CNN segir að margir sérfræðingar bendi á að vökvaneysla sé oft eitthvað sem fólki yfirsést þegar það reynir að lifa hollara lífi.
Vatn hefur marga góða kosti og er sem betur mjög aðgengilegt hér á landi. Vatnsdrykkja getur átt hlut að máli við að lækka blóðþrýstinginn, vinna gegn sykursýki, hjálpa meltingarfærunum og þörmunum og nýrunum. Það gerir húðinni einnig gott og fækkar mígreniköstum.
Sérfræðingar segja að eitt besta ráðið þegar kemur að því að tileinka sér nýjar venjur sé að tengja þær við aðrar. Þannig getur þú til dæmis byrjað að drekka eitt glas af vatni á meðan þú bíður eftir að kaffivélin ljúki við að hella upp á morgunkaffið. Þú getur líka skellt einu vatnsglasi í þig á meðan þú ert að elda hádegismatinn.
CNN hefur eftir Natalia Dmitrieve að margir veiti því ekki athygli að þeir þjáist af vökvaskorti. Ein af ástæðunum fyrir honum sé að fólk hugsi ekki út í hversu mikið vatn það hafi þörf fyrir og viti ekki af ráðleggingum varðandi hæfilega vatnsdrykkju.