Fannar var gestur í Körfuboltakvöldi á Stöð 2 sport í janúar 2019. Hann var spurður út í veganúar, sem hann sagði vera bull, og bætti við að kulnun í starfi væri ekki til og væri einfaldlega bara leti.
Sjá einnig: Æsingur á Stöð 2 Sport: „Kulnun í starfi er leti!“ – „Þess vegna eru slysasjóðir VR bara tæmdir!“
Fannar var gestur í hlaðvarpsþættinum Betkastið á dögunum og var spurður út í atvikið.
„Hvað voru margir kaldir komnir í blóðið þegar fræga klippan var tekin upp á körfuboltakvöldinu um kulnun í starfi?“ spurði Alexander Már, þáttastjórnandi Betkastsins
„Engir, ekki neitt. Þetta er bull. Kulnun í starfi er ekki til, þetta er leti,“ svaraði Fannar um hæl.
„Þetta er svo mikið kjaftæði. Ég var ný flogin heim að norðan af stjórnarfundi á Keahotels, ég get svo svarið það. Menn geta fokkað sér með þetta kjaftæði. Ég labbaði beint inn og þegar einhver byrjaði: „[væluhljóð] kulnun.“ Það er ekki til!“
@betkastid Don’t call it a comeback! #fyp #podcast #betkastið #iceland #bonusdeildin #basketball #körfubolti ♬ original sound – Betkastið
Fannar spurði síðan Alexander hvort hann ætlaði í alvöru að láta hann fara í gegnum þetta og áður en hann náði að segja nei sagði Fannar æstur: „Ég skal fara í gegnum þetta. Kulnun í starfi er ekki til! Þá hættirðu í þessari vinnu sem þú átt ekki að vera í.“
Fannar rifjaði síðan upp tíma sinn í fjárhúsi þegar kindur skitu á hann. Útvarpsmaðurinn Tómas Steindórsson, sem einnig var gestur í þættinum, spurði hvort það hafi þá ekki verið stutt í kulnun.
„Nei! Þetta er ekki til! Kulnun í starfi er ekki til, leti. Það er ekki okkar sem erum að borga skattana hérna, að tromma upp eitthvað lið, þá bara fara að vinna annars staðar, sorry. Ég skal alveg moka skítinn aftur ef ég þarf þess.“
Kulnun var viðurkennd sem sjúkdómur af Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO) í maí 2019. Á vef Virk kemur fram:
„Kulnun er heilkenni sem er afleiðing langvarandi streitu á vinnustað sem ekki hefur tekist á árangursríkan hátt að ná stjórn á. Einkenni kulnunar eru á þrem víddum: 1) Orkuleysi eða örmögnun 2) Andlega fjarverandi í vinnu, neikvæð viðhorf eða tortryggni tengd vinnustað 3) Minni afköst í vinnu.“