hjá lögreglu um að hafa brotið gegn systur sinni áður en hann varð sakhæfur.

„Í málinu standa orð brotaþola á móti orðum ákærða. Það liggur fyrir dóminum að skera úr því hvort ákæruvaldið hafi sannað að ætluð brot ákærða hafi átt sér stað eftir að hann komst á sakhæfisaldur, en óumdeilt er að ákærði braut gegn brotaþola fyrir það tímamark. Dómurinn telur framburð brotaþola á heildina litið mjög trúverðugan og hann fær nokkra stoð í frásögnum vitna sem brotaþoli skýrði frá löngu eftir að atvikin áttu sér stað og enn fremur í vottorðum um afleiðingar brotanna sem liggja fyrir í málinu. Framburður ákærða er að mati dómsins síður trúverðugur en hann hefur reynt að gera sem minnst úr þeim brotum sem hann hefur þó viðurkennt að hafi átt sér stað fyrir sakhæfisaldur hans. Ákærði hefur á hinn bóginn frá upphafi verið mjög staðfastur í sínum framburði um að engin brot hafi átt sér stað eftir framangreint tímamark.“

Dómari rakti að sönnunargögn í málinu væru aðeins óbein en þó taldi hann upptökuna hafa eitthvað vægi. Þar hefði ákærði þó sagt systur sinni að hann hefði verið krakki þegar brotin áttu sér stað og því ekki  hægt að líta svo á að hann hafi játað á sig brot eftir sakhæfisaldur. Þar með væri ekki annað hægt en að sýkna ákærða og vísa einkaréttarkröfu systur hans frá dómi.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Flugmaður fékk fyrir hjartað í háloftunum nálægt Íslandi – Neyðarlending gerð

Flugmaður fékk fyrir hjartað í háloftunum nálægt Íslandi – Neyðarlending gerð
Fréttir
Í gær

Vitni segja dótturina hafa beitt foreldra sína líkamlegu ofbeldi

Vitni segja dótturina hafa beitt foreldra sína líkamlegu ofbeldi
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Lærði verkefnastjórnun en krafðist sérfræðileyfis á sviði félagsráðgjafar

Lærði verkefnastjórnun en krafðist sérfræðileyfis á sviði félagsráðgjafar
Fréttir
Fyrir 2 dögum

KS fyrstir til að nýta nýja varaleið OK um gervihnetti – Styrkir öryggi mikilvægra innviða

KS fyrstir til að nýta nýja varaleið OK um gervihnetti – Styrkir öryggi mikilvægra innviða
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pirringur vegna rafhlaupahjóla – „Moka inn sektum meðan þetta liggur einsog hráviði um alla borg“

Pirringur vegna rafhlaupahjóla – „Moka inn sektum meðan þetta liggur einsog hráviði um alla borg“
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Segir að Ragnar Þór sé kominn í „dauðasætið“ á síðum Morgunblaðsins

Segir að Ragnar Þór sé kominn í „dauðasætið“ á síðum Morgunblaðsins