fbpx
Mánudagur 07.apríl 2025
Fókus

Æskuvinkona Bryndísar Klöru stígur fram – „Þá hringir síminn og heimurinn eins og ég þekki hann hrynur“

Fókus
Mánudaginn 7. apríl 2025 11:00

Eyrún Birna og Bryndís Klara.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Eyrún Birna Davíðsdóttir er æskuvinkona Bryndísar Klöru Birgisdóttur. Bryndís var 17 ára gömul þegar hún særðist lífshættulega í hnífstunguárás á Menningarnótt í fyrra. Hún lést sex dögum síðar, þann 30. ágúst.

Eyrún opnar sig um vinkonumissinn í pistli á Vísi. Hún rifjar upp hvað hún var að gera á Menningarnótt, en hún var að vinna um kvöldið og missti af fjörinu í miðbænum. Næsta morgun vaknaði hún snemma til að fara í kaffiboð.

„Ég var sumarlega klædd, enda gullfallegur ágústmorgun með sólskini og tilheyrandi fuglasöng. Á meðan ég klæddi mig í skó sagði ég mömmu frá því sem ég hafði séð í fréttum, að 17 ára stúlka hafði verið stungin kvöldið áður. Þá hringir síminn og heimurinn eins og ég þekki hann hrynur,“ segir Eyrún.

„Vinkona mömmu var að hringja í hana til þess að segja henni að stúlkan sem varð fyrir stunguárásinni hafi verið æskuvinkona mín, Bryndís Klara. Hún sagði að Bryndís lægi núna uppi á spítala og líkurnar á því að hún lifði af væru agnarsmáar. Ég man hvað ég átti ótrúlega erfitt með að skilja þetta. Dagurinn hélt áfram í móðu. Ég fór í þetta blessaða kaffiboð eins og vofan af sjálfri mér, augljóslega með hugann við eitthvað allt annað. Skiljanlega. Hvað átti ég annað að vera að hugsa um á meðan Bryndís lá uppi á spítala og gat dáið á hverri stundu? Vikan fram að andláti hennar var helvíti. Að horfa á vinkonur sínar, foreldra og fjölskyldu Bryndísar, samnemendur og hreinlega alla þjóðina syrgja eitthvað sem ég skildi ekki fullkomlega. Þetta átti ekki að gerast. Þetta átti ekki að geta gerst.“

„Það var náttúrulega gjörsamlega óskiljanlegt að heimurinn stöðvaðist ekki“

„Bryndís var ósköp venjuleg stelpa. Við kynntumst í 1.bekk í grunnskóla og höfðum verið vinkonur síðan þá. Við fórum saman á fimleika- og fótboltaæfingar eftir skóla, skrópuðum í dægró, löbbuðum út í ísbúð, fórum í sumarbúðir saman, gistum og lékum í Barbí,“ segir Eyrún og heldur áfram:

„Við ólumst upp saman. Bryndís var skemmtileg, dugleg, klár, metnaðarfull og traust vinkona, svo góð að það hálfa hefði verið nóg með hjartað á alveg hárréttum stað. Hún elskaði að hlusta á One Direction, Ariana Grande og Bruno Mars og bleikur var uppáhaldsliturinn hennar. Framtíðin var svo sannarlega björt fyrir elsku Bryndísi.“

Næstu vikur og mánuðir voru erfiðir. „Það var náttúrulega gjörsamlega óskiljanlegt að heimurinn stöðvaðist ekki. Að jörðin héldi áfram að snúast. Mér fannst erfitt að sjá fólk pirra sig eða gleðjast yfir litlum ómerkilegum hlutum eins og eyðu í tíma eða strætóseinkunum. Hvert einasta fagnaðarefni var litað af því að Bryndís myndi aldrei geta upplifa það,“ segir Eyrún.

„Missinum fylgdi einnig mikið samviskubit. Samviskubit yfir að gleðjast þegar maður átti að vera að syrgja. Samviskubit yfir að hafa ekki hitt hana oftar. Samviskubit yfir að syrgja þegar ég vissi að missir foreldra hennar var svo miklu meiri.“

Verum riddarar kærleikans fyrir Bryndísi

En tíminn líður og Eyrún er að læra að lifa með sorginni og þróa með sér nýtt hugarfar.

„Ég er alls ekki að segja að sorgin hafi minnkað en ég er að læra að leyfa mér að sakna og syrgja það sem hefði getað verið. Því það að sakna einhvers er merki um ástina sem þú barst til þeirra og minningarnar sem þið áttuð saman. Ég sakna Bryndísar hvern einasta dag. Ég vildi að ég gæti knúsað hana, talað við hana og heyrt hana hlæja bara einu sinni enn. En það segir mér líka hversu gott það var að knúsa og tala við hana. Hversu gott það var að fá að vera vinkona hennar og hversu mikið ljós og kærleik hún gaf af sér.

Ljósið hennar veitir mér núna innblástur. Ég ætla að vera ljósið í lífi annarra eins og hún var ljós í lífi mínu. Og ég hvet þig, kæri lesandi, til að gera hið sama. Lifðu í núinu. Vertu þakklátur fyrir það sem þú hefur. Knúsaði fólkið þitt extra fast. Hringdu í ömmu og afa. Elskaðu náungann. Vertu ljósið í lífi einhvers. Verum riddarar kærleikans. Fyrir Bryndísi.“

Pistilinn má lesa hér.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Enginn treystir Trump

Nýlegt

Fókus
Fyrir 5 dögum

Harmsaga vinsælustu klámstjörnu Pornhub – Hvar er Lana Rhoades í dag?

Harmsaga vinsælustu klámstjörnu Pornhub – Hvar er Lana Rhoades í dag?
Fókus
Fyrir 5 dögum

Næsta stóra kynlífsáskorun Bonnie Blue – Er þetta líkamlega hægt?

Næsta stóra kynlífsáskorun Bonnie Blue – Er þetta líkamlega hægt?
Fókus
Fyrir 6 dögum

Starfsmenn Hallgrímskirkju ráku upp stór augu í morgun

Starfsmenn Hallgrímskirkju ráku upp stór augu í morgun
Fókus
Fyrir 6 dögum

Jón Jónsson lifandi gína á Laugavegi

Jón Jónsson lifandi gína á Laugavegi