Sigmundur Davíð er kokhraustur þegar kemur að vantrauststillögu stjórnarandstöðunnar
„Mér líst mjög vel á það, ef það stefnir í að þau ætli að manna sig upp í það að leggja fram vantraust þótt þau kalli það öðru nafni. Ég var farinn að óttast að það yrði ekkert úr þessu hjá þeim,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um tillögu stjórnarandstöðuflokkanna um þingrof og nýjar kosningar í viðtali við Morgunblaðið í dag, en bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið setja máli á forsíður sínar í dag.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir í viðtali við Fréttablaðið að tillagan hafi verið fyrirsjáanleg og að hann búist ekki við því að þingmenn Sjálfstæðisflokksins kjósi með tillögunni en þingmenn flokksins hafa meðal annars sagt að málið sé óþægilegt fyrir ríkisstjórnina.
Eins og kunnugt er þá kom í ljós að eiginkona Sigmundur Davíðs, átti eignarhaldsfélag í skattaskjóli, auk þess sem Ólöf Nordal og Bjarni hafa átta slík félög í gegnum tíðina.
Þá sagði gjaldkeri Samfylkingarinnar, Vilhjálmur Þorsteinsson, af sér í gær, vegna þess að hann á félag í Lúxemborg. Í færslu sem hann birti á Eyjunni í gærkvöldi upplýsti hann meðal annars að söluhagnaður sinn af hlutabréfum væri ekki tekjuskattskyld hjá íslenskum hlutafélögum .
Svo sagði hann orðrétt:
„Félagið er ekki í Lúxemborg vegna skattahagræðis, heldur fyrst og fremst vegna krónunnar, gjaldeyrishafta og óstöðugleika íslensks efnahags- og stjórnmálaumhverfis. Ef við værum í ESB og með evru væri engin ástæða að hafa svona félag annars staðar en á Íslandi. Á hinn bóginn hefði það verið félaginu mjög erfitt, og nánast ómögulegt, að starfa eins og það gerir ef það hefði verið íslenskt félag undir íslenskum gjaldeyrishöftum. Nógu erfið hafa höftin verið samt.“
Þing kemur saman á mánudaginn næsta. Mótmæli hafa verið boðuð á Austurvelli á sama degi auk þess sem 14 þúsund hafa skrifað undir lista þar sem farið er fram á að Sigmundur Davíð segi af sér.