Um var að ræða netkönnun sem gerð var dagana 7. til 16. mars síðastliðinn. Heildarúrtaksstærð var 1.742 og þátttökuhlutfall var 47,2%.
Í niðurstöðum könnunarinnar kemur fram að þetta sé svipað hlutfall og þegar spurt var fyrir þremur árum, en þá hafði stuðningurinn verið að aukast.
Bent er á að fyrir fimmtán árum voru 26% hlynnt aðild Íslands að Evrópusambandinu, fyrir ellefu árum 37% og fyrir þremur árum 47%. Munur á hlutfalli þeirra sem eru hlynntir aðild núna og fyrir þremur árum er ekki tölfræðilega marktækur.
Þeim hefur fækkað sem eru alfarið andvígir aðild en fjölgað sem eru alfarið hlynntir aðild. Þannig voru 26% alfarið andvíg árið 2010 en 17% árið 2025. Árið 2010 voru 7% mjög hlynntir aðild en 2025 voru það 14%.
Íbúar höfuðborgarsvæðisins eru frekar hlynntir því en íbúar landsbyggðarinnar að Ísland gangi í ESB. Fólk með háskólamenntun er sömuleiðis frekar hlynnt því en fólk með minni menntun að baki.
Þau sem kysu Viðreisn ef kosið yrði til Alþingis í dag eru helst hlynnt inngöngu Íslands í ESB og þá þau sem kysu Samfylkinguna. Þau sem kysu Framsóknarflokkinn eru helst andvíg inngöngu Íslands í ESB.