Davíð Smári Lamude þjálfari Vestra var í Innkastinu á Fótbolta.net orðaður við þjálfarastarfið hjá Val, þetta er gert eftir fyrstu umferð Bestu deildarinnar.
Valur og Vestri gerðu 1-1 jafntefli í Bestu deild karla á sunnudag.
„Það eru pælingar hjá mönnum sem hafa meira að segja en hinn almenna Valsari,“ sagði Tómas Þór Þórðarson starfsmaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins og fyrrum ritstjóri enska boltans á Símanum.
Tekið var fram að þessi umræða hefði heyrst síðasta haust og nú aftur í vor þegar Besta deildin er að fara af stað.
„Við ætlum samt ekki að reka Túfa í fyrstu umferð,“ sagði Tómas um Srdjan Tufegdzic núverandi þjálfara Vals.
Valur Gunnarsson fyrrum markvörður Leiknis tók í sama streng í þættinum. „Maður er búin að heyra þetta oft, maður hefur heyrt að það vanti baráttu og ákefð.“
Tufegdzic tók við þjálfun Vals síðasta sumar þegar Arnar Grétarsson var rekinn úr starfi á Hlíðarenda.