„Ég er alsaklaus, ég gerði ekkert rangt,“ segir Hermann Ólafsson grindvíkingur, sem oft er kenndur við fyrirtæki sitt Stakkavík og kallaður Hemmi í Stakkavík.
Hermann var handtekinn af sérsveitinni í Grindavík í morgun og færður í fangaklefa í Keflavík. Í viðtali á Vísi segist hann hafa verið handtekinn blásaklaus og hafa áttað sig á því þegar hann losnaði úr fangaklefa að allir miðlar fluttu fregnir af handtökunni.
„Þetta er bara mannorðssvipting,“ segir Hermann. „Ég er í sjokki. Tekinn af víkingasveitinni, snúinn niður, handjárnaður og hent í steininn. Og allt er þetta haugalygi.“
Hermann lýsir því svo til við Vísi að hann hafi farið inn í Grindavík til að ná í skotbómulyftara sem var við fyrirtæki hans, Stakkavík sem hann segir farið á hausinn. Lyftarann noti hann til að gefa fé sínu hey, en féð er Stað sem er vestarlega við Grindavík, nálægt golfvelli Grindavíkur. Hann hafi fengið leyfi fyrir ferðinni hjá björgunarsveitarmanni sem hann þekki.
„Ég spurði hann hvort hann vildi ekki fá myndir af kallinum með haglarann og hann tók af mér nokkrar myndir. Ég meira að segja brosti til hans. Ég beindi byssunni upp í loftið og gekk svo frá henni. Ég get svo Guðsvarið það. Ég sýndi honum byssuna. Ég fór inn í Grindavík með björgunarsveitarmönnum. Ef þeir hefðu þurft áfallahjálp hefðu þeir aldrei farið með mér. Þeir fylgja mér að Stakkavík, við tökum lyftarann og förum,“ segir Hermann sem segist hafa misst fyrirtækið sitt, hrossin sín og fjölskyldan hafi tvístrast.
Sjá einnig: Jón Þór í kjölfar byssuógnar í Grindavík – „Við hlúum að okkar fólki“
Sérsveitin hafa síðan birst með öll ljós blikkandi.
„Að svona lið skuli vera að pönkast í mér! Þeir skipa mér að fara út, vilja rífa mig út og ég streittist eitthvað á móti, er 150 kíló og orðinn sjötugur. Ég var hræddur um það þeir myndu meiða mig. Ég sagði, leyfið mér að komast út. Næsta sem ég veit er að þeir liggja ofan á mér og handjárna mig. Þarna var þröngt og ég meiddi mig á handjárnunum. En ég var bara tekinn eins og stórglæpon svo var farið með mig inn í Keflavík. Ég hef aldrei upplifað að vera tekinn svona. Og mér svo hent inn í lítinn klefa.“
Hermann sver af sér að hann hafi ógnað einhverjum. Hann hafi fengið lögmann, skýrslan tekin og hann síðan látinn laus. „Þetta er haugalygi frá upphafi til enda. Það vita allir,“ segir Hermann sem hefur uppi hin verstu orð um sérsveitarmennina og einnig björgunarsveitarmennina.
Hermann segir björgunarsveitarfólkið ljúga upp á sig og það verði bið á að hann styrki sveitina aftur.
Lesa má viðtalið við Hermann nánar á Vísi.