Það var hiti undir lok leiks norður á Akureyri í gær, þar sem KA tók á móti KR í fyrstu umferð Bestu deildarinnar. Tvö rauð spjöld fóru á loft í leiknum, sem lauk 2-2.
Aron Sigurðarson fékk að líta beint rautt spjald eftir viðskipti við Andra Fannar Stefánsson undir lok venjulegs leiktíma, en miðað við textalýsingar frá leiknum á hann að hafa slegið til Andra þegar boltinn var hvergi nærri.
Hjalti Sigurðsson fékk svo sitt annað gula spjald og þar með rautt í uppbótartíma. Óskar Hrafn Þorvaldsson þjálfari KR hafði lítið út á spjald Hjalta að setja en sagði ákvörðun Jóhanns Inga Jónssonar dómara varðandi Aron „risastóra.“
„Spjaldið hans Arons, ég sé þetta ekki, ég er í snóker, Andri reif í hann og Aron reif í Andra og Andri reif svo aftur í hann og reynir Aron að losa sig og hvort það var viljandi eða ekki. Jóhann tekur þessa ákvörðun og hann verður að lifa með henni, hann verður að geta horft í spegil í kvöld þegar hann fer að bursta tennurnar og verið sáttur við sjálfan sig.
Ég vona svo sannarlega að hann verði það því þetta var stór ákvörðun, risastór ákvörðun, og alls ekki fyrsta stóra ákvörðunin sem hann tekur á móti mínu liði á þessum velli en ég vona bara að þetta hafi verið rétt hjá honum. Ég get ekki svarað þér,“ sagði Óskar við Stöð 2 Sport eftir leik.
Þess má geta að Aron, fyrirliði og algjör lykilmaður KR, verður í banni gegn Val í stórleik í næstu umferð.
Hér að neðan má sjá helstu atriði leiksins.