Disney er ekki þekkt fyrir framleiðslu sjónvarpsefnis sem gerir mikið út á kynlíf og erótík en um þessar mundir er frumsýnd á efnisveitu fyrirtækisins, Disney+, leikin þáttaröð sem breytir nokkuð út af þeirri venju. Er hún byggð á sögu raunverulegrar konu sem vatt kvæði sínu í kross með róttækum hætti eftir að hún var greind með fjórða stigs krabbamein. Skildi hún við eiginmanninn og hóf að skoða sjálfa sig sem kynveru með því að lifa ævintýralegra kynlífi en nokkru sinni áður og þegar yfir lauk hafði hún stundað kynlíf með um 200 karlmönnum.
Hún var bandarísk og hét Molly Kochan. Saga hennar er sögð í fjölmiðlum víða um heim, meðal annars Daily Mirror, í tilefni frumsýningu þáttaraðarinnar en það er leikkonan Michelle Williams sem fer með hlutverk hennar í þáttunum.
Molly var 42 ára árið 2015 þegar henni var tjáð af læknum að hún væri með fjórða stigs brjóstakrabbamein og væri þar með dauðvona. Hún hafði fyrst 10 árum áður fundið hnúð í öðru brjóstinu en verið tjáð að hún væri allt of ung til að fá krabbamein. Árið 2011 var hún þó greind með brjóstakrabbamein og undirgekkst þá tvöfalt brjóstnám, lyfjameðferð og geislameðferð en það dugði ekki til.
Molly sagðist hins vegar ekki vera tilbúin til þess að deyja. Hún skildi við eiginmanninn og hóf að kanna sjálfa sig betur sem kynveru og áður en krabbinn sigraði endanlega árið 2019 hafði hún sofið hjá um 200 karlmönnum.
Molly hafði að mörgu leyti átt erfitt líf. Foreldrar hennar skildu, stjúpfaðir hennar braut kynferðislega á henni, hún átti í erfiðu sambandi við móður sína, sem var fíkill og eiginmaðurinn, þegar hann kom til sögunnar, var stjórnsamur.
Með því að lifa kynlífi með þessum hætti á eigin forsendum fannst Molly hún ná endanlega stjórn á lífi sínu áður en dauðinn sigraði.
Molly ákvað að vera ekkert að fela hvað var að eiga sér stað og samþykkti með glöðu geði að ræða kynlíf sitt við vinkonu sína Nikki Boyer í hlaðvarpi sem fékk titilinn Dying for Sex (Að deyja fyrir kynlíf) en sjónvarpsþættirnir bera sama titil.
Í hlaðvarpinu ræddu þær vinkonurnar, auk kynlífs Molly, meðal annars fyrirgefningu, glímuna við áföll fortíðar og hvernig eigi að eyða tímanum sem eftir er í lifanda lífi.
Molly sagði í hlaðvarpinu að fram að dauðadómnum hefði hún verið góð í að fullnægja öðrum í kynlífi en ekki vitað sjálf hvað henni líkaði best í þeim efnum.
Hún sagði ævintýralegar sögur af kynlífinu. Einn maður vildi að hún sparkaði í eistun á honum og annar vera í búri eins og hundur á meðan öllu stóð.
Nikki sagði síðar að vinkona hennar hefði verið mjög umhyggjusöm gagnvart bólfélögum sínum og taldi að eftir því sem þeim fjölgaði hafi hún í raun verið að leita meira að ást.
Michelle Williams segir að eftir að hafa hlustað á hlaðvarpið í skamma stund hafi hún brostið í grát og samþykkt þegar í stað að leika Molly í þáttunum. Tekur leikkonan sérstaklega fram að hún sé með þykkan skráp og verði ekki svo auðveldlega tilfinninganæm.
Áður en hún lést skrifaði Molly endurminningar sínar, Screw Cancer (Til fjandans með krabbamein). Í bókinni sagðist hún aldrei hafa upplifað eða náð almennilega að tengja við hugmyndina um hefðbundna rómantíska ást. Hún viðurkenndi að hún hafi hluta til með öllum þessum bólfélögum verið að leita að sannri ást og hún hefði alveg viljað enda söguna með því að finna draumaprinsinn en hann hafi aldrei komið. Molly sagðist hins vegar hafa lært að elska eina manneskju á meðan þessum ævintýralega ferli stóð og áður en yfir lauk en það var einfaldlega hún sjálf.
Nánar má lesa um sögu Molly Kochan hér.