Hallgrímur og Sólveig Anna voru gestir í þættinum Synir Egils á Samstöðinni í gær og lentu þau í snörpum orðaskiptum um woke-hugmyndafræðina svokölluðu.
Sjá einnig: Sólveig Anna urðar yfir woke-ið og Hallgrím í hressilegum orðaskiptum – „Woke er ömurlegt“
DV fjallaði um málið í gær en til að gera langa sögu stutta sagði Sólveig Anna að woke-ið væri ein mest óþolandi hugmyndafræði sem hægt væri að hugsa sér og að vinstri menn þyrftu að átta sig á því að tími þess sé liðinn, enginn þoli það lengur.
„Ég trúi ekki að ég sé að hlusta á Sólveigu Önnu tala gegn woke. Ég bara trúi því ekki,“ sagði Hallgrímur og hristi hausinn og sakaði síðar Sólveigu Önnu um að tala eins og Donald Trump Bandaríkjaforseti. Þá hló Sólveig Anna og sagði fólk sem héldi slíku fram lifi í búbblu.
Hallgrímur spurði þá hvort að Sólveig Anna væri að tala gegn trans fólki, hommum eða lesbíum. „Woke er bara að vera næs við fólk,“ sagði Hallgrímur meðal annars en nánar má lesa um orðaskipti þeirra hér.
Hallgrímur gerði umræðuna upp á Facebook-síðu sinni í gærkvöldi þar sem hann sagði:
„Og ég sem ætlaði að eiga rólegan sunnudag! Svo kallaði (Gunnar) Smári mig óvænt inn á síðustu stundu í Syni Egils á Samstöðinni. Enn meira kom á óvart að heyra Sólveigu Önnu í miðjum þætti kalla woke ömurlegt. Ég hljóp á mig og sagði hana tala eins og Trump, en sá samstundis fyrir mér þessa frétt á Vísi, sá eftir T-orðinu og bað hana afsökunar í þættinum,” segir Hallgrímur og heldur áfram:
„Í kjölfarið fagna svo verkalýðsforingjanum allir hægridúddarnir á X-inu og Snorri Másson poppar af gleði. Verð að játa að ég sá þessar vendingar ekki fyrir. Hélt að woke væri sjálfsagður hlutur öllu vökulu fólki og velmeinandi. En þarna ná Efling og Miðflokkurinn óvænt saman, sem og Mistflokkurinn í Valhöll. En við höldum kúrs og lúffum aldrei á mannréttindum allra, hvar í kyni, húðlit, stríðum og óréttlæti sem þau standa. Veljum alltaf mannúð gegn mannhatri!”
Woke-hugtakið hefur verið nokkuð áberandi í umræðunni síðustu misseri og sitt sýnist hverjum um merkingu þess. Upphaflega kemur það úr enskri tungu og þýðir einfaldlega að vera vakandi og meðvitaður um félagslegt óréttlæti af ýmsum toga, kynþáttafordóma sérstaklega. Ef viðkomandi er „woke“ sé hinn sami tilbúinn að taka afstöðu gegn þessu óréttlæti.
Í seinni tíð hefur hugtakið verið notað til að gagnrýna einstaklinga eða hreyfingar sem taldar eru ganga of langt í pólitískri rétthugsun. Þá er það „woke“ ef það er ýkt í réttlætisbaráttu sinni.
Deilur þeirra Hallgríms og Sólveigar Önnu vöktu talsverða athygli og gerði rithöfundurinn Guðmundur Andri Thorsson til dæmis málið að umtalsefni á Facebook-síðu sinni.
„Hann var fróðlegur árekstur Sólveigar Önnu og Hallgríms á Samstöðinni í gær út af woke-isma. Mér fannst þau bæði hafa ýmislegt til síns máls, en þau voru ekki að tala saman heldur sundur, eins og við gerum stundum hér,“ sagði Guðmundur Andri og hélt áfram:
„Aldrei myndi ég nota ‘woke’ sem skammaryrði. Upphafsmerking hugtaksins vísar til baráttu upp á líf og dauða hjá svörtu fólki, einkum körlum: að vera á verði gagnvart rasískum ummerkjum til þess einfaldlega að komast lífs af gegnum daginn, bregðast rétt við áreiti, láta ekki koma sér úr jafnvægi, vera með allt sitt á hreinu. Merkingin hefur breiðst út til annarra hópa sem eiga ofsóknir á hættu, transfólks, innflytjenda, trúarhópa. Við eigum að bera virðingu fyrir þeirri mannréttindabaráttu og hugtakinu í þessari upphaflegu merkingu,“ sagði Guðmundur Andri sem vísaði svo í nýlega fréttir um stöðu mála í Bandaríkjunum.
„Nú finnst mér að þessi merking gæti farið að víkka út til allra þeirra sem teljast aðkomumenn í BNA og gætu lent í því að vera tekin höndum og flutt inn í eitthvert svarthol, alsaklaus og án nokkurrar málsmeðferðar; um þetta eru teknar að berast hrollvekjandi sögur, en auðvitað bara frá hvítu fólki; þau sem eru brún á hörund hafa ekki jafn greiðan aðgang að fjölmiðlum.“
Um afstöðu Sólveigar Önnu segir hann þetta:
„Sólveig Anna er hins vegar að vísa til þess sjálfsbirgingsháttar sem oft gætir hjá fólki sem vill styðja hvers kyns mannréttindabaráttu en gerir það með því að setja sig á siðferðilega háan hest, án kærleika og án umburðarlyndis, án vitundar um mannlegan breyskleika, af siðferðislegri vandlætingu og dómaþorsta: canselisminn, sniðgöngumenningin hefur gengið alltof langt. Þessi stefna hefur fært valdasæknu fólki upp í hendur vopn gagnvart samborgurum sínum; ásökun um einhverja óhæfu, sem þarf svo ekki að sanna. Ásökunin hefur verið notuð sem vopn gagnvart berskjölduðu fólki sem upplifir opinbera smánun og útskúfun án þess að geta borið hönd fyrir höfuð sér.“
Færslu sína endaði hann á þessum orðum:
„Þetta lýsir sér líka í óþoli gagnvart því að fólk sem hefur annan þankagang en maður sjálfur fái rými sitt og pláss en sé ekki þaggað niður í því snarlega.
Því miður hefur þetta göfuga hugtak úr lífsbaráttu svartra farið að merkja í hugum almennings kröfu um að fallast skilyrðislaust á tiltekna skoðun eða sýn, þöggunartilburði, dómhörku og skort á umburðarlyndi.“