Vilhjálmur er ómyrkur í máli á Facebook-síðu sinni þar sem hann gerir málið að umtalsefni.
„Stjórnvöld hafa nú boðað að hætta samsköttun hjóna og sambýlisfólks. Þessi breyting er kynnt sem skref í átt að einfaldara og sanngjarnara skattkerfi, en í raun er hér um að ræða skattahækkun upp á 2,5 milljarða króna. Þetta eru ekki smámunir – þessi fjárhæð jafngildir fjórðungi af fyrirhuguðum hækkunum á veiðigjöldum,“ segir Vilhjálmur en tillaga ríkisstjórnarinnar hefur verið gagnrýnd harðlega.
Til dæmis sagði Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, í umræðum á Alþingi þann 3. apríl síðastliðinn:
„Þetta lítur út fyrir að vera lagatæknilegt atriði en í reynd hefur það djúpstæð áhrif á fjölskyldur um land allt. Þeir sem lenda í tímabundnu ójafnvægi í tekjum, t.d. vegna náms, veikinda eða barnauppeldis, munu nú greiða hærri skatta, einmitt þegar svigrúmið er minnst. Þegar annað foreldrið neyðist til að vera heima með barn vegna skorts á leikskólaplássi, þegar foreldri er í fæðingarorlofi eða þegar par skiptir með sér ábyrgð og annað er í námi þá hækkar skattbyrði heimilisins. Það gerist nákvæmlega þegar tekjurnar eru minnstar og útgjöldin eru mest.“
Vilhjálmur segir að það sem geri þetta enn alvarlegra sé að stjórnarflokkarnir lofuðu fyrir síðustu kosningar að tekjuskattar einstaklinga yrðu ekki hækkaðir.
„Nú, rúmlega 100 dögum síðar, er boðuð breyting sem felur í sér nákvæmlega það sem lofað var að gera ekki: hækkun á skattbyrði heimilanna,“ segir hann og heldur áfram:
„Það er einfaldlega rangt að halda því fram að þessi breyting hafi aðeins áhrif á efstu tekjutíundir. Hún mun einnig lenda harkalega á skuldsettum barnafjölskyldum, þar sem annað foreldrið vinnur jafnvel tvær vinnur eða mikla yfirvinnu til að ná endum saman, á meðan hitt sinnir börnum eða er í hlutastarfi. Þessi heimili hafa hingað til getað dreift skattbyrðinni á milli sín með sameiginlegri nýtingu skattþrepa – en sú leið verður nú lokuð,“ segir Vilhjálmur sem endar grein sína á þessum orðum:
„Það þarf að fara fram alvöru greining á áhrifum þessarar breytingar, áður en lengra er haldið. Því eitt er alveg ljóst: þetta er skattahækkun – og hún er ekkert annað svik við kjósendur.“