fbpx
Föstudagur 11.apríl 2025
Fréttir

„Auðveldara fyrir Trump að „vinna“ viðskiptadeilur við Laos eða Madagaskar en við Evrópusambandið eða Kína“

Kristinn H. Guðnason
Fimmtudaginn 3. apríl 2025 13:30

Karen segir tollana munu hafa hræðileg áhrif á verst settu ríkin.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Karen Kjartansdóttir, almannatengill, bendir á að verndartollar Donald Trump sem kynntir voru í gær leggist harðast á lítil og fátæk ríki sem geti illa varið sig. Ríki sem hafa gengið í gegnum áföll á undanförnum árum og áratugum og eru auðvelt skotmark fyrir Trump.

„Þegar grannt er skoðað kemur í ljós að þau lönd sem lenda í hæstu tollunum Trumps eru ekki stærstu efnahagskeppinautarnir – heldur viðkvæmustu ríkin, þróunarlöndin og smáríkin sem hafa lítið bolmagn til að verja sig,“ segir Karen í færslu á samfélagsmiðlum.

Bendir hún á að ef þróunarlöndin fari í djúpa kreppu hafi það afleiðingar fyrir alla heimsbyggðina. Flóttamannastraumur aukist sem og hungursneyð, rányrkja náttúruauðlinda, efnahagshrun og meiri spennu og minna traust á alþjóðavettvangi.

„Tollahækkanirnar ógna milljónum starfa, sérstaklega í verksmiðjum sem framleiða fyrir bandaríska markaði og bitna harðast á konum og láglaunafólki,“ segir Karen.

Hæstu tollarnir á viðkvæmustu ríkin

44 prósent tollur er lagður á Sri Lanka. Karen bendir á að landið hafi lýst yfir gjaldþroti árið 2022, glími enn þá við djúpa efnahagskreppu og eigi erfitt með að afla gjaldeyris.

Sömu prósentu er skellt á Mjanmar sem búi við einræðisstjórn og efnahagslega einangrun.

Bangladess, eitt fátækasta og fjölmennasta ríki heims, hafi byggt upp öflugan textíliðnað sem sé nú í hættu vegna 37 prósenta tolla.

„Bosnía og Hersegóvína, með 35% tolla, er enn brothætt ríki eftir borgarastyrjöldina á Balkanskaga. Ríkið er enn í uppbyggingarferli og háð alþjóðastyrkjum, ESB og þróunarsamvinnu. Útflutningsgetan er takmörkuð og atvinnuleysi hátt, sérstaklega meðal ungs fólks,“ segir Karen.

Botsvana fái 37 prósenta tolla. Karen segir að þó að Botsvana sé tiltölulega stöðugt ríki í Afríku þá sé efnahagurinn háður hráefnaútflutningi, einkum demöntum. Háir tollar muni veikja möguleika landsins til að selja sérhæfðar vörur á alþjóðamarkaði og tekjur ríkisins dragast saman, sem muni svo leiða til þess að félagsleg þjónusta veikist.

„Mósambík, 16% tollur. Ekki há prósenta miðað við önnur lönd, en mjög viðkvæmt ríki sem nýverið gekk í gegnum skuldavanda, fellibyl og innaríkisátök. Jafnvel lágir tollar geta haft óhófleg áhrif þegar útflutningsgrunnurinn er veikur og tekjuöflun ríkisins er í lágmarki,“ segir Karen.

Mál Lesótó, smáríkis í suðurhluta Afríku, hefur vakið athygli enda fær það hæsta tollinn, 50 prósent og er nú orðinn 99 prósent. Karen gerir ráð fyrir að þetta muni valda stórfelldum efnahagsáföllum.

Að lokum minnist hún á Fílabeinsströndina, sem fær 21 prósent toll. Land sem glími við mikla fátækt. Tollar á unnar vörur og hráefni muni hafa afkomu á bændur þar og efnahagslegan stöðugleika í landinu.

Auðveldara að vinna slag við minni máttar

„Það sem sameinar mörg þessara ríkja er ekki aðeins efnahagsleg viðkvæmni heldur einnig sú staðreynd að þau hafa ekki áhrifavald í alþjóðakerfinu. Þau eru utan stórra viðskiptasamninga, eiga ekki varnarsamninga við Bandaríkin og hafa lítil eða engin vopn til að svara með gagnráðstöfunum,“ segir Karen.

Þessar þjóðir hafi oft lagt tolla til að vernda eigin framleiðslu gegn rándýrum innflutningi frá iðnríkjum og oft með samþykki Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Bandaríkin virðist engu að síður beita þessi varnarlausu lönd meiri hörku en stórveldi.

„Það er vissulega auðveldara fyrir Trump að „vinna“ viðskiptadeilur við Laos eða Madagaskar en við Evrópusambandið eða Kína. Þessi lönd geta ekki svarað fyrir sig og eru auðvelt skotmark,“ segir hún.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Elín Metta komin heim
Fréttir
Fyrir 15 klukkutímum

Tveimur samningsbrotamálum gegn Íslandi vísað til EFTA-dómstólsins

Tveimur samningsbrotamálum gegn Íslandi vísað til EFTA-dómstólsins
Fréttir
Fyrir 16 klukkutímum

Arna Magnea birtir hatursfull skilaboð frá þekktum einstaklingum

Arna Magnea birtir hatursfull skilaboð frá þekktum einstaklingum
Fréttir
Í gær

Bláskógabyggð sögð skaðabótaskyld

Bláskógabyggð sögð skaðabótaskyld
Fréttir
Í gær

Kristinn svarar pistli blaðamanns: „Ég var að biðja þessar ungu konur að færa fórn“

Kristinn svarar pistli blaðamanns: „Ég var að biðja þessar ungu konur að færa fórn“
Fréttir
Í gær

Umdeildur fyrirlesari á leið til Íslands – „Einn versti zíonistinn á netinu“

Umdeildur fyrirlesari á leið til Íslands – „Einn versti zíonistinn á netinu“
Fréttir
Í gær

Skítafýla skekur Skagamenn – „Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvað þetta er ógeðsleg lykt“

Skítafýla skekur Skagamenn – „Það er eiginlega ekki hægt að lýsa því hvað þetta er ógeðsleg lykt“