Þetta segir Þorvaldur Daníelsson, 1. varaborgarfulltrúi Framsóknarflokksins, í aðsendri grein á Vísi sem vakið hefur talsverða athygli. Þar skrifar hann um rafíþróttir og þær vendingar sem urðu hjá honum þegar hann kynntist rafíþróttastarfinu.
Vendingarnar voru það miklar að á fundi borgarstjórnar í dag mun Framsókn leggja fram tillögu um að borgarstjórn skipi stýrihóp um rafíþróttir sem hefði það hlutverk að móta stefnu borgarinnar í þessum efnum.
Þorvaldur rifjar upp að á þessum tíma hafi hann rekið Hjólakraft, ungmennastarf í hjólreiðum, sem hafði það að markmiði að útvega börnum og unglingum, sem jafnan voru ekki að finna sig í hefðbundnu skólastarfi, vettvang til að finna köllun sína í gegnum hjólreiðar.
„Mér fannst litla barnið mitt, Hjólakraftur, efla lýðheilsu barna og ungmenna en viðraði óspart að það væri óheilbrigt að æfa rafíþróttir,“ segir Þorvaldur í grein sinni.
Hann segir að nokkru síðar hafi hann svo fengið smá kynningu á rafíþróttum og þá áttaði hann sig á því að æfa rafíþróttir er langt því frá það sama og að sitja inni í loftlausu herbergi, þambandi orkudrykki að spila skotleiki.
„Bara hreint ekki! Það er margt sem til dæmis Hjólakraftur og rafíþróttafélögin eiga sameiginlegt. Fyrst má kannski nefna að þetta snýst um samfélag – það að tilheyra. Líklega er það ein dýrmætasta tilfinning sem við getum fundið. Margir sem æfa rafíþróttir hafa ekki fundið sig í öðrum íþróttum og því er mikilvægt að finna félagsskap sem tekur vel á móti fólki. Í öðru lagi má nefna það, sem ég hafði engan veginn séð fyrir mér, að þeir sem æfa rafíþróttir þurfa að fara út í hreyfingu á æfingum!! Hverjum hefði dottið það í hug?? Það er magnað að heyra að krakkar séu að fara á rafíþróttaæfingu en þurfi að klæða sig eftir veðri og að þau séu með harðsperrur eftir æfingu. Það finnst mér eiginlega alveg geggjað. Í þriðja lagi, og það skiptir líka miklu máli, þá hafa rafíþróttafélögin lagt gríðarlega áherslu á næringu iðkenda. Þau vilja að iðkendur hugi að næringunni og séu ekki að ofnota orkudrykki og jafnvel helst ekki að nota þá,“ segir hann.
Þorvaldur segir að allir þessir hlutir hafi fengið hann til að hrífast frekar af því samfélagi sem rafíþróttasamfélagið er og losað hann undan þeim fordómum sem hann var fullur af. „Ég bókstaflega hataði rafíþróttir!,“ segir hann.
Þorvaldur lætur svo tillöguna sem Framsókn hyggst leggja fram í dag fylgja með grein sinni. Hún er eftirfarandi:
Tillaga borgarfulltrúa Framsóknarflokksins um stefnumótun Reykjavíkurborgar í rafíþróttum Lagt er til að Borgarstjórn skipi stýrihóp um rafíþróttir í Reykjavík sem hafi það verkefni að móta stefnu Reykjavíkurborgar í rafíþróttum.
Greinargerð
Á undanförnum árum hafa rafíþróttir rutt sér til rúms á Íslandi sem ný íþróttahreyfing. Sú hreyfing hefur, líkt og aðrar íþróttahreyfingar, það að markmiði að stuðla að betri heilsu og andlegri líðan barna. Með þessum áherslum hafa rafíþróttafélög hér á landi náð að laða til sín um 3500 iðkendur á grunnskólaaldri um allt land.
Fulltrúar félaga sem starfrækja rafíþróttadeildir hafa bent á að það sé afar jákvætt að flestir þessara iðkanda séu börn sem hafa sýnt lítinn áhuga á þátttöku í öðru hefðbundnu íþróttastarfi. Rafíþróttir virki því fyrir fjölda barna sem ekki hafa fundið sig í öðru skipulögðu íþróttastarfi og þannig stuðli rafíþróttir að bættri lýðheilsu barna sem íþróttahreyfingin hefur hingað til ekki náð til. Tvö íþróttafélög starfrækja rafíþróttadeildir, Fylkir og Ármann, og KR starfrækti rafíþróttadeild um tíma en hætti þeim rekstri vegna þess að frekari fjárstuðnings var þörf. Það er mat borgarfulltrúa Framsóknarflokksins að jafnræði eigi að ríkja á milli íþróttagreina þegar kemur að stuðningi borgarinnar við íþróttir barna. Þess vegna er brýnt að Reykjavíkurborg taki málið föstum tökum og móti stefnu í málefnum rafíþrótta.