fbpx
Föstudagur 11.apríl 2025
Fréttir

Hætti við ferðina vegna áreitis en fær ekki endurgreitt

Jakob Snævar Ólafsson
Fimmtudaginn 3. apríl 2025 17:30

Mynd: Eyþór Árnason. Myndin tengist fréttinni ekki beint.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Erlend kona sem var á ferðalagi hér á landi síðasta vor fær ekki endurgreitt fyrir ferð sem hún afbókaði með skömmum fyrirvara. Sagðist konan hafa orðið fyrir áreiti og viljað hætta við ferðina og halda sem fyrst af landi brott. Hún hafi fengið þær upplýsingar að hún gæti fengið endurgreitt en það hafi verið dregið til baka en hún þá verið búin að bóka flug úr landi.

Það er Kærunefnd vöru- og þjónustukaupa sem kvað upp úrskurð í málinu en konan sneri sér til nefndarinnar eftir að henni var neitað um endurgreiðslu.

Konan greiddi fyrir ferðina hjá ónefndu fyrirtæki og krafðist endurgreiðslu frá því en fyrirtækið hafnaði kröfunni.

Í kvörtun konunnar kom fram að hún hefði greitt fyrirtækinu fyrir tveggja daga ferð í maí 2024. Alls hafi hún greitt fyrir ferðina 574,83 bandaríska dollara (um 76.500 íslenskar krónur). Hún hafi hins vegar orðið fyrir áreiti skömmu fyrir ferðina og í kjölfarið haft samband við fyrirtækið og lýst aðstæðum og kannað möguleika á endurgreiðslu.

Í úrskurðinum kemur ekkert fram um í hverju þetta áreiti hafi falist.

Sagði konan að starfsmaður fyrirtækisins hafi fullvissað hana um að hún fengi endurgreitt að fullu. Þá hafi hún bókað sér flug til síns heima frá Íslandi. Nokkrum klukkustundum síðar hafi hún aftur á móti fengið tölvupóst frá fyrirtækinu þar sem komið hafi fram að hún þyrfti að hafa samband við annað fyrirtæki, vegna beiðni um endurgreiðslu, þar sem fyrirtækið hafi aðeins haft milligöngu um kaupin á ferðinni. Fyrirtækið hafi í póstinum hafnað endurgreiðslu með vísan til skilmála þess.

Að efna gefin loforð

Vildi konan meina að fyrirtækinu bæri að efna gefin loforð og bæta fyrir eigin mistök. Hún hafi verið meðvituð um ákvæði skilmála fyrirtækisins um afbókanir og því haft sérstaklega samband til að athuga hvort hún gæti fengið endurgreitt vegna aðstæðna sinna. Eftir loforð frá starfsmanni fyrirtækisins hafi hún bókað flug heim fyrr en áætlað var og þar af leiðandi ekki komist í ferðina. Þar af leiðandi krefðist hún endurgreiðslu.

Fyrirtækið hafnaði kröfum konunnar á þeim grundvelli að ferðin hafi verið á vegum annars fyrirtækis og því gildi afbókunarskilmálar þess. Sagðist fyrirtækið bæði selja eigin ferðir en einnig ferðir á vegum samstarfsaðila. Sagði fyrirtækið að í umrætt sinn hafi konan haft samband símleiðis og verið í miklu uppnámi. Til svara hafi verið nýr starfsmaður sem hafi tjáð henni hvaða reglur giltu um afbókanir hjá fyrirtækinu. Strax eftir símtalið hafi hins vegar annar starfsmaður haft samband við hana og upplýst hana um að hún þyrfti að hafa samband við hitt fyrirtækið enda væri ferðin á vegum þess. Sagðist fyrirtækið þegar hafa greitt hinu fyrirtækinu 80 prósent af kaupverði ferðarinnar en væri tilbúið að endurgreiða konunni hlut fyrirtækisins af kaupverðinu sem væri 20 prósent.

Fullt gjald

Í niðurstöðu kærunefndar vöru- og þjónustukaupa segir að gögn málsins beri með sér að í bókunarstaðfestingu sem barst konunni eftir að hún bókaði ferðina komi skýrt fram að greiða skuli fullt gjald ef ferð sé afbókuð þegar innan við tveir dagar séu til hennar. Ljóst sé að málsaðilum beri ekki saman um hvað fór fram í umræddu símtali en fyrir liggi að starfsmaðurinn sem fyrir svörum varð hafi veitt upplýsingar um skilmála fyrirtækisins.

Segir nefndin að konan hafi ekki sýnt fram á með fullnægjandi hætti að hún hafi samið munnlega við fyrirtækið um aðra skilmála en sem gildi samkvæmt skýrum afbókunarreglum sem hafi komið fram í bókunarstaðfestingunni. Konan hafi afbókað ferðina með minna en 48 klukkustunda fyrirvara og skilyrðin fyrir endurgreiðslu hafi því ekki verið uppfyllt.

Kröfum konunnar var þar með hafnað.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Umtalsverð tekjuaukning hjá Klöppum

Umtalsverð tekjuaukning hjá Klöppum
Fréttir
Fyrir 22 klukkutímum

Varar ríkisstjórnina við að breyta þessum málaflokki – „Myndi skaða samkeppnishæfni okkar á erlendum vettvangi“

Varar ríkisstjórnina við að breyta þessum málaflokki – „Myndi skaða samkeppnishæfni okkar á erlendum vettvangi“
Fréttir
Í gær

Vorfundur Rarik haldinn á Selfossi – „Hreyfum samfélagið til framtíðar“

Vorfundur Rarik haldinn á Selfossi – „Hreyfum samfélagið til framtíðar“
Fréttir
Í gær

Forstjóri Icelandair sendir yfirvöldum tóninn: „Þetta er alls ekki góð þróun”

Forstjóri Icelandair sendir yfirvöldum tóninn: „Þetta er alls ekki góð þróun”
Fréttir
Í gær

Vill sjá sameiningu Þingeyinga – Yrði lang stærsta sveitarfélag landsins

Vill sjá sameiningu Þingeyinga – Yrði lang stærsta sveitarfélag landsins
Fréttir
Í gær

Öll börn fædd árið 2025 fá veglega gjöf frá Bónus

Öll börn fædd árið 2025 fá veglega gjöf frá Bónus
Fréttir
Í gær

Áfram í gæsluvarðhaldi vegna Gufunesmálsins

Áfram í gæsluvarðhaldi vegna Gufunesmálsins
Fréttir
Í gær

Jakob: Eftir sex ára rekstur hefur enginn beðið um að sjá réttindin – „Lögreglan hefur engan tíma í eftirfylgni á þessu“

Jakob: Eftir sex ára rekstur hefur enginn beðið um að sjá réttindin – „Lögreglan hefur engan tíma í eftirfylgni á þessu“