Ólöf Björnsdóttir fyrrum tengdamóðir Eiríks Ásmundssonar, barnsföður Ásthildar Lóu Þórsdóttur fyrrverandi mennta- og barnamálaráðherra, stígur á ný fram í aðsendri grein á Vísi. Hún gagnrýnir Ásthildi Lóu harðlega og segir umræðuna um mál hennar hafa þróast með vafasömum hætti. Ólöf stendur föst á því að Ásthildur Lóa hafi tálmað umgengni Eiríks við son þeirra og segir engan annan standa á bak við það að hún hafi haft samband við forsætisráðuneytið vegna málsins.
Varla þarf að rekja eitt heitasta málið í íslensku samfélagi það sem af er þessu ári en það snerist í sem stystu máli um að Ásthildur Lóa sagði af sér eftir að upplýst var um samband þeirra Eiríks fyrir um 35 árum en þau eignuðust barn saman þegar hún var komin yfir tvítugt en hann var 16 ára.
Ólöf segir í grein sinni að hún standi enn fast á því að ekki hafi verið viðeigandi að Ásthildur Lóa gegndi þessu embætti með slíka forsögu í farteskinu.
Hún fullyrðir að samband hafi byrjað þegar Eiríkur var 15 ára en Ásthildur Lóa 22 ára þótt barnið hafi komið undir þegar Eiríkur var 16 ára:
„Þetta viðurkenndi Ásthildur Lóa þegar hún hringdi í mig í fyrsta sinn til að ræða þetta mál. Það gerði hún í vitna viðurvist mín megin sem geta staðfest það. Ásthildur Lóa var á þessum tíma byrjuð í kennaranámi í háskóla. Eiríkur að útskrifast út grunnskóla.“
Ólöf ítrekar það sem áður hefur komið fram að Eiríkur hafi búið við mjög erfiðar heimilisaðstæður á þessum árum en fundið vonarglætu í trúarsöfnuðinum Trú og líf þar sem hann kynntist Ásthildi Lóu. Ólöf minnist á það að Ásthildur Lóa neiti að hafa verið leiðbeinandi í söfnuðinum eins og fyrst var fullyrt en telur þá undarlegt að hún hafi verið á þeim samkomum safnaðarins sem ætlaðar hafi verið unglingum:
„Hvað svo sem safnaðarmeðlimur á fullorðinsaldri hefur verið að gera á vikulegum unglingasamkomu, án þess að unglingar teldu hana þar í hlutverki leiðbeinanda og fulltrúa eldri safnaðarmeðlima, fæ ég illa skilið.“
Ólöf segist hafa ákveðið að hafa samband við forsætisráðuneytið vegna málsins þar sem henni hafi verið brugðið þegar Ásthildur Lóa varð ráðherra málefna barna og sömuleiðis að af lestri upplýsinga um ráðherrann á vefsíðu Alþingis hafi mátt ráða að umrætt barn hefði hún eignast með núverandi eiginmanni sínum.
Ásthildur Lóa og sonur hennar og Eiríks hafa bæði staðfastlega neitað því að umgengni hans við son sinn hafi verið tálmuð. Þau segja Eirík einfaldlega ekki hafa sýnt því mikinn áhuga til lengdar að vera í reglulegum samskiptum við son sinn.
Þessu neitar Eiríkur og Ólöf tekur undir með honum. Eiríkur og dóttir hennar hafi tekið saman örfáum árum eftir að sambandi Ásthildar Lóu og Eiríks lauk og það hafi blasað við að hann hafi verið tálmaður:
„Ég upplifði angist hans á þessum tíma yfir að fá ekki að vera faðir sonar síns.“
Hún fer síðan í ítarlegu máli yfir það sem hún segir bersýnilega sýna fram á tálmun af hálfu Ásthildar Lóu:
„Eiríkur fór í gegnum formlegt ferli innan kerfisins en það var ekki nóg, Ásthildur Lóa tók það ekki til greina, hún tók ekkert til greina. Það er þess vegna ótrúlegt að heyra hana halda því fram að hún hafi ekki tálmað umgengi Eiríks við son sinn. Að Eiríkur hafi ekki sýnt syni sínum áhuga, á sama tíma og hún hefur lýst því að hún hafi ekki treyst honum til þess að taka barnið, þegar hann óskaði eftir því.“
Ólöf segir umræðuna um málið hafa þróast með ótrúlegum hætti. Yfirlýsingar Ásthildar Lóu séu ekki sannleikanum samkvæmar:
„Í þessu máli hefur fólk hins vegar kosið að trúa ekki barnsföður Ásthildar Lóu. Þess í stað hefur það tekið hennar frásögn, í hreint makalausri yfirlýsingu, sem algildum sannleik. Þeir sem það gerðu mættu horfa fastar í augu við eigin samvisku, hafandi litið fram hjá eða góðkennt ótrúlega ósmekklegan áburð og dylgjur. Hvað vilja menn annars kalla frásögn ráðherrans fyrrverandi þegar hún ber upp á ungling sem þá var um það bil að útskrifast úr grunnskóla, að hafa sýnt háskólanemanum henni slíkan sjúklegan áhuga, eltihrellt hana, að hún sá sér þann kost einan að hefja við hann samband.“
Ólöf lýsir einnig mikilli óánægju með framgöngu forsætisráðuneytisins í málinu og segir meðal annars að gagnstætt því sem haldið hafi verið fram hafi henni verið heitið trúnaði:
„Ég vil lýsa stórkostlegri furðu á vinnubrögð forsætisráðuneytisins, sem varpa líka ljósi á öryggisbresti þar innanhúss. Það liggur fyrir að ég hringdi í forsætisráðuneytið. Það gerði ég í þeim tilgangi að óska eftir upplýsingum um hvort farið væri með erindi sem þangað berast í gegnum tölvupóst sem trúnaðarmál. Svarið var já. Ég vildi að það væri algjörlega öruggt og spurði aftur, því ég vildi ekki að þessar upplýsingar færu um borg og bý. Aftur staðfesti starfsmaðurinn það.“
Vill Ólöf meina að Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra hafi brugðist í málinu.
Ólöf hafnar að lokum öllum ásökunum um að aðilar sem tengjast Sjálfstæðisflokknum eða öðrum aðilum hafi fengið hana til að hafa samband við forsætisráðuneytið vegna málsins. Það hafi hún alfarið tekið upp hjá sjálfri sér og segir fullyrðingar um annað, sem grasseri á samfélagsmiðlum, enga stoð eiga í veruleikanum.
Hún hafi raunar aldrei kosið Sjálfstæðisflokkinn. Í síðustu kosningum hafi hún kosið Samfylkinguna en í þeim næstu muni hún alls ekki kjósa Flokk fólksins.
Lýkur Ólöfu greininni með eftirfarandi orðum:
„Og þetta er sannleikurinn í tengdamömmumálinu.“
Greinina í heild er hægt að lesa hér: